Myndir frá Vísindadögum

12 des 2014

Myndir frá Vísindadögum

Myndir frá Vísindadögunum sem haldnir voru í skólanum dagana 4. – 5. desember eru komnar hér inn á síðuna. Hefðbundið skólastarf var þá brotið upp m.a. með kynningum nemenda á því fjölbreytta starfi sem farið hefur fram í skólanum á haustönninni.

Boðið var upp á stórskemmtilegar sálfræðitilraunir, verklegar æfingar í náttúrufræði og eðlisfræði, þátttöku í uppeldisfræðispili nemenda  ásamt ýmsum kynningum á verkefnum í félagsfræði, landafræði, erfðafræði og íslensku svo eitthvað sé nefnt. Nemendur í lífsleikni kynntu einnig áhugamál sín með mjög áhugaverðum hætti. 

Þátttakendur gátu einnig gætt sér á ávöxtum og grænmeti á sérstöku hlaðborði, skoðað Læðuna í krók og kima, en þar er um að ræða rafbíl sem Orkubú Vestfjarða gaf skólanum á sínum tíma. Allir áttu þess einnig kost að leysa vísindaþraut en einn vinningshafi fékk veglegan vinning.  Þá var einnig veitt sérstök viðurkenning fyrir besta verkefni  vísindadaganna  og heppnir þátttakendur voru dregnir út í happdrætti. Nemendafélagið bauð nemendum upp á  kvikmyndakvöld á fimmtudeginum og  tölvuleikjastund á föstudegi eftir að hefðbundinni dagskrá lauk. 

Dagskránni lauk með verðlaunaafhendingu á föstudeginum. Starfsfólki skólans og nemendum bar saman um að vel hefði tekist til og að vísindadagarnir væru vonandi komnir til að vera sem hluti af skólastarfinu.

Allir íbúar skólasamfélagsins, nær og fjær, voru velkomnir í skólann á meðan á Vísindadögunum stóð.

Til baka