12 mar 2018

Opið hús 20. mars

Þriðjudaginn 20. mars verður opið hús hér í MÍ. Þá bjóðum við velkomna alla þá sem vilja kynna sér námsframboð og starfsemi skólans. Ýmislegt verður í boði svo sem ratleikur og leiðsögn.

8 mar 2018

Geðheilbrigði, geðsjúkdómar og úrræði

Hugrún er félag sem haldið er uppi af áhugasömum háskólanemum sem brenna fyrir því að bæta vitneskju og umræðu um geðheilbrigði, útrýma fordómum og efla ungmenni. Frá stofnun félagsins hefur vinna þess aðallega falist í því fræða framhaldsskólanema um geðheilbrigði, geðsjúkdóma og úrræði.
 
vefsíða Hugrúnar fór í loftið þann 7. mars en þar má nálgast helstu upplýsingar og fræðsluefni um geðheilbrigði og viðeigandi úrræði. Heimasíðan er sett fram með það að markmiði að vera skýr og aðgengileg fyrir ungt fólk.
 
Samhliða opnun heimasíðunnar fór af stað herferðin #Huguð en í henni fékk Hugrún hóp fólks til að deila reynslu sinni af ólíkum geðsjúkdómum og geðröskunum. Herferðinni er ætlað að vekja athygli á geðheilbrigði, fjölbreytileika geðsjúkdóma og þeim úrræðum sem sem standa til boða. Hér má sjá eina af reynslusögunum.
 
Hugum að geðheilbrigði. Verum #Huguð.
 
 
8 mar 2018

Vel heppnaðir Gróskudagar

Á þriðjudag og miðvikudag fóru fram Gróskudagar hér í MÍ. Þá er hefðbundin kennsla brotin upp og boðið upp á ýmiss konar smiðjur í staðinn. Smiðjurnar voru af ýmsum toga og gátu nemendur alls valið sex smiðjur. Smiðjurnar voru: verkstæði MÍ nema, gönguferð um Ísafjörð, Café Lingua, spilagaldrar, borðspil, myndbandakeppni, boccia, jóga, ljósmyndamaraþon, kareoke, kynfræðsla, skíðaganga, víkingaskák, tónlistarsmiðja, fjölmiðlar, skapandi skrif, kvikmyndasmiðja, bokkakökur, ofurhetjur í myndum og teiknimyndasögum, spilavist, út að leika, umhverfissmiðja og fyrirlestur með Heiðari Loga m.a. um lífið með ADHD. Fleiri myndir má finna í albúmi hér á síðunni sem heitir Gróskudagar 2018.

6 mar 2018

Háskólakynning í MÍ fimmtudaginn 8. mars

Á fimmtudaginn kemur, 8. mars, fer fram háskólakynning í MÍ. Kynningin fer fram í Gryfjunni milli kl. 11 og 13. Að henni koma allir háskólar landsins auk þess sem Háskólasetur Vestfjarða og Keilir kynna námsframboð sitt. Allir eru velkomnir á kynninguna.

5 mar 2018

3 verknámsnemendur til Danmerkur

Í gær fóru verknámsnemendur í skólaheimsókn í EUC Lillebælt í Fredericia í Danmörku. Nemendurnir þrír eru Steinn Daníel Þrastarson nemandi í grunndeild málmiðna og vélstjórnarnemarnir Ágúst Orri Valsson og Emil Uni Elvarsson. Munu þeir dvelja í Fredericia í alls þrjár vikur þar sem þeir fara bæði í tíma í skólanum en fara einnig og finna í fyrirtækjum.

Menntaskólinn og EUC Lillebælt, sem er stór verknámsskóli, hafa átt í farsælum samskiptum frá árinu 2011. Á haustin hafa komið danskir nemendur til okkar og á vorin hafa okkar nemendur farið til Danmerkur.

 

28 feb 2018

Sólrisuleikritið Konungur ljónanna

Leikfélag Menntaskólans á Ísafirði í samvinnu við Tónlistarskóla Ísafjarðar frumsýna á föstudaginn söngleikinn Konung ljónanna. Söngleikurinn er byggður á teiknimyndinni Lion King frá Disney og er frábær skemmtun fyrir alla fjölskylduna, unga sem aldna. Leikstjóri sýningarinnar er Ingrid Jónsdóttir og hljómsveitarstjóri er Beata Joó. Sýnt er í Edinborgarhúsinu og fara miðapantanir fram í síma 450 5555.

Sýningar eru á eftirtöldum tímum:

Frumsýning  2. mars kl 20:00
2. sýning       3. mars kl 14:00
3. sýning       5. mars kl 20:00
4. sýning       6. mars kl 20:00
5. sýning       9. mars kl 20:00
6. sýning       10. mars kl 20:00
7. sýning       11. mars kl 16:00
8. sýning       11. mars kl 20:00

 

Verð:

12 ára og eldri: 3500kr.
6-11ára: 3000kr.
3-5ára: 1500kr.
NMÍ: 3000kr.
Öryrkjar og eldri borgarar: 3000kr.
Frítt fyrir börn yngri en 3 ára!

28 feb 2018

Dagskrá Sólrisu 2018

Sólrisunefnd hefur birt dagskrá Sólrisuvikunnar. Við hvetjum nemendur, forráðamenn og bæjarbúa alla til að taka þátt í viðburðum vikunnar.

28 feb 2018

Skráning í smiðjur á Gróskudögum

Nú fer að líða að Gróskudögunum þar sem hefðbundin kennsla er brotin upp og boðið verður upp á smiðjur í staðinn. Til að komast í smiðjur verða nemendur að skrá sig í þær. Það er gert í gegnum þennan skráningarhlekk.  Lýsingar á hverri smiðju má finna hér

Fyrir þá nemendur sem eru ekki vissir um hvernig skráningin virkar er hér stutt kynningarmyndband 

Varðandi mætingu þá fá nemendurmætingablað hjá ritara og fá síðan límmiða fyrir hverja smiðju sem mætt er í. Mæta þarf í þrjá stokka hvorn dag (athugið að sumar smiðjur eru lengri en einn stokkur).

 

 

21 feb 2018

Pálmar Ragnarsson með fyrirlestur

Í morgun fengum við skemmtilegan fyrirlesara í heimsókn en þá kom Pálmar Ragnarsson og var með fyrirlestur á sal. Fyrirlestur Pálmars fjallaði um ýmislegt, m.a. markmið og samskipti. Þar kom hann m.a. inn á mikilvægi góðra samskipta í skólum og hvað hver og einn nemandi skiptir miklu máli. Góður rómur var gerður að fyrirlestri Pálmars eða svo vitnað sé beint í einn nemanda þá var fyrirlesturinn "ógeðslega skemmtilegur". Við þökkum Pálmari kærlega fyrir komuna.

13 feb 2018

Vetrarfrí

Fimmtudaginn 15. og föstudaginn 16. febrúar er vetrarfrí í skólanum. Engin kennsla er þessa tvo daga. Skrifstofa skólans er lokuð báða vetrarfrísdagana.