Fréttir

27 jan 2017

Gettu betur 2017

Keppni í Gettu betur hefst á Rás 2 mánudaginn 30. janúar. Fyrsta viðureignin þetta árið er viðureign MÍ og VA. Lið MÍ skipa þau Ína Guðrún Gísladóttir, Kolbeinn Sæmundur Hrólfsson og Vetuliði Snær Gylfason. Í fyrra komst lið MÍ sem kunnugt er í fyrsta sinn áfram í 3. umferð og þar með í sjónvarpskeppnina. Liðið í ár stefnir að sjálfsögðu að sama marki og er þeim óskað góðs gengis í keppninni á mánudaginn.
26 jan 2017

Sólinni fagnað

Eins og aðrir hér um slóðir fögnuðum við í MÍ sólarkomunni í dag. Nemendur og starfsmenn komu saman á sal, glöddust og gæddu sér á sólarkaffi í umsjón nemenda á þriðja ári.
 
20 jan 2017

Skráning í útskrift og úrsögn úr áföngum


Nemendur eru minntir á að síðasti frestur til að skrá sig úr áföngum er fimmtudagurinn 26. janúar. Ef nemendur ákveða að hætta í áfanga eftir þessa dagsetningu fá þeir skráð fall í áfanganum.

Þann 26. janúar er einnig lokafrestur til að skrá sig í útskrift hjá ritara, en útskrifað verður 27. maí.


3 jan 2017

Upphaf vorannar

Menntaskólinn á Ísafirði óskar nemendum, starfsmönnum og landsmönnum öllum gleðilegs árs, með þökk fyrir samstarfið á árinu 2016.

Skólastarf á vorönn hefst þann 5. janúar kl. 9 með samverustund á sal. Töflubreytingar hefjast hjá áfangastjóra og námsráðgjafa kl. 10 og standa til kl. 14 en nemendur sækja sér fyrst númer hjá ritara. Kennsla hefst svo samkvæmt stundaskrá föstudaginn 6. janúar kl. 8.10. Opnað verður fyrir stundatöflur nemenda í INNU þann 4. janúar. Heimavistin verður opin frá 4. janúar og nýir heimavistarbúar þurfa að hitta fjármálastjóra 5. janúar og skrifa undir samning. Mötuneyti skólans verður opið frá 5. janúar.

Með ósk um gott gengi á vorönn 2017!
22 des 2016

Gleðileg jól!

Menntaskólinn á Ísafirði óskar nemendum og starfsfólki gleðilegra jóla og farsæls nýjárs og þakkar samstarfið á árinu sem er að líða. Skrifstofa skólans verður lokuð það sem eftir lifir af árinu. Opnað verður aftur þriðjudaginn 3. janúar 2017 kl. 9. 

Starf með nemendum á vorönn hefst þann 5. janúar kl. 9, með stutri athöfn á sal. Töflubreytingar fara fram milli kl. 10 og 14 sama dag. Kennsla hefst samkvæmt stundaskrá kl. 8.10 þann 6. janúar.
22 des 2016

Opnunartími skrifstofu

Skrifstofa Menntaskólans á Ísafirði er nú lokuð. Opnar skrifstofan aftur þriðjudaginn 3. janúar 2017 kl. 9.
19 des 2016

Brautskráning 16. desember 2016

Föstudaginn 16. desember s.l. voru 13 nemendur brautskráðir frá skólanum við hátíðlega athöfn í Ísafjarðarkirkju. Alls luku fjórir nemendur stúdentsprófi, þrír af félagsfræðabraut og einn af viðskipta-og hagfræðibraut. Þá voru í fyrsta sinn útskrifaðir skipstjórar með B-réttindi (að 45 metrum). Alls luku 9 skipstjórar prófi með B-réttindi. Við athöfnina fluttu þau Madis Mäekalle, Matilda Mäekalle og Orri Daniel Llorens tónlist og verðlaun voru veitt fyrir góðan námsárangur.
16 des 2016

Brautskráning í desember

Útskriftarathöfn haustannar verður haldin í dag, 16. desember kl. 17 í Ísafjarðarkirkju. Að þessu sinni verða brautskráðir 13 nemendur frá skólanum, 9 skipstjórar með B réttindi og 4 stúdentar. Allir velunnarar skólans eru velkomnir á athöfnina. 
6 des 2016

Skýrsla um innra mat 2015-2016

Við MÍ fer fram innra mat á skólastarfinu eins og kveðið er á um í Aðalnámskrá  frá 2011 og reglugerð nr. 700 frá 2010 um mat og eftirlit í framhaldsskólum. Í 3. grein reglugerðarinnar segir m.a.:  

Hver framhaldsskóli skal með kerfisbundnum hætti meta árangur og gæði skólastarfsins. Virkt innra mat skal samofið annarri starfsemi skóla og skal skapa forsendur fyrir markvissu mati á árangri og leiðum að markmiðum skóla. Innra mat skal vera umbótamiðað og ná til allra helstu þátta skólastarfsins. Það skal stuðla að aukinni vitund um mikilvægi gæða í öllu starfi.

Tryggja skal virka þátttöku starfsmanna, foreldra, nemenda og skólaráðs í innra mati, eftir því sem við á. Innra mat skal byggja á fjölbreyttum gögnum sem taka mið af viðfangsefnum hverju sinni.

Framhaldsskólar skulu birta opinberlega og á aðgengilegan hátt, á heimasíðu sinni eða með öðrum hætti, upplýsingar um framkvæmd innra mats, helstu niðurstöður og umbótaáætlun. Einnig skal gera grein fyrir tengslum matsins við skólanámskrá og stefnu skólans.


Sjálfsmatsnefnd skólans sem sinnir innra mati hefur nú lokið skýrslu fyrir skólaárið 2015-2016. Skýrsluna má finna hér á heimasíðunni.
27 nóv 2016

Vísindadagar

Dagana 29. og 30. nóvember n.k.  verða vísindadagar í Menntaskólanum á Ísafirði. Er þetta í þriðja skiptið sem slíkir dagar fara fram. Á Vísindadögunum verður hefðbundið skólastarf brotið upp með sýningum og kynningum nemenda á því fjölbreytta starfi sem fram fer í skólanum.

Á Vísindadögunum
 verður ýmislegt í boði. Má þar nefna gagnvirka landafræðikynningu, efnafræðitilraunir, hægt verður að sjá þyngdarlögmálið með eigin augum, boðið verður upp á tímaflakk á tölvusýningu, FabLab verður opið þar sem hægt verður að fylgjast með nemendum gera silkiþrykk, stuttmyndir sem nemendur hafa gert sýndar og ýmiss konar kynninga og sýninga. Er þá aðeins fátt eitt upptalið af því sem nemendur skólans taka sér fyrir hendur á vísindadögum og erum við ákaflega stolt af hugmyndaauðgi þeirra og áhuga. Dagskránni lýkur með verðlaunaafhendingu á miðvikudeginum kl. 14:10. Veitt verða sérstakar viðurkenningar fyrir athyglisverðustu kynninguna og athyglisverðustu sýninguna. Dagskrá Vísindadaganna má finna hér.
 
Vísindadagar MÍ 2016 verða settir í Gryfjunni (sal MÍ) þriðjudaginn 29. nóvember kl. 8:10. Allir íbúar skólasamfélagsins nær og fjær eru velkomnir í skólann á meðan á Vísindadögum MÍ 2016 stendur.