18 okt 2016

Skólahjúkrun og heimanámsaðstoð

Skóli er svo margt! Menntaskólinn á Ísafirði er í áhugaverðum samstarfsverkefnum í heimabyggð til að sporna við brottfalli og bæta líðan nemenda. Annars vegar er það verkefni um skólahjúkrun í samstarfi við Heilbrigðisstofnun Vestfjarða en Rakel Ingvadóttir skólahjúkrunarfræðingur er með viðtalstíma í skólanum alla miðvikudaga frá kl. 10:30-12:00. Hins vegar er það samstarfsverkefni við Vesturafl og Starfsendurhæfingu Vestfjarða. Einn angi af því verkefni er heimanámsaðstoð sem verður í boði fyrir nemendur alla miðvikudaga frá kl. 15:15-16:15. Ýmislegt fleira er svo í farvatninu.
18 okt 2016

Styrktarhlaup NMÍ

Á morgun, miðvikudaginn 19.október, mun nemendafélag MÍ halda styrktarhlaup fyrir Krabbameinsfélagið Sigurvon. Hlaupið hefst við MÍ kl. 17:00 en skráning hefst kl. 16:30.

Þrjár göngu- og hlaupaleiðir eru í boði: 2,5 Km, 5 km og 10 km. Það kostar 500 krónur að taka þátt en öllum er velkomið að styrkja eins og hver vill. Endilega dragið með ykkur hlaupahópinn, fjölskyldu eða vinnufélaga - því fleiri því betra. Margt smátt gerir eitt stórt.

12 okt 2016

Skuggakosningar 2016

Skuggakosningar verða í skólanum á morgun, fimmtudaginn 13. október. Kjörfundur verður í stofu 10-11 og stendur frá kl. 9 til 16. Á kjörskrá eru allir nemendur í dagskóla sem fæddir eru 28. apríl 1995 og síðar. Kjósendur eru hvattir til að kynna sér framkvæmd skuggakosninga á síðunni egkys.is. Þar er einnig að finna upplýsingar um þá flokka sem munu bjóða fram lista í alþingiskosningunum þann 29. október n.k.
10 okt 2016

Lýðræðisvika í MÍ

Þessa dagana stendur yfir lýðræðisvika í flestum framhaldsskólum landsins. Kennarar eru hvattir til að leggja fyrir lýðræðistengd verkefni í tímum, hvetja nemendur til þess að svara spurningum kosningavitans og stuðla að  stjórnmálaumræðu í tímum. Lýðræðisvikan endar á skuggakosningum þann 13. október, en áður en nemendur ganga til atkvæðagreiðslu er mikilvægt að þeir taki upplýsta ákvörðun. Nánar er hægt að fræðast um lýðræðisvikuna og skuggakosningar á síðunni http://egkys.is
3 okt 2016

Vettvangsferð nema í B-námi vélstjórnar til Reykjavíkur

Nemendur í B námi vélstjórnar fóru á dögunum í vettvangsferð til Reykjavíkur og nágrennis í fylgd kennara síns Friðriks Hagalín Smárasonar. Lagt var af stað til Reykjavíkur snemma morguns þriðjudaginn 27. september og komið til Reykjavíkur eftir hádegi. Þá var haldið austur í Hellisheiðarvirkjun þar sem nemendur fengu langa og góða kynningu hjá Guðmundi Hagalín Guðmundssyni sem er forstöðumaður virkjanareksturs Orkuveitu Reykjavíkur. Daginn eftir var farið í heimsókn í Véltækniskólann fyrir hádegi og eftir hádegi var farið á Sjávarútvegssýninguna í Laugardalshöll. Fimmtudaginn 29. september var farið í heimsókn í Vélar og skip kl. 8 árdegis lagt af stað áleiðis heim um hádegið, eftir skemmtilega og fræðandi ferð. Nokkrar myndir úr ferðinni eru hér með og einnig á facebook síðu skólans. 
29 sep 2016

Úrslit í róðrarkeppni

Þá er árlegri róðrarkeppni MÍ lokið og úrslit ljós.
Sigurvegarar keppninnar að þessu sinni urðu Moby Dick og dvergarnir 6 og Sigþór en þeir réru á tímanum 00:49:35. Næstir komu Karlalið kennara á tímanum 00:54:82 og í þriðja sæti varð lið 1. bekkinga á tímanum 01:03:45. Alls tóku 8 lið í keppninni og gekk á ýmsu. Það má nefna að lið stjórnar NMÍ og lið Háskólaseturs 2 voru nánast hnífjöfn í mark eftir að bátar liðanna höfðu flækst saman á leiðinni. Lið NMÍ tókst þó fyrir harðfylgi að vera sjónarmun á undan liði Háskólaseturs. Þá urðu 2 síðustu liðin að hætta keppni vegna vaxandi hvassviðris undir lok keppninnar. Öllum keppendum er þökkuð drengileg keppni og einni öllum þeim sem stóðu að undirbúningi. Stefnt er að ennþá veglegri keppni næsta haust og víst er að ýmsir þykjast þar eiga harma að hefna.
29 sep 2016

Róðrarkeppni

Hin árlega róðrarkeppni fer fram á Pollinum í dag. Róið verður frá Edinborgarbryggju og hefst keppnin kl. 10.30 og reikna má með að hún standi til kl. 12. Að keppni lokinni býður stjórn NMÍ viðstöddum upp á grillaðar pylsur. Allir nemendur og starfsmenn eru hvattir til að mæta á keppnina og hvetja sín lið og einnig verður hægt að skrá lið alveg fram að keppni. Skráning er hjá ritara skólans.
29 sep 2016

Nýtt símkerfi tekið í notkun

Nýtt símkerfi hefur nú verið tekið í notkun í skólanum og hægt að fá samband við öll innanhússnúmer í gegnum símanúmerið 450-4400, á skrifstofutíma.
23 sep 2016

Nýtt símkerfi í MÍ

Í dag föstudaginn 23. september stendur yfir tenging á nýju símkerfi í skólanum. Vegna þessa gætu orðið truflanir á símasambandi við skólann fram eftir degi.
22 sep 2016

Skólafundur

Almennur skólafundur er haldinn á sal í dag, fimmtudaginn 22. september kl. 10.30. Allir nemendur og starfsmenn eru boðaðir á fundinn. Á fundinum verður rætt um kennsluhætti í MÍ með sérstakri áherslu á leiðsagnarnám.