24 nóv 2015

Innritun á vorönn 2016

Sameiginlegt innritunartímabil framhaldsskóla fyrir nám á vorönn 2016 er dagana 1.-30. nóvember. Sótt er um á Menntagátt  þar sem finna má leiðbeiningar um innritun. Upplýsingar um nám í má finna hér. 
20 nóv 2015

Próftafla birt

Búið er að birta próftöflu haustannar. Námsmatsdagar haustannar eru frá 14. - 18. desember. Dagana 14. - 16. desember eru prófadagar, 17. desember verða endurtektar og sjúkrapróf og föstudaginn 18. desember verður prófsýning milli kl. 10:00-11:00. Þann sama dag kl. 14:00 verður útskrift í Ísafjarðarkirkju. Próftöfluna má nálgast hér.
18 nóv 2015

Almenn kynning á Fab Lab

Í fundartímanum á morgun verða þeir Gunnar og Þórarinn í Fab Lab með áhugaverða kynningu á Fab Lab í MÍ. Kynningin fer fram í fyrirlestrarsalnum og hvetjum við nemendur til að mæta og kynna sér hvaða möguleikar Fab Lab gefa í námi og starfi. Þess má geta að við vorum að bæta við FAB103 í val á vorönn. Áhugasamir geta haft samband við aðstoðarskólameistara.
17 nóv 2015

Japanskur sendiráðunautur í heimsókn

Í morgun kom japanskur sendiráðunautur, hr. Tatsukuni Uchida í heimsókn í MÍ í fylgd Birnu Jónasdóttur hjá Atvinnuþróunarfélagi Vestfjarða og fyrrum nemanda MÍ. Hr. Uchida hélt stuttan fyrirlestur um Japan fyrir tvo nemendahópa og skoðaði síðan verknámshúsið. Heimsóknin var skemmtileg og fræðandi en henni lauk á því að hr. Uchida og Birna fengu að gjöf Sögu menntaskólans á Ísafirði til 2008 eftir fyrrum skólameistara MÍ, Björn Teitsson. Á heimasíðu japanska sendiráðsins má finna ýmislegt um styrki til náms í Japan.
16 nóv 2015

Dagur íslenskrar tungu haldinn hátíðlegur

Í dag 16. nóvember, á fæðingardegi Jónasar Hallgrímssonar er dagur íslenskrar tungu. Var hann haldinn hátíðlegur í MÍ með viðamikilli dagskrá á sal í umsjón íslenskukennaranna Emils Inga Emilssonar og Sólrúnar Geirsdóttur.  Þau Ragnar Óli Sigurðsson, Emma Jóna Hermannsdóttir og Veturliði Snær Gylfason lásu upp úr verkum sem öll tengdust Vestfjörðum á einhvern hátt. Isabel Alejandra Diaz og Kristín Harpa Jónsdóttir sungu Sofðu unga ástin mín og skáldið og fyrrum MÍ-ingurinn Eiríkur Örn Norðdahl las upp úr nýjustu skáldsögu sinni Heimsku. Dagskráin endaði síðan á spurningakeppni á netinu þar sem allar spurningarnar tengdust íslensku á einn eða annan hátt. Fleiri myndir frá dagskránni má finna á myndasíðunni en myndasmiður var Hjalti Heimir Jónsson.


13 nóv 2015

Frábær söngkeppni!

Mikið erum við í MÍ stolt af hæfileikaríkum nemendum okkar sem stóðu sig frábærlega öll með tölu í kvöld, keppendur, húshljómsveitin og aðrir sem gerðu söngkeppnina að veruleika. Söngatriðin voru alls 10 og stóðu flytjendur sig með miklum sóma.

Flytjendur voru Kristín Harpa Jónsdóttir, Erna Kristín Elíasdóttir, Sigríður Elma Björnsdóttir, Sigríður Salvarsdóttir, Þórður Alexander Úlfur Júlíusson, Þórhildur Bergljót Jónasdóttir, Anton Líni Hreiðarsson og Vilhelm Stanley Steinþórsson, Daníel Snær Viðarsson, Heiðdís Birta Jónsdóttir Thompson, Hafdís Katla Jónsdóttir Thompson og Melkorka Ýr Magnúsdóttir.

Sérstök húshljómsveit sá um undirleik en hana skipuðu Þormóður Eiríksson, Björn Dagur Eiríksson, Magnús Ingi Traustason, Slavyan Yordanov Yordanov og Kristín Harpa Jónsdóttir. Kynnir var fyrrum nemandi MÍ, Einar Viðar Guðmundsson.

Dómnefnd skipuðu Guðmundur Hjaltason, Dagný Hermannsdóttir, Steingrímur Rúnar Guðmundsson og Guðrún Jónsdóttir.

Úrslit keppninnar urðu þau að í 3. sæti varð Erna Kristín Elíasdóttir sem söng lagið One call away með Charlie Puth. Í 2. sæti varð Þórður Alexander Úlfur Júlíusson sem söng lagið Frome Eden með Hozier. Í 1. sæti varð Sigríður Elma Björnsdóttir sem söng lagið One and only með Adele. Hlutu þau margs konar verðlaun frá hinum ýmsu fyrirtækjum hér í bæ. Sigurvegarinn, Sigríður Elma, mun verða fulltrúi MÍ í Söngkeppni framhaldsskólanna 2016 og verður spennandi að fylgjast með henni stíga þar á svið.

Til hamingju öll sem eitt sem tókuð þátt og til hamingju Sigríður Elma með sigurinn. Nemendafélagi MÍ, öllum styrktaraðilum, hljóðmönnum, ljósamönnum og öðrum sem gerðu þessa keppni að veruleika þökkum við kærlega fyrir þeirra framlag.

Myndir frá keppninni má finna í myndaalbúmi hér á síðunni, myndasmiður var Hjalti Heimir Jónsson.
13 nóv 2015

Söngkeppni NMÍ er í kvöld

Söngkeppni Nemendafélags Menntaskólans á Ísafirði verður haldi í Edinborgarhúsinu í kvöld, föstudaginn 13. nóvember. Húsið opnar kl. 19:30 og keppnin byrjar kl 20:00. Aðgangseyrir er 1.000 kr. fyrir NMÍ og eldri borgara en 1.500 kr. fyrir ÓNMÍ og aðra gesti. Frítt er fyrir 12 ára og yngri. Allir eru velkomnir.
10 nóv 2015

Danskir nemar í heimsókn

Í síðustu viku komu þrír málmiðnnemar frá EUC Lillebælt-skólanum í Danmörku til þriggja vikna dvalar á Ísafirði. Nemarnir þrír, Jonas, Morten og Rasmus, voru fyrstu vikuna hér í skólanum en seinni tvær vikurnar munu þeir vinna í ísfirskum málmiðnfyrirtækjum. Á meðan á dvölinni í skólanum stóð sóttu þeir ýmsa tíma sem tengjast málmiðngreinum undir leiðsögn Tryggva Sigtrygssonar málmiðnkennara, en einnig sóttu þeir ýmsa aðra tíma og fóru m.a. í dönskutíma sem nokkurs konar aðstoðarkennarar. Þetta er fimmta árið í röð sem MÍ fær danska málmiðnnema í heimsókn. Eftir páska munu svo fjórir MÍ-ingar í málmiðngreinum halda til Danmerkur og dvelja þar við nám og störf í nokkrar vikur. Er þetta gott dæmi um vel heppnað samstarf bæði milli skóla og landa sem stækkar svo um munar sjóndeildarhring þeirra sem að koma.
5 nóv 2015

Moodle fyrir snjallsíma

Mjög mikilvægt er að nemendur fari reglulega inn á Moodle og fylgist með því sem þar er að gerast. Við viljum benda nemendum okkar á að hægt er að nálgast Moodle í snjallsímavænu umhverfi og má fá alla leiðbeiningar um það hér.
22 okt 2015

í kjölfar Bríetar-hópurinn í góðri heimsókn

Í morgun fengum við góða heimsókn frá þremur fulltrúum Í kjölfar Bríetar-hópsins, Dóru Hlín Gísladóttur, Dögg Árnadóttur og Ólöfu Dómhildi Jóhannsdóttur. Í kjölfar Bríetar er hópur sem stendur um helgina fyrir ráðstefnu hér á Ísafirði um stöðu jafnréttismála í tilefni af 100 ára afmælis kosningaréttar kvenna. Bauð hópurinn nemendum MÍ upp á áhugaverða dagskrá á sal sem tengdist á einn eða annan hátt jafnrétti. Horfðu nemendur á myndina The Startup Kids um unga veffrumkvöðla en áður en myndasýningin hófst fengu nemendur að heyra nokkur orð frá öðrum leikstjóra myndarinnar, Sesselju Vilhjálmsdóttur, í gegnum Skype. Að lokinni sýningu myndarinnar hófust umræður um jafnréttismál og því næst tók við skemmtileg spurningakeppni á netinu um ýmislegt sem tengist jafnrétti. Að lokum buðu Í kjölfar Bríetar-hópurinn og Hamraborg upp á pizzuveislu. Heimsóknin var í alla staði ánægjuleg og vakti vonandi nemendur MÍ til umhugsunar um stöðu jafnréttismála. Þökkum við í MÍ Í kjölfar Bríetar-hópnum kærlega fyrir okkur.