Áfangalýsing:
Í áfanganum eru kynntar þrjár greinar eðlisfræðinnar sem ekki hafa komið við sögu í fyrri eðlisfræðiáföngum. Í fyrsta hluta er unnið með afstæðiskenningu Einsteins, tregðukerfi og varpanir milli þeirra, samdrátt lengdar og tímateygingu. Fjallað verður um hraða, orku og skriðþunga skv. takmörkuðu afstæðiskenningunni. Í öðrum hluta er fjallað um helstu kenningar í atóm- og kjarneðlisfræði, geislavirkni, helmingunartíma, bindiorku og kjarnahvörf. Í þriðja hluta er fjallað um skömmtun orkunnar, tvíeðli agna, Bohr líkanið og óvissulögál Heisenbergs.
Forkröfur: EÐLI3RS05 og EFNA2AE05
Markmið:
Nemandi skal hafa öðlast þekkingu og skilning á:
- -Afstæðiskenningu Einsteins.
- Tímateygingu, samdrætti lengdar og massaaukningu nálægt ljóshraða.
- Samlagningu hraða, orku og skriðþunga skv. takmörkuðu afstæðiskenningunni.
- Kenningum um innri gerð atómsins.
- Kjarnahvörfum og geislavirkni.
- Skömmtun orkunnar, tvíeðli ljóss og hvernig ljóseindir víxlverka við efni.
- Bohr líkaninu.
- Óvissulögmáli Heisenbergs.
Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:
- Leysa eðlisfræðidæmi, s.s. reikna sýndarbreytingu í viðmiðunarkerfum á jöfnum hraða.
- Reikna orku og skriðþunga agna sem ferðast hratt.
- Setja upp og stilla kjarnahvörf.
- Leysa diffurjöfnu fyrir hrörnun geislavirkar efna.
- Reikna helmingunartíma.
- Reikna orku og bylgjulengdir ljóseinda.
Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:
- Sýna frumkvæði og beita gagnrýninni og skapandi hugsun við lausn eðlisfræðiverkefni.
- Öðlast sjálfstæði í því að afla sér þekkingar.
- Túlka lögmál eðlisfræðinnar með eigin orðum.
- Yfirfæra þekkingu úr öðrum greinum t.d. stærðfræði og efnafræði, yfir í eðlisfræði.
- Skrá lausnir sínar skipulega, túlka þær og rökstyðja og skiptast á skoðunum við aðra.
- Miðla þekkingu sinni og niðurstöðum.