JARÐ2EJ05

Almenn jarðfræði

Áfangalýsing:

Í áfanganum er fjallað um innræn og útræn öfl og sérstök áhersla er lögð á jarðfræði Íslands. Fjallað er um flekarek og heita reiti, jarðskjálfta og brotalínur og landmótun jökla og vatnsfalla og annarra útrænna afla. Farið er í mismunandi gerðir af eldvirkni, mismunandi kvikugerðir og storkubergsmyndanir. Eðli og uppruni mismunandi steinda er skýrður og fjallað sérstaklega um frumsteindir og holufyllingar í íslensku storkubergi. Fjallað er um hraungerðir, flokkun bergs, eldstöðvakerfi, helstu gerðir eldgosa, móbergsmyndanir, dyngjur, jarðvarmasvæði og jarðvarmaleit. Nemendur vinna sjálfstætt og í hópum að lausn verkefna. Áhersla er lögð á tengingu við umhverfi og reynsluheim nemenda.

 

Markmið:

Nemandi skal hafa aflað sér almennrar þekkingar og skilnings á:  

  • kenningum um landrek, botnrek og flekarek og mismunandi áhrifum eftir gerð flekamarka.
  • því helsta sem notað er til að spá fyrir um stóra jarðskjálfta.
  • muninum á frumstæðri og þróaðri kviku.
  • bergsyrpum og eldstöðvakerfum.
  • hvaða þættir hafa áhrif á kvikugerðir og hegðun eldgosa.
  • helstu einkennum eldstöðvarkerfa.
  • helstu djúpbergsmyndunum og þekkja nokkur dæmi.
  • myndun móbergsfjalla ásamt dyngjumyndun.
  • hvernig ytri öflin móta umhverfið.

 Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:  

  • lesa jarðfræðikort.
  • staðsetja flekamörk, gosbelti, þverbrotabelti og möttulstrók landsins.
  • hreina helstu storkubergstegundir Íslands og helstu frumsteindir og holufyllingar í storkubergi.
  • skoða mismunandi móbergsmyndanir.
  • koða áhrif vatns á goshegðun og myndun gosefna.
  • skoða bergganga ásamt flestum öðrum djúpbergsmyndunum.
  • áætla stærð og staðsetningu jarðskjálfta.
  • greina á milli háhita- og lághitasvæða og útskýra nýtingu jarðvarma.

 Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:  

  • nýta gagnrýna hugsun og sjálfstæði í vinnubrögðum við lausn verkefna.
  • túlka jarðlög og landslag út frá myndun og mótun þeirra.
  • tengja jarðfræðina við daglegt líf og umhverfi og gera sér grein fyrir notagildi hennar.
  • afla heimilda, meta þær og nýta á markvissan hátt til að lýsa myndun og mótun á afmörkuðu landsvæði í nánasta umhverfi.

 

Áfangakeðja í raungreinum