Áfangalýsing:
Áfanginn er hluti af brautarkjarna á félagsvísindabraut. Um er að ræða sögu vestrænnar menningar að mestu. Áherslan er á valda þætti í sögu 19. og 20. aldar, svo sem lífskjör, stjórnmál, samfélagsbreytingar og viðhorf. Íslandssögunni verður blandað inn í fyrrgreinda þætti og áhersla lögð á að nemendur átti sig á samhenginu á milli hennar og Evrópusögunnar. Samhliða umfjölluninni verður lögð áhersla á að nemendur átti sig á samhengi og samfellu í sögunni, leggi mat á viðfangsefnið. Nemendur vinna verkefni, bæði einstaklingsverkefni og hópverkefni, sem þjálfa sjálfstæð vinnubrögð og gagnrýna hugsun. Jafnframt verður áhersla lögð á heimildaleit, mismunandi heimildir, kosti þeirra og galla og ýmsar leiðir til úrvinnslu á efni.
Forkröfur: SAGA2FR05
Markmið:
Nemandi skal hafa aflað sér almennrar þekkingar og skilnings á:
- völdum þáttum vestrænnar sögu á 19. og 20. öld.
- helstu hugtökum og áhrifaþáttum sem einkenna tímaskeiðið.
- samhengi Íslandssögunnar við sögu Evrópu og heimsins.
- ýmsum sviðum sögunnar, s.s. einstaklingum, menningu, hugarfari og tækni.
- mismunandi tegundum heimilda og helstu vinnubrögðum við heimildaleit og heimildanotkun.
- mikilvægi gagnrýninnar hugsunar.
Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:
- lesa sagnfræðilega texta á íslensku og ensku og túlka þá.
- afmarka umfjöllunarefni, greina það og túlka.
- meta orsakir og afleiðingar.
- meta áreiðanleika heimilda á gagnrýninn hátt og nýta sér fjölbreytni þeirra í verkefnavinnu.
- setja upp sögulega heimildaritgerð, þar sem áhersla er lögð á viðurkennd vinnubrögð.
- nýta sér ólík miðlunarform í framsetningu efnis.
- leysa verkefni í samvinnu við aðra og skiptast á skoðunum á málefnalegan hátt.
- vinna sjálfstætt og á gagnrýninn hátt.
Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:
- sjá söguleg tímabil út frá forsendum hvers tímaskeiðs.
- koma þekkingu sinni á framfæri með fjölbreyttum hætti.
- geta tekið þátt í skoðanaskiptum og rökræðu með jafningjum um sagnfræðileg efni sem tekin eru fyrir í áfanganum.
- beita gagnrýnni hugsun.