14 jan 2020

Lið MÍ keppir í 2. umferð Gettu betur

Gettu betur lið MÍ komst áfram eftir keppni síðustu viku og tekur þátt í 2. umferð í dag, þriðjudagin 14. janúar, kl. 19.30. Lið MÍ mætir liði Verkmenntaskóla Austurlands.

Keppnin verður í beinni útsendingu á Rás 2.

Lið Menntaskólans á Ísafirði skipa Davíð Hjaltason, Einar Geir Jónasson og Þuríður Kristín Þorsteinsdóttir.

Þjálfari liðsins er Veturliði Snær Gylfason.

Við óskum liði MÍ góðs gengis og hvetjum alla til að fylgjast með í kvöld. Áfram MÍ. 

Áfram MÍ 

12 jan 2020

Vegna veðurs

Áríðandi tilkynning:
 
Vegna slæmrar veðurspár og færðar fellur skólahald í Menntaskólanum á Ísafirði niður mánudaginn 13. janúar.
 
Ef veðurspár næstu daga rætast gæti svo farið að skólahald falli einnig niður þriðjudaginn 14. janúar en fari svo verður send út tilkynning um það á morgun, mánudag.
 
Nemendur eru beðnir um að sinna áfram námi sínu á Moodle.
 
Í þessu sambandi er vakin athygli á tilkynningu frá Lögreglunni á Vestfjörðum:
Lögreglan á Vestfjörðum vill vekja athygli á veðurspá Veðurstofu Íslands, fyrir mánudaginn 13. janúar og í raun þriðjudaginn 14. janúar nk. Eins og veðurspáin sýnir verður ekkert ferðaveður á morgun og í raun ekki heldur á þriðjudaginn, a.m.k. á norðanverðum Vestfjörðum.
Útlit er fyrir að örðugt verði að halda vegum milli þéttbýlisstaða opnum í þessum aðstæðum og erfitt verður að komast milli staða í þéttbýlinu, ef veðurspáin gengur eftir.
Hvatt er til þess að fylgst sé reglulega með veðurspá og eins að skoða upplýsingar á vef Vegagerðarinnar og einnig má fá upplýsingar í símanúmerið 1777.
 
 
 
Stjórnendur Menntaskólans á Ísafirði

 

12 jan 2020

Fyrsta lota í húsasmíði vorönn 2020

Nú er dreifnám farið af stað í húsasmíði og hófst smíði á sumarhúsi á bílaplani skólans föstudagskvöldið í ágætis slagviðri. Má hrósa hópnum fyrir mikla seiglu við smíðina um helgina.

Skipstjórnarlotu þurfti hins vegar að fresta vegna veðurs þar sem veður hamlaði för bæði eins kennara og nokkurra nemenda og verður hún haldin næstu helgi í staðinn.

Alls stunda 53 nemendur dreifnám í húsasmíði og skipstjórn við MÍ.

9 jan 2020

Lið MÍ áfram í Gettu betur

Gettu betur lið MÍ sem þau Davíð Hjaltason, Einar Geir Jónasson og Þuríður Kristín Þorsteinsdóttir skipa keppti miðvikudagskvöldið 8. janúar við lið Fjölbrautaskólans í Ármúla. FÁ hafði betur í keppninni en MÍ komst áfram í næstu umferð sem stigahæsta taplið umferðarinnar. Mun lið MÍ keppa á móti Verkmenntaskóla Austurlands n.k. þriðjudag, 14. janúar.

Hægt er að fylgjast með Gettu betur á vef RÚV Núll:  www.ruv.is/null 

8 jan 2020

Gettu betur

Menntaskólinn á Ísafirði keppir við Fjölbrautaskólann við Ármúla í Gettu betur í kvöld, miðvikudaginn 8. janúar. Hægt er að fylgjast með keppninni á RÚV Núll kl. 21.00. www.ruv.is/null

Lið Menntaskólans á Ísafirði skipa Davíð Hjaltason, Einar Geir Jónasson og Þuríður Kristín Þorsteinsdóttir.

Þjálfari liðsins er Veturliði Snær Gylfason.

Við óskum liði MÍ góðs gengis og hvetjum alla til að fylgjast með í kvöld. Áfram MÍ. 

8 jan 2020

Upphaf vorannar 2020

Skólahald Menntaskólans á Ísafirði hófst mánudaginn 6. janúar með hraðstundatöflu og kennsla hófst samkvæmt stundaskrá þriðjudaginn 7. janúar.

Innritun fyrir vorönn er lokið bæði í fjarnám og dagskóla. 

Nemendur Menntaskólans á Ísafirði hafa aldrei verið fleiri en nú. Alls eru 477 nemendur skráðir í skólann.

Fjarnemum fjölgar stöðugt og eru nú 163.  Af fjarnemum eru 54 nemendur með Menntaskólann á Ísafirði sem sinn heimaskóla. Dagnemum fækkar og eru nú 161 dagnemi í skólanum. Í dreifnámi eru 20 nemendur í húsasmíði, 33 nemendur í námi á A-stigi skipstjórnar og 100 nemendur eru í sjúkraliðanámi.

Skólahald fer ánægjulega af stað með metfjölda nemenda í skólanum. 

 

28 des 2019

Undirritun samnings við Ísafjarðarbæ

Þann 18. desember s.l. var undirritaður styrktarsamningur milli Menntaskólans á Ísafirði og Ísafjarðarbæjar vegna afreksíþróttasviðs. Sex íþróttagreinar eru í boði á afreksíþróttasviðinu; blak, dans, handbolti, knattspyrna, körfubolti og skíðaganga. 

Í samninigi MÍ og Ísafjarðarbæjar er kveðið á um að framlag MÍ sé að skipuleggja starfsemi afreksíþróttasviðsins og semja við þjálfara um þjálfun í sínum greinum, Sjúkraþjálfun Vestfjarða um þrekæfingar og að leggja til kennara og húsnæði. Einnig er  rekstrarkostnaður, kynning og utanumhald í höndum MÍ.  Ísafjarðarbær leggur til 1.911.613 kr. sem eru ætlaðar í launagreiðslur til þjálfara þeirra íþróttagreina sem í boði eru auk þess sem sveitarfélagið leggur til tíma í íþróttahúsinu á Torfnesi sem eru annars ekki í notkun í samráði við forstöðumenn íþróttamannvirkja.

Jón Reynir Sigurvinsson, skólameistari Menntakólans á Ísafirði,og Guðmundur Gunnarsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar undirrituðu samninginn. Um 40 nemendur skólans stunda nám við afreksbrautina og var hluti þeirra viðstaddur undirritunina.

20 des 2019

Brautskráning í desember 2019

Þann 20. desember voru 14 nemendur brautskráðir frá Menntaskólanum á Ísafirði við hátíðlega athöfn í Ísafjarðarkirkju. Einn nemandi var útskrifaður með A-réttindi skipstjórnar og einn nemandi lauk sjúkraliðaprófi. Tólf nemendur útskrifuðust með stúdentspróf. Níu af opinni stúdentsbraut, þar af einn af afreksíþróttasviði. Tveir af félagsvísindabraut og einn lauk stúdentsprófi af fagbraut. Í athöfninni voru skírteini afhent, auk þess sem verðlaun voru veitt fyrir góðan námsárangur og framfarir í námi. Oliver Rähni nemandi á fyrsta ári lék á píanó í athöfninni. Skólinn óskar öllum útskriftarnemum góðs gengis í framtíðinni og þakkar þeim samstarf og samveru undanfarin ár.