Áfangalýsing:
Í áfanganum kynnast nemendur sögu og þróun íslenskra barna- og unglingabókmennta og fræðast um mál og menningarheim barna- og unglingabóka. Ennfremur um þróun barna- og unglingabókmennta frá upphafi ritunar þeirra til dagsins í dag sem og mismunandi birtingarform þeirra. Nemendur fá þjálfun í lestri fræðigreina um efnið og gera grein fyrir lestrarreynslu sinni munnlega og skriflega.
Forkröfur: ÍSLE2MG05
Markmið:
Nemandi skal hafa aflað sér almennrar þekkingar og skilnings á:
- helstu bókmenntafræðihugtökum sem tengjast barna - og unglingabókum.
- flokkun barna- og unglingabóka og geri sér grein fyrir ólíku efni þeirra, eðli og tilgangi.
Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:
- skrifa heimildaritgerðir og styttri texta um barnaefni.
- kynna verkefni sín munnlega og skriflega.
- átta sig á hvað einkennir góðar barna- og unglingabækur.
- nýta sér fræðileg vinnubrögð við úrvinnslu efnis.
Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:
- velja á gagnrýninn hátt lesefni handa börnum og unglingum.
- meta með gagnrýnum huga barnaefni af ýmsu tagi.
- semja efni sem ætlað er börnum.