Lokaverkefni

Áfangalýsing:

Áfanginn er sameiginlegur lokaverkefnisáfangi allra námsbrauta. Í þessum áfanga vinnur hver nemandi að sínu rannsóknarverkefni að eigin vali. Gert er ráð fyrir að nemandinn hafi öðlast grundvallar þekkingu í vísindalegum vinnubrögðum, heiðvirðri og vandaðri heimildanotkun ásamt því að þekkja helstu rannsóknaraðferðir í náttúruvísindum, félagsvísindum og hugvísindum.

Nemendur þurfa að sýna sjálfstæði í vinnubrögðum, virkni, frumkvæði og þjálfa skipulagshæfileika sína, enda skipuleggja þeir vinnu sína sjálfir undir almennri verkstjórn kennara. Nemendur ákveða viðfangsefnin í samráði við kennara í viðkomandi námsgrein.

Áfanganum er ætlað að skerpa undirbúning nemenda fyrir háskólanám, sérstaklega hvað varðar leikni og hæfni til að afla áreiðanlegra gagna, vinna úr þeim og koma niðurstöðum sínum á framfæri. Í áfanganum fá nemendur tækifæri til að draga saman reynslu og fyrra nám í verkefnavinnu og að velja sér nýtt svið til þekkingaröflunar í samstarfi við fræðasetur eða atvinnulífið.

Hægt er að ljúka verkefnum á ýmsan hátt, s.s. í formi heimildaritgerðar, rannsóknarskýrslu, vefsíðu, heimildamyndar, fullunnar afurðar eða tímaritsgreinar. Afrakstur allra lokaverkefna verður kynntur á opnu málþingi og sýningu í lok annar.

 

Forkröfur: Að nemandi sé á síðustu eða næst síðustu önn í námi. 

 

Markmið:

Nemandi skal hafa öðlast þekkingu og skilning á:

  • þeim viðfangsefnum sem hann velur sér að fjalla um í áfanganum.
  • hvernig helstu íslensk og erlend gagnasöfn eru uppbyggð  undirbúningi verkefnavinnu. 
  • raunhæfri markmiðssetningu og afmörkun viðfangsefna.
  • samskiptum og upplýsingagjöf milli samstarfsaðila.
  • símati á eigin framgangi verkefnavinnu

Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:

  • beita viðurkenndum aðferðum í heimildaleit og öflun frumgagna.
  • vinna úr heimildum og setja þær fram á agaðan og viðurkenndan hátt.
  • setja gögn fram á hnitmiðaðan og skýran hátt samkvæmt verkáætlun.
  • kynna eigin niðurstöður fyrir öðrum.
  • safna gögnum í rannsókn, vinna úr þeim, og kynna niðurstöður rannsóknar fyrir samnemendum.

Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:

  • velja rannsóknaraðferðir og tjáningarform sem hæfa viðfangsefninu.
  • leggja mat á heimildir, gagnrýna þær og draga af þeim ályktanir.
  • beita fræðilegu sjónarhorni við eigin gagnavinnslu og gagnaöflun.
  • tjá sig og miðla þekkingu, hugmyndum og skoðunum fyrir framan hóp, bregðast við gagnrýni og sýna útsjónarsemi.