Áfangalýsing:
Í áfanganum er farið í grunnatriði örverufræði og staða örverufræðinnar innan náttúrufræðinnar skoðuð. Farið verður yfir flokkun örvera og einkenni í lífsstarfsemi þeirra s.s. æxlun og dreifingu. Helstu flokkar dreifkjörnunga eru kynntir. Frumatriði í veirufræði, s.s. staða veira í lífheiminum, gerð, fjölgun, áhrif veira á hýsla. Flokkun sveppa og dæmi um frumdýr og lífsferlar beggja hópa. Nemendur læra um mikilvægi örvera í náttúrulegum vistkerfum og notkun þeirra í iðnaði, rannsóknum og til lækninga. Gerð verður grein fyrri tjóni sem örverur valda mönnum (sjúkdómar) og umhverfi þeirra og mögulegum vörnum. Nemandinn kynnist vinnubrögðum á rannsóknarstofu eins og að vinna sterilt (dauðhreinsað), rækta og lita örverur og greina þær í smásjá. Sérstök áhersla er lögð á að tengja daglegt líf og umhverfi nemenda við námsefni örverufræðinnar ásamt nýjustu þekkingu á stofnum samkvæmt erfðaefni örveranna.
Forkröfur: LÍFF2LE05
Markmið:
Nemandi skal hafa öðlast þekkingu og skilning á:
- flokkun lífvera í dreifkjörnunga og heilkjörnunga og stöðu veira meðal lífvera.
- uppbyggingu og helstu eiginleikum baktería, sveppa, frumvera og veira.
- sögu örverufræði og helstu atriðum varðandi ræktun og varnir gegn örverum.
- helstu aðferðum við sótt- og dauðhreinsun og helstu eiginleikum örvera varðandi efnaskipti, hita, súrefni, vatnsvirkni og sýrustig.
- byggingu og eignleikum nokkrum af þeim ættkvíslum baktería sem tengjast sjúkdómum eða eru hagnýttar af manninum.
- flokkun veira með tilliti til byggingar, erfðaefnis og eiginleika.
- flokkun baktería samkvæmt Gram litun og samsetningu erfðaefnisins.
Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:
- blanda næringaræti, dauðhreinsa það, hella á ræktunarskálar og vinna almennt með ræktun á sterilan hátt.
- setja bakteríusýni á ræktunarskálar með ræktunarlykkju og að dreifa sýni á skál til að meta þéttleika baktería.
- lesa af ræktunarskálum, fylgjast með lit og lögun þyrpinga og geta reiknað út þéttleika baktería miðað við þynningar.
- Gram lita bakteríur.
- þekkja helstu ættkvísla baktería og grunnupplýsingar um lögun og eiginleika þeirra.
- lesa í yfirlitsmyndir um lífsferla örvera svo sem fjölgun baktería, innrásar- og fjölgunarferli veira og lífsferla sníkjudýra.
- miðla upplýsingum til samnemenda um námsefnið með ýmsum hætti.
Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:
- nýta og túlka upplýsingar um sjúkdóma og örverur og skilja helstu atriðin varðandi eðli sýkla, smitleiðir, hættu á smiti og eðlilegar varnir gegn smiti.
- gera grein fyrir eðlilegri og góðri meðferð matvæla til að lágmarka hættu á matarsýkingum.
- útskýra með dæmum muninn á helsu flokkum baktería og veira.
- nýta sér fræðitexta úr ritrýndum heimildum um námsefnið á íslensku og ensku.
- útskýra viðfangsefni áfangans með því að nota hugtök af nákvæmni.
- taka þátt í rökræðum er lúta að viðfangsefni áfangans t.d. bólusetningum, smithættu og hagnýtingu örvera.
- tengja örverufræði og almenna líffræði við daglegt líf og umhverfi.