Reglur um skólasókn

Reglur um skólasókn

 

  • Nemendur eiga að mæta stundvíslega í allar kennslustundir samkvæmt stundatöflu.
  • Fjarvistir og seinkomur eru skráðar í INNU. Gefið er 1 fjarvistastig fyrir fjarveru í tíma og 0,33 fjarvistastig fyrir seinkomu. Seinkoma telst ef nemandi mætir eftir að viðveruskráning hefur farið fram. Fjarvist er skráð ef nemandi er ekki mættur þegar 15 mínútur eru liðnar af kennslustundinni. Virði nemandi ekki verkstjórn kennara í kennslustund er kennara heimilt að skrá fjarvist.
  • Nemendum ber að fylgjast með mætingarstöðu sinni í INNU. Forsjáraðilar hafa aðgang að sömu upplýsingum og auk þess eru fjarvistayfirlit send út þrisvar á önn. Nemendur skulu, ef þörf krefur, gera athugasemdir fyrir kl. 16 á mánudegi vegna viðveruskráningar liðinnar viku.
  • Í INNU má sjá yfirlit yfir viðveru nemenda.
    • Mæting að teknu tilliti til veikinda og leyfa.
    • Raunmæting án tillits til veikinda og leyfa.
    • Mætingarhlutfall á önn (mætingahlutfall í lok annar ef nemandi mætir í allar kennslustundir sem eftir eru af önninni).
  • Öll veikindi og forföll þarf að tilkynna í gegnum INNU eða á misa@misa.is fyrir kl. 09:00 hvern virkan dag sem veikindi og forföll vara. Forsjáraðilar tilkynna veikindi og forföll nemenda yngri en 18 ára. Framvísa skal vottorði þegar stök veikindi eru orðin fleiri en 5 skipti. Samfelld veikindi teljast 1 skipti. Sé um langvarandi veikindi að ræða skal hafa samband við náms- og starfsráðgjafa
  • Nemendur í fullu námi (25-33 einingar) fá eina einingu á önn fyrir skólasókn ef raunmæting er 95% eða meiri.
  • Skólameistari getur veitt undanþágu frá skólasóknarreglum vegna eftirfarandi forfalla: 
    • námsferða á vegum skólans
    • tiltekinna starfa á vegum Nemendafélags MÍ (NMÍ)
    • keppnisferða á vegum skólans
    • landsliðsverkefna, keppnisferðalaga eða æfingabúða ef staðfesting frá þjálfara liggur fyrir
    • ófærðar
    • útfarar nákomins ættingja eða vinar
    • veikinda barns sem nemandi á eða hefur á framfæri.
    • ferðar til læknis eða tannlæknis staðfest af viðkomandi lækni
    • ökuprófa
  • Sé leyfisbeiðni hafnað er fjarvist skráð sem tilkynnt fjarvist í INNU. Nemendur skulu gera sér grein fyrir skyldum sínum og ábyrgð á eigin námi.
  • Þurfi nemandi að vera fjarverandi skal hann fyrirfram ræða við kennara um útfærslu náms á meðan á fjarveru stendur.

 

Viðbrögð við óviðunandi skólasókn

  • Nái nemandi ekki 85% heildarmætingu í áfanga fær hann ekki lokamat í áfanganum.
  • Umsjónarkennarar nýnema fylgjast með ástundun og mætingu umsjónarnemenda sinna og hafa samband við náms- og starfsráðgjafa ef við á.  Náms- og starfsráðgjafi vinnur með nemanda í framhaldinu að lausn mála í samráði við forsjáraðila.
  • Reglulega yfir önnina fylgjast stjórnendur með mætingu nemenda. Nemendur með óviðunandi ástundun fá tölvupóst frá stjórnendum og forsjáraðilar fá afrit. Breyti viðkomandi ekki hegðun sinni í framhaldi af þessu fær hann skriflega áminningu frá skólameistara og honum veittur þrír dagar til að koma með málsbætur. Verði engin andmæli er litið svo á að nemandi hafi sagt sig úr viðkomandi áfanga/áföngum og honum tilkynnt um það.
  • Skólameistara er heimilt að skilyrða inntöku nemenda í skólann með því að gera við þá námssamning með öðrum skilyrðum um skólasókn en gilda í almennum skólasóknarreglum.