Samstarf við aðra framhaldsskóla
Sem starfs- og verknámsskóli er skólinn í góðu samstarfi við aðra slíka skóla um allt land með reglulegum samráðsfundum. Skólinn á einnig í samstarfi við 11 aðra framhaldsskóla á landsbyggðinni um fjarnám og gengur samstarfið undir nafninu Samland, klasi námstækifæra. Innan Samlands er sérstakt samstarf milli MÍ, Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra (FNV) og Verkmenntaskóla Austurlands (VA) um sjúkraliðanám.
Samstarf við grunnskóla
Samstarf MÍ og grunnskóla á norðanverðum Vestfjörðum, fer m.a. fram með skipulögðum heimsóknum náms- og starfsráðgjafa í grunnskólana á svæðinu, einkum til nemenda í 10. bekk. Einnig felst samstarfið í fundum skólameistara og kennarahittingum beggja skólastiga þegar því er við komið.
Í kjölfar bættra samgangna á Vestfjörðum, hefur MÍ farið í heimsóknir til grunnskóla á sunnanverðum Vestfjörðum til að kynna starf sitt og eru samskonar heimsóknir á dagskrá bæði á Ströndum og Reykhólum.
Erlent samstarf
Erlent samstarf í MÍ er undir merkjum Erasmus+.
Skólinn hefur verið í samstarfi við menntaskólann St. Marie du Port í bænum Les Sables d‘Olonne á vesturströnd Frakklands frá árinu 2004. Um er að ræða nemendaskiptaverkefni þar sem nemendur beggja skólanna hafa skipst á heimsóknum annað hvert ár.
Frá maí 2011 hafa MÍ og danskur verknámsskóli, EUC Lillebælt í Fredericia, verið í samstarfi um nemendaskipti í verknámsgreinum. Nemendaskiptin fara fram á hverju ári og stunda nemendur beggja skóla verknám og vinnustaðanám í heimsóknum sínum.
Samstarf við fyrirtæki á svæðinu
Gott samstarf hefur verið milli MÍ og fyrirtækja. Nemendur bæði í verknámi og nemendur á starfsbraut, hafa stundað verknám í fyrirtækjum á svæðinu. Fyrirtæki koma þannig að kennslu og þjálfun nemenda.
Samstarf við bókasöfnin á svæðinu
Gott samstarf er á milli bókasafna á svæðinu, grunnskólasafnsins, menntaskólasafnsins, bókasafn Háskólaseturs Vestfjarða og bæjarbókasafnsins.