Um Menntaskólann á Ísafirði
Ágrip af sögu skólans
Menntaskólinn á Ísafirði var stofnaður árið 1970, sem bóknámsskóli með hefðbundnu bekkjakerfi. Hann var þá starfræktur í húsi Gamla barnaskólans á Ísafirði við Aðalstræti. Skólinn tók á sig núverandi mynd um 1990 þegar Menntaskólinn, Iðnskóli Ísafjarðar (stofnaður 1905) og húsmæðraskólinn Ósk (stofnaður 1912) sameinuðust í einn skóla, sem þar með tók upp kennslu í ýmsum verknámsgreinum auk bóknáms til stúdentsprófs. Árið 1995 var gerður samningur við sveitarfélögin á Vestfjörðum um stofnun Framhaldsskóla Vestfjarða og var skólinn starfræktur undir því heiti til ársins 2000 þegar samþykkt var að færa nafn hans til fyrra horfs. Menntaskólinn á Ísafirði hefur því endurheimt sitt upprunalega heiti, þó að starfsemi hans hafi mikið breyst frá því hann var stofnaður.
Sérstaða
Menntaskólinn á Ísafirði er staðsettur í fögru umhverfi í höfuðstað Vestfjarða. Skólinn er af heppilegri stærð þannig að nemendur hverfa ekki í fjöldann. Lögð er áhersla á persónuleg samskipti við nemendur, heimilislegt andrúmsloft, góða kennslu, leiðsögn og námsráðgjöf. Skólinn er vel búinn tölvum og í öllum skólanum er þráðlaust tölvukerfi. Sífellt fleiri áfangar eru nú skipulagðir með hliðsjón af tölvustuddri kennslu með samskiptakerfi á netinu er nefnist Moodle. Húsakynni skólans eru björt og rúmgóð og öll á einni lóð, þar á meðal nýlegt og vel búið verknámshús fyrir málmiðngreinar og vélstjórnarbraut. Einnig er góð aðstaða fyrir rafiðngreinar og fullbúin aðstaða er fyrir nám í húsasmíði og grunndeild hár- og snyrtigreina. Bókasafnið er til fyrirmyndar með góðri lestrar- og tölvuaðstöðu. Stórt og glæsilegt íþróttahús er fast við skólann. Falleg útivistarsvæði eru á næstu grösum og stutt er í skíðalandið. Menntaskólinn á Ísafirði býður upp á fjölbreytt nám þar sem bæði er tekið mið af þörfum einstaklingsins og samfélagsins. Nú stunda á fimmta hundrað nemendur nám við skólann á bóknáms-, verknáms- og starfsnámsbrautum. Skólinn starfar eftir áfangakerfi. Jafnan er reynt að gæta þess að nám sem lokið er á einhverri braut skólans nýtist þótt skipt sé um námsbraut.
Hefðir
Í byrjun haustannar eru nýnemar boðnir velkomnir í skólann. Farin er nýnemaferð að Núpi í Dýrafirði. Róðrarkeppni er haldinn í september ár hvert. Þar etja kappi nemendur, kennarar og jafnvel foreldrar menntaskólanema.
Boðið er upp á sólarkaffi og rjómapönnukökur á sal síðasta fimmtudag janúarmánaðar en sólin skín í fyrsta sinn á ný á glugga skólans 25. janúar, eftir meira en tveggja mánaða fjarveru handan fjalla. Í mars er haldin sérstök lista- og menningarvika í umsjá nemenda skólans, nefnd Sólrisuhátíð og hefur verið fastur liður í menningarlífi bæjarins árlega síðan 1975. Leikhópur skólans setur upp leikrit í fullri lengd sem frumsýnt er í Sólrisuvikunni.