MÍ tekur þátt í samstarfsvettvangi um orkuskipti í sjávarútvegi

15 des 2021

MÍ tekur þátt í samstarfsvettvangi um orkuskipti í sjávarútvegi

Vestfirðingar stefna að því markmiði að verða leiðandi í orkuskiptum í sjávarútvegi. Stofnaður hefur verið samstarfsvettvangur þar sem leiddar verða saman stofnanir og fyrirtæki sem vilja taka virkan þátt í að byggja upp og laða að þekkingu til að þróa og nýta græna orku í sjávartengdri starfsemi.

Blámi, Háskólasetur Vestfjarða, Menntaskólinn á Ísafirði, Orkubú Vestfjarða, Vestfjarðastofa, og Þrymur Vélsmiðja hafa skrifað undir samstarfsyfirlýsingu um að vinna að þekkingaruppbyggingu á orkuskiptum í sjávartengdri starfsemi. Samstarfið kemur ekki bara til með að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda heldur líka skila sér í fjölbreyttara og sterkara atvinnulífi, fjárfestingu í nýsköpun og aukinni samkeppnishæfni.

„Orkuskipti í sjávartengdri starfsemi liggja sérstaklega vel að vestfirsku samfélagi þar sem stunduð er fjölbreytt útgerð og öflugt fiskeldi í bland við sjávartengda ferðaþjónustu. Í fjórðungnum eru öflugar menntastofnanir og tæknifyrirtæki sem sinnt hafa sjávarútvegi í áratugi.

Heimsbyggðin er að stíga sín fyrstu skref í orkuskiptum í sjávartengdri starfsemi en Ísland gæti skipað sér meðal fremstu þjóða í þeirri þróun í krafti öflugs sjávarútvegs og aðgengi að grænni orku.

Með samstilltu átaki og samvinnu, gætu Vestfirðir orðið fyrirmynd annara sjávarútvegssamfélaga þegar kemur að orkuskiptum. Það yrði þó ekki í fyrsta sinn sem Vestfirðir leika lykilhlutverk í slíkum umbreytingum en fyrir rúmlega 100 árum settu vestfirskir útgerðarmenn, fyrstir allra á Íslandi vél í fiskibátinn Stanley“

Segir Þorsteinn Másson, framkvæmdastjóri Bláma.

Í fyrstu á að kanna möguleika á að nýta rafeldsneyti í sjávartengda starfsemi og skoða tækifæri til að taka í notkun báta sem nýta vistvæna orku að hluta eða öllu leyti. Setja á upp námskeið þar sem nemendur í tæknigreinum og fólk með tæknimenntun fá innsýn í nýtingu á rafeldsneyti og hvernig meðhöndla á grænorku. Mikil þróun er einnig að eiga sér stað í flutningabílum sem nýta vetni eða rafmagn og kanna á hvort hægt sé að nýta slíka bíla í flutninga innan svæðis. Undirbúningur þessara verkefna er þegar kominn vel af stað.

Gert er ráð fyrir að hópurinn muni stækka á næstunni en leita á  til fleiri fyrirtækja, einstaklinga og stofnana svo styrkja megi  samstarfið og auka slagkraft verkefnisins.

 

Til baka