Óhætt er að fullyrða að dagurinn í dag hafi einkennst af fjöri og forvitni. Í morgun mættu yfir 70 10.bekkingar úr skólunum hér á Vestfjörðum á opið hús, sem hefð er fyrir í MÍ á hverju vori. Í heimsókninni er nemendum ásamt kennurum sínum boðið að skoða skólann, kynnast félagslífinu og námsframboðnu. Dagskráin hófst á því að Heiðrún skólameistari og Dóróthea aðstoðarskólameistari buðu nemendur velkomna og héldu stuttar kynningar. Nýnemarnir Jensína og Tristan Ernir sögðu frá því hvernig er að byrja í MÍ og stjórn nemendafélagsins kynnti sig og sitt starf og sagði frá viðburðum o.fl. á vegum „nemó“. Leikfélag MÍ bauð síðan upp á söng- og dansatriði úr Grease í Gryfjunni, en sýningar standa nú yfir á söngleiknum. Næsti liður á dagskrá var skoðunarferð leidd af nemendum MÍ og fengu gestir að skoða kennslustofur í bók- og verknámi og hitta kennara og nemendur. Komið var við í bókasafni skólans og litið var inn í herbergi á heimavist. Um leið tóku gestirnir þátt í ratleik þar sem svara þurfti nokkrum laufléttum spurningum og veglegt páskaegg var í verðlaun. Að lokum borðuðu allir saman í mötuneytinu.
Eftir hádegi mættu fulltrúar frá HÍ, Háskólanum á Hólum, Landbúnaðarháskólanum, Háskólasetri Vestfjarða og Lýðskólanum á Flateyri til að kynna námsframboð sitt ásamt MÍ. AFS var einnig með kynningu sem skiptinemar sáu um. MÍ var einnig með bás þar sem snúa mátti lukkuhjóli með skemmtilegum vinningum auk þess sem gestum var boðið upp á candyfloss eða ullarbrjótsykur.
Vel heppnaður dagur er að baki og vonandi sjáum við sem flesta nýnema í MÍ í ágúst.