Vetrarfrí er í skólanum 20. - 24. febrúar og því engin kennsla.
Hlökkum til að fá ykkur öll endurnærð í skólann þriðjudaginn 25. febrúar.
Fréttir
Kennsla hefur verið fjölbreytt og ýmislegt um að vera hjá rafmagns- og vélstjórnarnemendum undanfarna daga. Sigurður Óskarsson sem kennir rafiðngreinar við skólann hefur m.a. leyft þeim að spreyta sér á að vinna með tölvu- og nettækni með því að leggja lítið netkerfi sem tengist örtölvu í kennslustofunni þeirra. Þeir hafa einnig lært á rafal (alternator) til að fræðast um það hvernig rafmagn er framleitt með hjálp rafsegulsviðs og segulmögnunar. Þá var farið í vettvangsferð að Kirkjubóli í Korpudal í Önundarfirði þar sem nemendur fengu innsyní það hvernig lítil heimavirkjun er tengd við heimahúsið á bænum og sér heimilinu fyrir rafmagni.
Erna Sigrún námsráðgjafi MÍ hefur undanfarna daga verið á ferðinni í grunnskólunum á norðanverðum Vestfjörðum að kynna MÍ fyrir nemendum í 10.bekk. Tveir nemendur MÍ, þau Sæunn Liv og Sverrir Bjarki hafa verið með í för og aðstoðað Ernu. 10.bekkingar fengu að fræðast um þær námsbrautir sem eru í boði hjá okkur, hvað felst í leiðsagnarnámi, hvernig áfangakerfið virkar, hvaða þjónusta er i boði hjá námsráðsráðgjafa og ýmislegt fleira. Að sjálfsögðu var einnig sagt frá félagsstarfi nemenda og aðstöðunni í skólanum, s.s. mötuneyti og heimavist.
Þann 28.mars n.k. verður opið hús í MÍ og við hlökkum til að fá 10.bekkinga í heimsókn til okkar og sýna þeim skólann.
Menntaskólinn á Ísafirði hlaut í dag viðurkenningu í þriðja sinn í könnun Sameykis um Stofnun ársins. Skólinn varð þá annað árið í röð í öðru sæti í flokki meðalstórra stofnana (40-89 starfsmenn) árið 2024. Skólinn hlýtur þar með sæmdarheitið fyrirmyndarstofnun. Skólinn hefur nú hlotið viðurkenningu í Stofnun ársins í þrjú ár í röð. Árið 2022 var skólinn hástökkvari ársins og var þá sú ríkisstofnun sem bætti starfskjör starfsmanna best það árið og 2023 var skólinn í öðru sæti í flokki meðalstórra stofnana eins og nú.
Skólinn hækkaði í heildareinkunn frá því í fyrra og fékk hæstu einkunn allra meðal- og stórra ríkisstofnana hvað varðar stjórnun. „Við í MÍ erum stolt af viðurkenningunni og árangrinum. Við erum í sama sæti og í fyrra en bætum árangurinn því við hækkum í heildareinkunn milli ára. Við erum þakklát fyrir okkar frábæra starfsfólk og það góða starf sem það leggur af mörkum. Nú er bara að halda áfram að byggja upp gott vinnuumhverfi innan skólans með fagmennsku og samvinnu að leiðarljósi. Efst í mínum huga er þakklæti til starfsfólks skólans fyrir þeirra góða framlag. Saman gerum við góðan skóla enn betri“ segir Heiðrún Tryggvadóttir skólameistari.
Stofnun ársins er samstarfsverkefni Sameykis, fjármála- og efnahagsráðuneytisins og Reykjavíkurborgar. Á hverju ári tekur allt starfsfólk skólans, óháð félagsaðild, þátt í könnuninni. Mælingin nær yfir níu ólíka þætti og þannig fæst heilsteypt mynd af innra starfsumhverfi stofnana. Tilgangur með vali á stofnun ársins er að taka eftir og verðlauna vinnustaði sem ná framúrskarandi árangri í mannauðsstjórnun. Þá nýtist könnunin stjórnendum til að vinna að umbótum í stjórnun og starfsumhverfi og á að efla starfsumhverfi félagsfólks og starfsfólks í almannaþjónustu. Niðurstöður könnunarinnar veita afar mikilvægar upplýsingar um starfsumhverfi vinnustaða og samanburð við aðrar stofnanir.
Hér má sjá niðurstöður allra stofnana sem tóku þátt í könnuninni.
Viljum vekja athygli á að umsóknarfrestur um jöfnunarstyrk vegna vorannar 2025 er til 15.febrúar næstkomandi. Jöfnunarstyrkur er námsstyrkur fyrir nemendur sem búa og stunda nám fjarri lögheimili og fjölskyldu sinni. Jöfnunarstyrkur skiptist í dvalarstyrk og akstursstyrk:
- Akstursstyrkur er ætlaður þeim nemendum sem keyra daglega í skólann frá lögheimili sínu. Lögheimili má þó ekki vera í nágrenni skóla, sjá töflu um skilgreiningar á nágrenni skóla hér fyrir ofan. Akstursstyrkur er einnig fyrir þá nemendur sem búa ekki í foreldrahúsum en geta ekki sýnt fram á leigugreiðslur.
- Dvalarstyrkur er fyrir þá nemendur sem flytja a.m.k. 30km frá lögheimili sínu og fjölskyldu til þess að geta stundað nám sitt, það er, þeir nemendur sem eru á heimavist og/eða greiða leigu.
Fyrir frekari upplýsingar og rafrænt umsóknareyðublað sjá www.menntasjodur.is Einungis er hægt að sækja um jöfnunarstyrkinn með rafrænum skilríkjum. Fyrir frekari upplýsingum er hægt að senda fyrirspurn á menntasjodur@menntasjodur.is.
Samkvæmt nýjustu veðurspá mun veðrið versna um kl.15 ídag 5. febrúar og verður skólahald því samkvæmt stundatöflu eftir hádegi. Bendum nemendum sem eiga heima í bæjarkjörnum utan Ísafjarðar og geta þurft að fara fyrr heim á að tilkynna forföll til skólafulltrúa.
Í dag 5.febrúar er veðurviðvörun og útlit fyrir versnandi veðri. Skólahald er með eðlilegum hætti núna um morguninn, en við munum taka stöðuna kl.12 og birta tilkynningu sé ástæða til að loka skólahúsnæðinu.
Í dag 5.febrúar er veðurviðvörun og útlit fyrir versnandi veðri. Skólahald er með eðlilegum hætti núna um morguninn, en við munum taka stöðuna kl.12 og birta tilkynningu sé ástæða til að loka skólahúsnæðinu.
Auknar vísbendingar eru í samfélaginu um áhættuhegðun meðal unglinga. Var af því tilefni ákveðið að boða til fundar í MÍ 30. janúar s.l. til að bjóða upp á fræðslu en ekki síst til taka samtalið við foreldra/forsjáraðila. Mæting var mjög góð en um 60 forsjáraðilar mættu á staðinn eða fylgdust með í streymi.
Erna Sigrún Jónsdóttir námsráðgjafi og forvarnarfulltrúi skólans og Þórir Guðmundsson frá Lögreglunni á Vestfjörðum fluttu erindi.
Erna Sigrún tók fyrir þróun mála hvað varðar áhættuhegðun og heilsu íslenskra unglinga í dag og sagði hún frá niðurstöðum nýjustu rannsókna á sviðinu. Einnig fjallaði Erna Sigrún um verndandi þætti í lífi barna s.s. uppeldishætti, svefn, skaðsemi ávanabindandi efna og sagði hún einnig frá starfsemi forvarnarhópsins Vá Vest.
Þórir lagði í sínu erindi áherslu á neyslu fíkniefna, m.a. hversu útbreidd neysla er, en í dag er til að mynda tiltölulega auðvelt að nálgast fíkniefni á netinu. Einnig ræddi hann um náið samstarf lögreglu og barnaverndar á svæðinu. Þórir benti á upplýsinga-/fíkniefnasíma lögreglunnar, sem má nota til að gefa lögreglunni upplýsingar varðandi fíkniefni. Númerið er 800-5005 og er fullri nafnleynd heitið, en einnig má ef vill gefa upplýsingar nafnlaust.
Góðar umræður sköpuðust og var m.a. rætt um breytta samfélagsmynd ungmenna í dag með tilkomu snjallsímans, áskoranir hvað varðar aðgengi ungmenni undir 20 ára að áfengi og öðrum skaðlegum efnum, ofsaakstur, eftirlitslaus partý og fleira. Fundargestir og starfsmenn skólans voru sammála um að á svæðið vanti ungmennahús þar sem einstaklingar á menntaskólaaldri gætu komið saman, eflt félagstengslin og skemmt sér á heilbrigðan hátt, án ávana- eða fíkniefna. Slíkt hús þyrfti að vera mannað og faglega að því staðið. Einn af verndandi þáttum gegn áhættuhegðun er einmitt skipulögð þátttaka í íþrótta- og/eða tómstundastarfi undir handleiðslu fullorðins aðila. Vonandi á þessi hugmynd vonandi eftir að vaxa og dafna og verða að veruleika með samhentu átaki samfélagsins alls.
Að lokum vill MÍ benda á að koma megi ábendingum á framfæri við skólann varðandi áhættuhegðun með því að senda póst á erna@misa.is, hringja í síma skólans, 450-4400 eða nota ábendingakerfið. Hægt er að senda inn nafnlausa ábendingu, en gott er að hafa í huga að greiðara er að vinna úr ábendingum undir nafni.
Ábending um einelti, kynbundna áreitni, kynferðislega áreitni eða ofbeldi
Í dag, fimmtudaginn 23. janúar, var hið árlega sólarkaffi í Menntaskólanum á Ísafirði. Löng hefð er fyrir sólarkaffi innan skólans, þar sem nemendur og starfsfólk fagna komu sólar eftir langa vetursetu handan fjalla.
Það voru að vanda þeir nemendur sem stefna á útskriftarferð í vor sem sáu um að bjóða upp á pönnukökur og fleira góðgæti í Gryfjunni. Á Ísafirði hverfur sólin á bak við fjöll seint í nóvember og birtist aftur í lok janúar. Hinn eiginlegi sólardagur Ísfirðinga er 25. janúar en þann dag sleikja sólargeislarnir húsþökin í Sólgötu, ef veður leyfir. Ísfirðingar hafa ávallt fagnað komu sólarinnar með því að drekka sólarkaffi og gæða sér á pönnukökum og er þessi siður fyrir löngu orðinn fastur liður í skólastarfi MÍ.
Við bjóðum sólina velkomna aftur í bæinn og hlökkum til fleiri sólardaga framundan.