17 jan 2025

Fundur vegna félagsaðstöðu fyrir ungt fólk

Í dag kom æskulýðsfulltrúi Ísafjarðarbæjar, Dagný Finnbjörnsdóttir, í heimsókn og ræddi við hóp nemenda úr Ísafjarðarbæ um félagslíf og tómstundaiðkun. Ýmsar hugmyndir um hvernig væri hægt að efla félagslíf ungs fólks á svæðinu komu fram og fór Dagný vel nestuð af fundinum. Nemendahópurinn var nokkurs konar þverskurður af nemendum MÍ hvað varðar aldur, kyn, búsetu, námsbrautir og bakgrunn. Á skólafundi 9. nóvember sl. var ályktað um að skora á Ísafjarðarbæ og önnur sveitarfélögum við Djúp að koma á fót ungmennahúsi eða félagsmiðstöð fyrir fólk á framhaldsskólaaldri og var þessi fundur viðbragð Ísafjarðarbæjar við þeirri áskorun. Við þökkum Dagnýju kærlega fyrir komuna og vonumst til að skilaboð og hugmyndir nemenda komist alla leið í framkvæmd.

9 jan 2025

Aldrei fleiri nemendur í MÍ

Innritun á vorönn er nú lokið í Menntaskólanum á Ísafirði og hafa nemendur aldrei verið fleiri við skólann en þeir eru nú 606 talsins. Næstfjölmennasta önnin til þessa er haustönnin árið 2021 þegar 544 nemendur voru innritaðir.

Af 606 nemendum skólans eru 204 í dagskóla og er heimavistin þétt setin eins og á haustönn. Nemendur frá suðurfjörðum eru þar fjölmennasti hópurinn eða 11 talsins.

Nú á vorönn fer af stað nám í múraraiðn í dreifnámi en það er í fyrsta sinn síðan Menntaskólinn á Ísafirði og Iðnskólinn á Ísafirði voru sameinaðir sem það nám er í boði. Dreifnám er vinsælt námsform innan skólans en það er nám fyrir fólk í vinnu sem kennt er í fjarkennslu og í lotum á kvöldin og um helgar. Húsasmíði, iðnmeistaranám, sjúkraliðanám og vélstjórnarnám A er sömuleiðis kennt í dreifnámi.

Fjarnemendur við skólann eru samtals 335 en fjarnámsnemendum hefur farið fjölgandi síðustu ár. Af þeim eru 116 nemendur í iðnmeistara- og sjúkraliðanámi. Iðnmeistaranámið er samstarfsverkefni MÍ og Verkmenntaskóla Austurlands í Neskaupstað en sjúkraliðanámið er samstarfsverkefni sömu skóla og Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra á Sauðárkróki. Af öðrum fjarnemendum, sem eru samtals 202, eru 81 síðan að fylgja námsbrautum innan MÍ og stefna á útskrift frá skólanum að námi loknu.

Hér má sjá hvernig nemendur skólans skiptast eftir ólíkum námsformum:

Dagskóli 204
Dreifnám (húsasmíði, iðnmeistaranám, múraraiðn, sjúkraliðanám og vélstjórn A) 67
Fjarnám í gegnum samstarfsskóla (m.a. iðnmeistaranám og sjúkraliðanám) 133
Fjarnemendur með MÍ sem heimaskóla 81
Fjarnámsnemendur 121
SAMTALS 606
9 jan 2025

MÍ keppir í Gettu Betur

Í kvöld keppir lið Menntaskólans á Ísafirði í fyrstu viðureign sinni í Gettu betur 2205. Mótherji MÍ að þessu sinni er lið Menntaskólans að Laugarvatni. Í ár eru alls 25 skólar skráðir til leiks og fara fyrstu undanúrslitaumferðirnar fram í beinni útsendingu á rúv.is.

Lið MÍ í árið 2025 er skipað þeim Guðbjörgu Ósk Halldórsdóttur, Grétari Loga Sigurðssyni og Soffíu Rún Pálsdóttur. Aðalþjálfari liðsins er Signý Stefánsdóttir og umsjónamaður og aðstoðarþjálfari er Guðríður Vala Atladóttir. Upphaflega sóttu 14 nemendur um þátttöku í liðinu en eftir fyrstu æfingar var fækkað niður í 6. Að sögn Guðríðar Völu sem skipar embætti Málfinns MÍ í vetur hafa æfingar gengið vel en krefjandi reyndist að velja aðeins þrjá keppendur þar sem margir efnilegir nemendur komu til greina. Við hvetjum áhugasama til að leggja við hlustir á vef ríkisútvarpsins ruv.is í kvöld kl. 19:10.

30 des 2024

Upphaf vorannar 2025

Hér má finna helstu upplýsingar um upphaf skólastarfs á vorönn 2025:

 

3. janúar

  • Skrifstofa skólans opnar eftir jólafrí
  • Stundatafla og námsgagnalisti opna í INNU
  • Rafrænar töflubreytingar hefjast
  • Skráningu í fjarnám lýkur

 

5. janúar

  • Heimavist opnar eftir jólafrí

 

6. janúar

  • Starfsmannafundur kl. 9:00 í stofu 14.
  • Skólastarf hefst kl. 11:30 í Gryfjunni. Kennt skv. stundatöflu frá kl. 11:50.

 

10. janúar:

  • Töflubreytingum lýkur

 

17. janúar:

  • Skráningu í útskrift lýkur
20 des 2024

20 nemendur brautskráðir í dag

Í dag brautskráðust 20 nemendur af 8 námsbrautum frá skólanum. Af útskriftarnemum eru 9 dagskólanemendur, 6 dreifnámsnemendur og 5 nemendur í fjarnámi sem eru með Menntaskólann á Ísafirði sem heimaskóla. Auk þess brautskráðist einn nemandi frá Menntaskólanum í Kópavogi. 

Af braustkráðum nemendum útskrifaðist einn nemandi af lista- og nýsköpunarbraut, 4 af sjúkraliðabraut, 2 af sjúkraliðabrú, 1 nemandi úr vélstjórnarnámi A og 14 nemendur með stúdentspróf. Af stúdentum útskrifuðust 3 af félagsvísindabraut,  
7 nemendur af opinni stúdentsbraut, 3 nemendur af opinni stúdentsbraut – íþróttasviði og 1 með stúdentspróf af fagbraut.

Við óskum öllum útskriftarnemendum og fjölskyldum þeirra til hamingju og þökkum ánægjulega samfylgd í MÍ.

 

19 des 2024

Brautskráning 20. desember kl. 15:00

Föstudaginn 20. desember kl. 15:00 fer fram brautskráning í Ísafjarðarkirkju. 20 nemendur verða þá brautskráðir auk þess sem einn nemandi frá Menntaskólanum í Kópavogi fær brautskráningarskírteini sitt afhent. Viðburðastofa Vestfjarða mun senda beint úr frá athöfninni og má horfa á streymið HÉR

16 des 2024

Fréttavefur nemenda í félagsvísindum

Nemendur í félagsvísindum opnuðu á dögunum fréttavef undir nafninu Vestur Vísir. Vefurinn er verkefni í áfanga sem Björg Sveinbjörnsdóttir kennir og nefnist inngangur að félagsvísindum. Fréttavefurinn var sameiginlegt verkefni allra nemenda og í upphafi þess þurfti  hver og einn nemandi að sækja um starf hjá vefnum. Ýmis störf komu til greina, s.s. við að skrifa fréttir, taka viðtöl, vinna fréttaskýringar, ritstjórn og vefstjórn. Nemendurnir unnu svo hver sitt hlutverk og útkoman var metnaðarfullur fréttavefur með margs konar fróðleik og áhugaverðu efni. Óhætt er að mæla með lestri vefsins, þar kemur m.a. fram að aðstandendur hans leggi áherslu á áreiðanlegar fréttir og heiðarlega umfjöllun þar sem fjölmiðlalæsi verður æ mikilvægara í heimi mikillar upplýsingaóreiðu.  

Vefinn má nálgast hér:  https://vesturvisir.wixsite.com/vesturvisir

16 des 2024

Fréttavefur nemenda í félagsvísindum

Nemendur í félagsvísindum opnuðu á dögunum fréttavef undir nafninu Vestur Vísir. Vefurinn er verkefni í áfanga sem Björg Sveinbjörnsdóttir kennir og nefnist inngangur að félagsvísindum. Fréttavefurinn var sameiginlegt verkefni allra nemenda og í upphafi þess þurfti  hver og einn nemandi að sækja um starf hjá vefnum. Ýmis störf komu til greina, s.s. við að skrifa fréttir, taka viðtöl, vinna fréttaskýringar, ritstjórn og vefstjórn. Nemendurnir unnu svo hver sitt hlutverk og útkoman var metnaðarfullur fréttavefur með margs konar fróðleik og áhugaverðu efni. Óhætt er að mæla með lestri vefsins, þar kemur m.a. fram að aðstandendur hans leggi áherslu á áreiðanlegar fréttir og heiðarlega umfjöllun þar sem fjölmiðlalæsi verður æ mikilvægara í heimi mikillar upplýsingaóreiðu.  

Vefinn má nálgast hér:  https://vesturvisir.wixsite.com/vesturvisir

10 des 2024

Kynning á lokaverkefnum

Sem hluti af námi nemenda á stúdentsprófsbrautum er lokaverkefnisáfangi. Í áfanganum vinna nemendur að verkefnum að eigin vali í samráði við kennara áfangans og oft undir handleiðslu annarra kennara við skólann.

Í lokaverkefnisvinnunni þurfa nemendur að sýna sjálfstæði í vinnubrögðum, virkni, frumkvæði og þjálfa skipulagshæfileika sína, enda skipuleggja þeir vinnu sína sjálfir undir almennri verkstjórn kennara. Lokaverkefnisáfanganum er ætlað að skerpa undirbúning nemenda fyrir háskólanám, sérstaklega hvað varðar leikni og hæfni til að afla áreiðanlegra gagna, vinna úr þeim og koma niðurstöðum sínum á framfæri. Í áfanganum fá nemendur tækifæri til að draga saman reynslu og fyrra nám í verkefnavinnu og að velja sér nýtt svið til þekkingaröflunar.

Hægt er að ljúka verkefnum á ýmsan hátt, s.s. í formi heimildaritgerðar, rannsóknarskýrslu, vefsíðu, heimildamyndar, fullunnar afurðar eða tímaritsgreinar. Afrakstur allra lokaverkefna haustannar var kynntur á opnu málþingi í morgun og þar mátti finna mörg ólík og áhugaverð verkefni:

  • Theodore Robert Bundy - raðmorðingi verður til
  • Hvati íslenskra kvenna í lyftingum
  • Keramikgerð og saga
  • Íþróttasálfræði
  • Hvað hefur áhrif á upplifun einstaklinga sem fara í skiptinám?
  • Sjálfsmynd ungmenna
  • Hönnun og uppsetning fataherbergis

Við óskum nemendum í lokaverkefnisáfanganum til hamingju með vel heppnaðar kynningar og áhugaverð verkefni.

29 nóv 2024

Fyrstu verðlaun í nýsköpunarkeppni MEMA

Í hádeginu í dag fór fram verðlaunahátíð nýsköpunarkeppni MEM. Keppnin er árlegur viðburður og hefur það að markmiði að hvetja ungt fólk til að takast á við samfélagslegar áskoranir með hugviti og tækni. Nemendur fá tækifæri til að nýta hugvit sitt og leita lausna í þverfaglegu samstarfi við t.d. Fab Lab, sérfræðinga og aðila úr atvinnulífinu. Sýnt var frá athöfninni í beinu streymi í mötuneyti MÍ að viðstöddum nemendum, starfsfólki og öðrum gestum.

Í keppninni er áhersla er lögð á heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og að þessu sinni var unnið með markmiðið ,,Líf á landi“ sem felur í sér sjálfbæra nýtingu vistkerfa á landi, sjálfbæra stjórnun auðlinda og viðhaldi líffræðilegrar fjölbreytni.

Tvö lið frá Menntaskólanum á Ísafirði komust í úrslit að þessu sinni. Annars vegar var það hópurinn Natturon Go sem þróaði hugmynd um app sem vekur fólk til aukinnar meðvitundar um náttúruna. Hinn hópurinn keppti undir nafninu Endurskínandi kind og fólst hugmyndin þeirra í því að endurskinsmerkja kindur. Úrslit fóru svo að Endurskínandi kind hlaut fyrstu verðlaun keppninnar að þessu sinni. Hópinn skipuðu Bjargey Sandra, Elísabet Emma, Guðrún Natalía, Margrét Rós og Soffía Rún. ,,Þetta var fyrsta hugmyndin okkar, að hafa kindur einfaldlega í endurskinsvesti. Það er því miður keyrt á fullt af sauðfé allt árið í kring því þær sjást ekki nógu vel í myrkrinu. Og hvað ætlum við að gera til þess að vernda þær betur? Hugmyndin okkar heitir Endurskínandi kind, við viljum setja endurskinsmerki í eyrnamerkinguna hjá kindunum svo þær sjáist betur,“ sögðu þær stöllur um verkefnið sitt. 

Við óskum nemendunum innilega til hamingju með þennan frábæra árangur og sömuleiðis Ólöfu Dómhildi kennara á Lista- og nýsköpunarbraut sem haldið hefur utan um verkefnið.