11 apr 2025

Páskafrí

Við erum komin í páskafrí og hlökkum til að sjá ykkur öll endurnærð þriðjudaginn 22.apríl. 

9 apr 2025

Danmerkurdvöl nemenda í stálsmíði

Nemendur MÍ í stálsmíði brugðu sér til Fredericiu í Danmörku þar sem þeir dvelja þessa viku hjá EUC Lillebælt, samstarfsskóla MÍ. Dagskrá hópsins er þétt og góð að sögn Alexíusar Jónassonar, kennara sem fylgir hópnum. Hafa nemendurnir m.a. fengið að vinna hagnýtt verkefni sem er að smíða eldstæði, undir handleiðslu Michaels kennara við EUC.

Nemendurnir byrjuðu á að fá kynningu á verkefninu og teiknuðu síðan smíðastykkið í Inventor-teikniforritinu. Þegar því var lokið hófust nemendur handa við að skera niður parta í laser og eftir það tóku við æfingar í rafsuðu og var góðum tíma varið í þær. Nemendur kláruðu síðan að skera parta, valsa og beygja og að lokum var komið að samsetningu.

Vinnuferlinu er best lýst á meðfylgjandi myndum frá Alexíus og nemendum hans. Ekki er að sjá annað en að þessi dvöl sé að nýtast þeim vel.

8 apr 2025

Nemendur í háriðn í heimsókn í Finnlandi

Nemendur í háriðn eru þessa dagana staddir í heimsókn hjá Omnia, samstarfskóla MÍ í Espoo í Finnlandi. Novia er stór framhaldsskóli með samtals um 10.000 nemendur og er boðið upp á fjölmargar verknámsbrautir sem fara fram í nokkrum byggingum eða útibúum („campus“). Umhverfið er því nokkuð frábrugðið því sem okkar nemendur hafa fengist að kynnast í MÍ.

Í skólaheimsókninni eru fjórir nemendur og með þeim í för Margrét Skúladóttir kennari. Hafa þær fengið að kynnast og spreyta sig á ýmsum hár- og höfuðmeðferðum í kennslustundum, en einnig fengið að skoða umhverfið utan veggja skólans. Brá hópurinn sér sem dæmi í göngutúr í Haltiu náttúrmiðstöð sem einnig er staðsett Espoo. 

Í haust munu nemendur í háriðn frá Omnia koma í heimsókn í MÍ og mögulega fleiri skóla.

7 apr 2025

Vel heppnuð vörumessa MÍ

Vörumessa MÍ sem haldin var 3. apríl s.l. var vel sótt og voru bæði nemendur sem tóku þátt og voru aðstandendur messunnar, kennarar og starfsfólk Vestfjarðastofu sem hýsti viðburðinn, mjög ánægð með útkomuna. Fjölmargir gestir sóttu viðburðinn og voru duglegir að versla af nemendum.

Vörumessan er uppskeruhátið nemenda í áfanganum Hugmyndir og nýsköpun sem fá þannig tækifæri til að kynna verkefni sín og selja vöru sem þau hafa þróað, en einnig er hún æfing í að koma verkefnum í framkvæmd. Nokkur verkefni voru unnin í samstarfi við fyrirtæki á svæðinu.

Viðurkenningar voru veittar í lok vörumessunnar. Dómnefndin skoðaði hvern bás vel og vandlega, spjallaði við nemendur um vörur þeirra, hugmyndirnar og þróunarferlið. Viðurkenningar voru veittar í þremur flokkum.   

  • Grænasta hugmyndin var metin út frá umhverfisáhrifum, endurvinnslu og hagsýni í nýtingu efna og hlaut þessa viðurkenningu verkefnið Blöð framtíðar.  Vasilía Rós Jóhannsdóttir og Kristjana Rögn Andersen þróuðu hugmyndina sem gekk út á að endurvinna pappír til að nota í bæklinga, skissubækur o.fl.

  • Áhugaverðasti básinn tók mið af hönnun og útliti bássins, uppstillingu afurðar auk framkomu nemenda. Varð Gyðja, handlóð sem er líka heimilis-skraut, fyrir valinu. Bríet María Ásgrímsdóttir, Jade Filipa da Silva Rosa, Jóhanna Wiktoria Harðardóttir og Katla Salome Hagbarðsdóttir unnu verkefnið.

  • Bjartasta vonin var sú hugmynd sem álitin var líklegust til að geta haldið áfram og þróast á svæðinu. Verkefnið Gaddur var hlutskarpast og áttu hugmyndina Hákon Ari Heimisson, Pétur Örn Sigurðsson, Sverrir Bjarki Svavarsson og Þorbjörn Jóhann Helgason. Gaddur er „Ís með karakter – skemmtilegir bragðmöguleikar sem gleðja bragðlaukana!“ og var hugmyndin þróuð í samvinnu við mjólkurvinnslu Örnu. Gaddur er með heimasíðu og vefverslun https://gaddur.is/.

 

 

3 apr 2025

Skólafundur

Í dag var haldinn skólafundur í MÍ og var nemendum skipt í hópa sem var dreift um skólann. Sá hver hópur um að skipta með sér verkum og voru í hverjum hópi hópstjóri, ritari, peppari, rannsakandi og tímavörður, til að nefna nokkur dæmi.

Umræðuefni fundarins var ábyrgð og þátttaka nemenda í uppbroti í skólastarfi og voru hóparnir beðnir um að leggja fram hugmyndir og lýsa því hvernig þeir sjá fyrir sér uppbrotsdaga. Hóparnir skiluðu hugmyndum sínum í lok fundar og verður kosið um þrjár bestu hugmyndirnar í næstu viku.

Gróskudagar sem fara fram í  Sólrisuviku hafa verið hluti af skólastarfinu nánast frá stofnun hans eru dæmi uppbrot, en undanfarin ár hafa aðrir þemadagar verið á dagskrá snemma á haustönn. Auk þess er ýmist klúbbastarf í MÍ. 

Það er mikilvægt að rödd nemenda heyrist varðandi skólastarfið og mæla lög um framhaldsskóla fyrir um að skólafundir skulu haldnir a.m.k. einu sinni á ári. Í MÍ hafa slíkir fundir verið haldnir á hverri önn um nokkurt skeið og ýmis málefni sem snerta skólann og skólastarfið verið rædd.

 

31 mar 2025

Vörumessa MÍ 2025

Vörumessa MÍ verður haldin fimmmtudaginn 3. apríl kl. 13:30 - 17:00 í húsnæði Vestfjarðastofu við Suðurgötu 12 Ísafirði.

Vörumessan er kynning á verkefnum nemenda sem þau hafa unnið í áfanganum Hugmyndir og nýsköpun og er hún vettvangur fyrir unga frumkvöðla, fyrirtæki og samfélagið að þróa nýjar hugmyndir og lausnir á Vestfjörðum. Áhersla er á samstarfi við fyrirtæki/ráðgjafa á svæðinu og að nemendur vinni sjálfstætt að því að þróa nýsköpunarlausn. Verkefnið eykur færni þeirra til nýsköpunar, atvinnuþátttöku og atvinnusköpunar og undirbýr nemendur þannig fyrir framtíðina. Nemendur kynna frumgerðir og verða þau með vörur til sölu.

Veittar verða viðurkenningar á vörumessunni í eftirfarandi flokkum:

  • Áhugaverðasti básinn - hönnun/útlit, uppstilling afurðar, framkoma nemenda
  • Bjartasta vonin - hvaða hugmynd er líklegust til að geta haldið áfram og þróast á svæðinu, hvatning til að halda áfram með verkefnið.
  • Grænasta hugmyndin - umhverfisáhrif, endurvinnsla og hagsýni í nýtingu efna.

Öll eru velkomin og verður boðið upp á léttar veitingar.

Vörumessan er styrkt af Uppbyggingarsjóði Vestfjarða.

31 mar 2025

Fokk ME-Fokk You- fræðsla í MÍ

Í dag fengum við góða gesti þau Kára Sigurðsson og Andreu Marel Þorsteinsdóttur sem voru með fræðslu Fokk ME-Fokk You. Þessi fræðsla er ætluð unglingum og ungmennum, foreldrum þeirra og aðstandendum, auk þeirra sem starfa með unglingum.

Í erindinu fjölluðu Kári og Andrea um sjálfsmyndina með það að markmiði að vekja nemendur til umhugsunar um hvað það er sem hefur áhrif á okkur frá degi til dags, um mikilvægi þess að sýna hvert öðru virðingu og að virða mörk annarra. Einnig ræddu þau um áhrif fjölmiðla og samskiptamiðla og um kynferðislega áreitni og stafrænt kynferðisofbeldi, m.a. með því að sýna raunveruleg dæmi úr veruleika unglinga.

Kári Sigurðsson hefur starfað sem verkefnastjóri forvarna hjá skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar og fór fyrir Flotanum – flakkandi félagsmiðstöð í Reykjavík og nágrannasveitarfélögum. Andrea Marel Þorsteinsdóttir er deildarstjóri unglingastarfs í frístundamiðstöðvum hjá Reykjavíkurborg og hefur víðtæka reynslu af því að vinna með ungmennum. Hafa þau farið um landið með þessa fræðslu inn í fjölmargar félagsmiðstöðvar, grunnskóla, framhaldsskóla o.fl.

Fokk ME-Fokk You fræðslan verður einnig í boði í dag 31. mars kl. 17:30 í MÍ fyrir foreldra/forsjáraðila nemenda MÍ, Grunnskólans á Ísafirði og Grunnskóla Bolungarvíkur og fer hún fram í fyrirlestrarsalnum. Stóðu skólarnir sameiginlega að því að bjóða upp á þessa fræðslu og hvetjum við foreldra/forsjáraðila til að mæta.

Facebook-síða Fokk ME-Fokk You

Viljum benda á Sjúkt spjall, sem er nafnlaust netspjall fyrir ungmenni yngri en 25 ára til að ræða áhyggjur af samböndum, samskiptum eða ofbeldi.

28 mar 2025

Vel heppnað opið hús í MÍ

Óhætt er að fullyrða að dagurinn í dag hafi einkennst af fjöri og forvitni. Í morgun mættu yfir 70 10.bekkingar úr skólunum hér á Vestfjörðum á opið hús, sem hefð er fyrir í MÍ á hverju vori. Í heimsókninni er nemendum ásamt kennurum sínum boðið að skoða skólann, kynnast félagslífinu og námsframboðnu. Dagskráin hófst á því að Heiðrún skólameistari og Dóróthea aðstoðarskólameistari buðu nemendur velkomna og héldu stuttar kynningar. Nýnemarnir Jensína og Tristan Ernir sögðu frá því hvernig er að byrja í MÍ og stjórn nemendafélagsins kynnti sig og sitt starf og sagði frá viðburðum o.fl. á vegum „nemó“.  Leikfélag MÍ bauð síðan upp á söng- og dansatriði úr Grease í Gryfjunni, en sýningar standa nú yfir á söngleiknum. Næsti liður á dagskrá var skoðunarferð leidd af nemendum MÍ og fengu gestir að skoða kennslustofur í bók- og verknámi og hitta kennara og nemendur. Komið var við í bókasafni skólans og litið var inn í herbergi á heimavist. Um leið tóku gestirnir þátt í ratleik þar sem svara þurfti nokkrum laufléttum spurningum og veglegt páskaegg var í verðlaun. Að lokum borðuðu allir saman í mötuneytinu.

Eftir hádegi mættu fulltrúar frá HÍ, Háskólanum á Hólum, Landbúnaðarháskólanum, Háskólasetri Vestfjarða og Lýðskólanum á Flateyri til að kynna námsframboð sitt ásamt MÍ. AFS var einnig með kynningu sem skiptinemar sáu um.  MÍ var einnig með bás þar sem snúa mátti lukkuhjóli með skemmtilegum vinningum auk þess sem gestum var boðið upp á candyfloss eða ullarbrjótsykur.

Vel heppnaður dagur er að baki og vonandi sjáum við sem flesta nýnema í MÍ í ágúst.

26 mar 2025

Skóladagatal 2025-2026

Starfsáætlun (skóladagatal) skólaársins 2025-2026 hefur verið tekin til afgreiðslu og samþykkt á skólaráðsfundi. Áður höfðu drög að áætluninni verið kynnt starfsfólki og því gefinn kostur á að koma með athugasemdir. 

Skóladagatal 2025-2026

25 mar 2025

Nemendur heimsækja Kertahúsið

Nýlega fóru nemendur á starfsbraut í heimsókn í Kertahúsið á Ísafirði. Þar tók Sædís Ólöf Þórsdóttir sem ásamt manni sínum er eigandi þessa litla fyrirtækis. Sagði Sædís nemendum söguna af því hvernig fyrirtækið varð til og bauð hún þeim að skoða vinnuaðstöðuna. Komust nemendur að því að ansi mörg handtök geta verið bak við gerð hvers kertis. Að lokum fékk hver nemandi að búa til ilmkerti til að taka með heim og var það toppurinn á þessari heimsókn að mati hópsins.