8 apr 2024

Franskir gestir í heimsókn

Í þessari viku erum við með góða gesti frá Frakklandi í skólanum. Þetta eru 24 nemendur og þrír kennarar frá vinaskóla okkar Lycée Sainte Marie du Port í strandbænum Les Sables d´Olonne á vesturströnd Frakklands. Samstarfið við þennan skóla hefur nú staðið í bráðum 20 ár en fyrsti hópurinn frá þeim kom í heimsókn til okkar haustið 2004. Frönsku nemendurnir dvelja á heimilum nemenda úr MÍ og í haust er ætlunin að íslensku nemendurnir endurgjaldi heimsóknina. Það er Nadja frönskukennari sem hefur veg og vanda af móttöku frönsku gestanna og er dagskráin að venju fjölbreytt þessa daga sem þau dvelja á svæðinu. 

4 apr 2024

Samningur um byggingu nýs verknámshúss við MÍ undirritaður

Í dag var undirritaður samningur um byggingu nýs verknámshús við Menntaskólann á Ísafirði. Ásmundur Einar Daðason barna- og menntamálaráðherra, Arna Lára Jónsdóttir bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, Jón Páll Hreinsson bæjarstjóri Bolungarvíkurkaupstaðar og Bragi Þór Thoroddsen sveitastjóri Súðavíkurhrepps undirrituðu samninginn ásamt Heiðrúnu Tryggvadóttur skólameistara Menntaskólans á Ísafirði. Reykhólahreppur og Árneshreppur eru einnig aðilar að samningnum en fulltrúar þeirra gátu ekki verið viðstödd undirritunina í dag. Undirritunin fór fram á bókasafni MÍ að viðstöddum nemendum, starfsfólki, skólanefnd, sveitastjórnarfólki og ýmsum aðilum úr atvinnulífinu.

Samningurinn kveður á um skiptingu byggingarkostnaðar milli sveitarfélaganna og ríkisins. Sveitarfélögin munu lögum samkvæmt greiða samtals 40% af byggingarkostnaði en ríkið 60%.  Vinna við frummatsskýrslu fyrir bygginguna er langt komin og að henni lokinni mun framkvæmdasýsla ríkisins undirbúa hönnunarvinnu og tilheyrandi útboð. 

Með nýju verknámshúsi verður loks komin viðunandi aðstaða fyrir nám í trésmíði, háriðngreinum og rafiðngreinum sem hingað til hafa verið í kjallara heimavistar og á efri hæð núverandi verknámshúss. Nýja byggingin bætir við allt að 1000 fermetrum í aðstöðu til náms í verkgreinum og mun gera skólanum kleift að taka á móti fleiri nemendum í starfs- og verknám. Nú stundar rúmlega helmingur nemenda í dagskóla nám í verkgreinum við MÍ og hefur hlutfall þeirra farið vaxandi.

Við undirritunina í dag nýtti Ásmundur Einar tækifærið til að þakka sveitarstjórnarfólki fyrir þeirra framlag sem og Sigríði Kristjánsdóttur formanni skólanefndar.

,,Menntaskólann á Ísafirði er ekki bara mikilvægur fyrir Ísafjörð sem kaupstað heldur fyrir Vestfirði alla. Það verður spennandi að fylgjast með uppbyggingunni á komandi árum og ég óska Vestfirðingum öllum til hamingju með þennan nýja áfanga.“  Segir Ásmundur Einar Daðason.

Heiðrún Tryggvadóttir skólameistari sagði það mikið fagnaðarefni fyrir skólann að þessi áfangi væri í höfn og gæfi skólanum aukinn byr í seglin fyrir komandi framþróun í skólastarfinu.

22 mar 2024

Páskafrí

Nú erum við komin í páskafrí og hlökkum til að sjá ykkur endurnærð þriðjudaginn 2. apríl.

 

22 mar 2024

Rafrænt skólahald í dag

Vegna ófærðar og snjóflóðahættu á vegum færum við skólahald alfarið yfir á rafrænt form í dag. Kennarar munu setja inn tilkynningar á Moodle og/eða senda í tölvupósti til nemenda. Nemendur skulu fylgja þeim fyrirmælum sem þar koma fram. Húsnæði skólans verður lokað og engin staðbundin kennsla í dag.

21 mar 2024

Gul veðurviðvörun á morgun

Á morgun, föstudaginn 22. mars er gul veðurviðvörun og spáð norðaustan 15-23 m/s og snjókomu. Við munum taka stöðuna í fyrramálið með tilliti til veðurs, færðar og snjóflóðahættu og gefa frekari upplýsingar kl. 07:00. Ef röskun verður á skólahaldi mun starfsfólk, nemendur og forsjáraðilar fá sendan tölvupóst og sms.

21 mar 2024

Skólahald með eðlilegum hætti í dag

Kennsla verður samkvæmt stundatöflu í dag og skólinn opinn þrátt fyrir appelsínugula viðvörun. Nemendur sem komast ekki í skólann vegna ófærðar eða snjóflóðahættu skulu tilkynna forföll gegnum INNU eða á netfangið misa@misa.is, jafnframt skulu þeir sinna námi sínu áfram gegnum Moodle eins og kostur er.

20 mar 2024

Appelsínugul veðurviðvörun á morgun, fimmtudag

Á morgun, fimmtudaginn 21. mars 2024 er appelsínugul veðurviðvörun og spáð norðaustan 18-25 m/s og snjókomu. Við munum taka stöðuna í fyrramálið og gefa frekari upplýsingar kl. 07:00. Ef röskun verður á skólahaldi mun starfsfólk, nemendur og forsjáraðilar fá sendan tölvupóst og sms.

18 mar 2024

Vel heppnuð vörumessa

Vörumessa ungra frumkvöðla var haldin í húsnæði Vestfjarðastofu í síðustu viku. Það voru nemendur í áfanga sem heitir Hugmyndir og nýsköpun sem stóðu þar vaktina og kynntu vörur sínar og þjónustu fyrir gestum og gangandi. Kynningar nemenda voru virklega áhugaverðar og greinilegt að þau höfðu lagt sig fram bæði í hugmyndavinnu, útfærslu og hönnun á ýmis konar vörum og þjónustu. Ólöf Dómhildur kennari í lista- og nýsköpunargreinum hefur haldið utan um verkefnið og leitt nemendur áfram í sinni vinnu, við þökkum Ólöfu kærlega fyrir framlagið og óskum bæði henni og nemendum hennar til hamingju með vel heppnaða vörumessu. Við þökkum einnig þeim Alberti Högnasyni, Sæbjörgu Freyju Gísladóttur, Önnu Maríu Daníelsdóttur og Gunnar Ólafssyni fyrir þeirra framlag en þau tóku að sér að vera ráðgjafar fyrir nemendur og leiðbeindu þeim áfram með verkefnin sín. 

Tveir nemendahópar hlutu viðurkenningar frá dómnefnd fyrir vörur sínar. Annars vegar hlutu Ingibjörg Anna Skúladóttir og Jórunn Inga Guðný Sigurgeirsdóttir viðurkenningu fyrir frumlegasta sölubásinn. Þær kynntu fyrirtækið I&A sem hannar og framleiðir bakka í formi Vestfjarðakjálkans. Hins vegar voru það Unnur Guðfinna Daníelsdóttir, Jón Gunnar Kanishka Shiransson, Adrian Adam Nieduzak og Guðrún Helga Sigurðardóttir sem hlutu viðurkenningu fyrir öflugasta sölustarfið. Þau kynntu hugmynd sína að smáforriti með spurningakeppni í anda Gettu Betur sem þau nefna Vitlaus. 

Í dómnefnd sátu Sædís Ólöf Þórsdóttir frá Kertahúsinu, Jakob Tryggvason frá Þrym, Anna María Daníelsdóttir frá Bláma og Magnús Bjarnason frá Vestfjarðastofu. 

Þá voru einnig veittar viðurkenningar frá Vestfjarðastofu fyrir myndbandsverkefni sem nemendur unnu fyrr á önninni. Myndböndin sýndu hugmyndir nemenda um Vestfirði árið 2045 og var unnið í samstarfi við Vestfjarðastofu. Það var Anna Sigríður Ólafsdóttir verkefnastjóri sem afhenti viðurkenningar fyrir myndbandsverkefnin. Nánar má lesa um þau í frétt á vef Vestfjarðastofu.

Hluti nemendanna hefur skráð sig til þátttöku í Vörumessu ungra frumkvöðla sem haldin verður í Smáralind í apríl og mun því leggja land undir fót með vörur sínar og kynningar. 

18 mar 2024

Skólahald með eðlilegum hætti í dag

Kennsla verður samkvæmt stundatöflu í dag og skólinn opinn þrátt fyrir appelsínugula viðvörun. Nemendur sem komast ekki í skólann vegna ófærðar eða snjóflóðahættu skulu tilkynna forföll gegnum INNU eða á netfangið misa@misa.is, jafnframt skulu þeir sinna námi sínu áfram gegnum Moodle.