Á morgun, fimmtudaginn 21. mars 2024 er appelsínugul veðurviðvörun og spáð norðaustan 18-25 m/s og snjókomu. Við munum taka stöðuna í fyrramálið og gefa frekari upplýsingar kl. 07:00. Ef röskun verður á skólahaldi mun starfsfólk, nemendur og forsjáraðilar fá sendan tölvupóst og sms.
Fréttir
Vörumessa ungra frumkvöðla var haldin í húsnæði Vestfjarðastofu í síðustu viku. Það voru nemendur í áfanga sem heitir Hugmyndir og nýsköpun sem stóðu þar vaktina og kynntu vörur sínar og þjónustu fyrir gestum og gangandi. Kynningar nemenda voru virklega áhugaverðar og greinilegt að þau höfðu lagt sig fram bæði í hugmyndavinnu, útfærslu og hönnun á ýmis konar vörum og þjónustu. Ólöf Dómhildur kennari í lista- og nýsköpunargreinum hefur haldið utan um verkefnið og leitt nemendur áfram í sinni vinnu, við þökkum Ólöfu kærlega fyrir framlagið og óskum bæði henni og nemendum hennar til hamingju með vel heppnaða vörumessu. Við þökkum einnig þeim Alberti Högnasyni, Sæbjörgu Freyju Gísladóttur, Önnu Maríu Daníelsdóttur og Gunnar Ólafssyni fyrir þeirra framlag en þau tóku að sér að vera ráðgjafar fyrir nemendur og leiðbeindu þeim áfram með verkefnin sín.
Tveir nemendahópar hlutu viðurkenningar frá dómnefnd fyrir vörur sínar. Annars vegar hlutu Ingibjörg Anna Skúladóttir og Jórunn Inga Guðný Sigurgeirsdóttir viðurkenningu fyrir frumlegasta sölubásinn. Þær kynntu fyrirtækið I&A sem hannar og framleiðir bakka í formi Vestfjarðakjálkans. Hins vegar voru það Unnur Guðfinna Daníelsdóttir, Jón Gunnar Kanishka Shiransson, Adrian Adam Nieduzak og Guðrún Helga Sigurðardóttir sem hlutu viðurkenningu fyrir öflugasta sölustarfið. Þau kynntu hugmynd sína að smáforriti með spurningakeppni í anda Gettu Betur sem þau nefna Vitlaus.
Í dómnefnd sátu Sædís Ólöf Þórsdóttir frá Kertahúsinu, Jakob Tryggvason frá Þrym, Anna María Daníelsdóttir frá Bláma og Magnús Bjarnason frá Vestfjarðastofu.
Þá voru einnig veittar viðurkenningar frá Vestfjarðastofu fyrir myndbandsverkefni sem nemendur unnu fyrr á önninni. Myndböndin sýndu hugmyndir nemenda um Vestfirði árið 2045 og var unnið í samstarfi við Vestfjarðastofu. Það var Anna Sigríður Ólafsdóttir verkefnastjóri sem afhenti viðurkenningar fyrir myndbandsverkefnin. Nánar má lesa um þau í frétt á vef Vestfjarðastofu.
Hluti nemendanna hefur skráð sig til þátttöku í Vörumessu ungra frumkvöðla sem haldin verður í Smáralind í apríl og mun því leggja land undir fót með vörur sínar og kynningar.
Kennsla verður samkvæmt stundatöflu í dag og skólinn opinn þrátt fyrir appelsínugula viðvörun. Nemendur sem komast ekki í skólann vegna ófærðar eða snjóflóðahættu skulu tilkynna forföll gegnum INNU eða á netfangið misa@misa.is, jafnframt skulu þeir sinna námi sínu áfram gegnum Moodle.
Á morgun, mánudaginn 18.mars 2024 er appelsínugul veðurviðvörun og spáð norðaustan 18-25 m/s og snjókomu. Við munum taka stöðuna í fyrramálið og gefa frekari upplýsingar kl. 07:00. Ef röskun verður á skólahaldi munu nemendur og forsjáraðilar fá sendan tölvupóst og sms.
Rúmlega sextíu 10. bekkingar úr grunnskólum af Vestfjörðum komu í heimsókn í MÍ í gær. Nemendurnir fengu kynningu á skólanum, náminu og félagslífinu og svo var farið í skoðunarferð um húsnæði skólans í smærri hópum. Það voru nemendur á 2. og 3. ári, þau Solveig Amalía, Katrín Bára, Marcel, Helgi Rafn, Embla Kleópatra og Guðrún Helga, sem leiddu verðandi MÍ-inga um skólann ásamt starfsfólki og stóðu sig ákaflega vel í að segja frá og svara spurningum.
Kennarar í verklegum greinum sýndu sínar stofur og kynntu námsframboð og í lok heimsóknar var svo öllum boðið í mat í mötuneytinu. Þar var einnig dregið í ratleik sem nemendur höfðu tekið þátt í á leið sinni um skólann, sú heppna var Árný Fjóla úr GÍ og fékk hún páskaegg í verðlaun.
Eftir matinn lögðu flestir leið sína niður í gryfju þar sem Háskólarnir voru með kynningarbása og sum skelltu sér einnig niður í Vestfjarðarstofu á vörumessu eftir hádegið. Það var ákaflega gaman að fá þennan myndarlega hóp 10. bekkinga í heimsókn og við hlökkum mikið til að fá þau í skólann í haust.
Í dag hefst valtímabil fyrir haustönn 2024 og stendur það yfir til 15. mars.
Nemendur sem ætla að vera áfram í námi í MÍ þurfa að velja sér áfanga, þetta á við um dagskólanemendur og nemendur sem eru með MÍ sem heimaskóla. Opnað verður fyrir umsóknir í almennt fjarnám 2. apríl og verður auglýst nánar síðar.
Hægt er að fá aðstoð hjá aðstoðarskólameistara, áfanga- og fjarnámsstjóra, náms- og starfsráðgjafa, skólameistara og verkefnastjóra við valið. Hægt er að panta tíma hjá þeim á skrifstofu skólans eða með því að bóka tíma hér.
Nemendur sem stefna á útskrift á haustönn þurfa að panta tíma hjá áfanga- og fjarnámsstjóra eða náms- og starfsráðgjafa til að fara yfir valið.
Hér eru allar upplýsingar um hvernig valið fer fram eftir brautum.
Menntaskólinn á Ísafirði hlaut í dag styrk úr þróunarsjóði innflytjendamála en í styrkveitingunni var lögð áhersla á lýðræðislega þátttöku og baráttu gegn fordómum og mismunun. Alls hlutu 17 verkefni og rannsóknir samtals 50 milljónir króna. Er þetta annað árið í röð sem skólinn hlýtur styrk úr sjóðnum.
Guðbrandur Ingi Guðbrandsson félags- og vinnumarkaðsráðherra afhenti styrkinn í dag og veitti Erna Sigrún Jónsdóttir námsráðgjafi styrknum móttöku fyrir hönd skólans. Verkefnið sem skólinn fékk styrk fyrir ber yfirskriftina Við öll! Menntaskólinn á Ísafirði sem fjölmenningarlegt samfélag. Verkefnið felst í grófum dráttum í að halda vinnustofur fyrir nemendur og skólasamfélagið með það að markmiði dýpka skilning og auka meðvitund skólasamfélagsins á því hvað felst í því að vera hluti af inngildandi og fjölmenningarlegu samfélagi. Styrkupphæðin er 2.200.000 kr.
Við fögnum þessari styrkveitingu mjög og hlökkum til við að hefjast handa og halda áfram að skapa inngildandi og fjölmenningarlegt samfélag í skólanum.
Miðvikudaginn 13. mars verður mikið um að vera í MÍ en þann dag verður skólinn með opið hús, Háskóladagurinn fer fram og Vörumessa verður haldin. Við hvetjum öll áhugasöm til að kíkja í heimsókn.
Opið hús í MÍ kl. 10:00-12:30:
Opið hús verður í MÍ sem er aðallega hugsað fyrir grunnskólanema. Grunnskólum Vestfjarða hefur verið boðið að koma í heimsókn í MÍ milli kl. 10:00 og 12:30. Grunnskólanemendur fá kynningu á námsframboði og skoðunarferð um húsnæði skólans. Í lok heimsóknar er boðið upp á hádegismat í mötuneytinu.
Háskóladagurinn kl. 12:30-14:00:
Sama dag verður Háskólakynning í Gryfjunni kl. 12. Allir 7 háskólarnir á Íslandi kynna þar námsframboð sitt en háskólarnir eru; Háskóli Íslands, Háskólinn í Reykjavík, Háskólinn á Akureyri, Háskólinn á Bifröst, Háskólinn á Hólum, Landbúnaðarháskólinn og Listaháskóli Íslands. Fulltrúar frá Háskólasetri Vestfjarða verða líka með kynningu. Á Háskólakynninguna eru öll velkomin sem hafa áhuga á að kynna sér námsframboð háskólanna.
Vörumessa MÍ kl. 13.00-16:30:
Eftri hádegi verða nemendur í MÍ með Vörumessu ungra frumkvöðla í húsnæði Vestfjarðarstofu við Suðurgötu 12. Vörumessa Mí er kynning á verkefnum nemenda sem þau vinna í áfanganum Hugmyndir og nýsköpun og er vettvangur fyrir unga frumkvöðla, fyrirtæki og samfélagið að þróa nýjar hugmyndir og lausnir á Vestfjörðum. Áhersla er lögð á samstarf við fyrirtæki/ráðgjafa á svæðinu og sjálfstæða vinnu nemenda að nýsköpunarlausn. Verkefnið undirbýr nemendur fyrir framtíðina og eykur færni þeirra til nýsköpunar, atvinnuþátttöku og atvinnusköpunar.
Hlökkum til að sjá ykkur.
Föstudaginn 1. mars sl. var haldinn starfsþróunardagur framhaldsskólanna þar sem starfsfólk úr 24 framhaldsskólum á landinu hittist í sameiginlegri starfsþróun. Um 30 starfsmenn MÍ héldu suður til að hitta kollega sína sem mælt höfðu sér mót í framhaldsskólum vítt og breitt um höfuðborgarsvæðið. Þannig hittust t.a.m. íslenskukennarar í Framhaldsskólanum í Mosfellsbæ, fjármálastjórar í Flensborgarskóla í Hafnarfirði, skjalaverðir í MH og háriðngreinakennarar í Tækniskólanum svo eitthvað sé nefnt. Í skólunum fór fram ýmis konar fræðsla og fundahöld um málefni tengd framhaldsskólum og þeim starfsgreinum sem þar starfa. Dagurinn heppnaðist vonum framar og var starfsfólk skólans sammála um að mikilvægt væri að efla tengsl við starfsfólk annarra framhaldsskóla á landinu og bera saman bækur sínar. Þá var einkar skemmtilegt að líta inn í ólíka framhaldsskóla höfuðborgarsvæðisins og virða fyrir sér aðstöðu og húsnæði.
Í ár mun leikfélag Menntaskólans á Ísafirði setja upp barnaleikritið Dýrin í Hálsaskógi eftir Thorbjörn Egner. Nemendur skólans hafa unnið hörðum höndum við uppsetningu leikritsins síðustu vikur og eru mjög spennt að sýna bæjarbúum afraksturinn. Uppsetning leikfélagsins er ávallt stór viðburður í skólastarfinu en hátt í 30 nemendur koma að sýningunni í ár. Sýnt er í Edinborgarhúsinu á Ísafirði og leikstjóri er Birgitta Birgisdóttir.
Hægt er að kaupa miða á sýninginuna hér