16 apr 2024

Innritun í nám á haustönn

Innritun nýnema stendur nú yfir og lýkur 7. júní 2024. Innritun eldri nema í dagskóla lýkur 31. maí 2024.

Innritunin fer fram rafrænt gegnum www.innritun.is

Innritun í fjarnám stendur yfir til 16. ágúst, sjá nánar hér.

 

Öllum nemendum, í námi eða á leið í nám, stendur til boða að panta viðtal hjá áfanga- og fjarnámsstjóra eða námsráðgjafa og fá aðstoð við áfanga- og námsval.

Hægt er að panta tíma í viðtal rafrænt:

Bóka tíma 

 

12 apr 2024

Kosið í nýja stjórn Nemendafélags MÍ

Í gær, fimmtudaginn 11. apríl, var haldinn aðalfundur Nemendafélags MÍ. Að loknum aðalfundi fluttu frambjóðendur til nýrrar stjórnar framboðsræður og í kjölfarið hófust kosningar í embætti. Kosningunum lauk kl. 11 í dag og í hádeginu voru niðurstöður þeirra kynntar með viðhöfn í gryfjunni. Nýja stjórn NMÍ skipa:

Unnur Guðfinna Daníelsdóttir - Formaður
Jón Gunnar Shiransson - Gjaldkeri 
Laufey Dís Þórarinsdóttir - Ritari
Sæunn Lív Christophsdóttir - Menningarviti
Guðríður Vala Atladóttir - Málfinnur
Agnes Eva Hjartardóttir - Formaður leikfélags
Frosti Gunnarsson - Formaður vídeóráðs
Sverri Bjarki Svavarsson - Fulltrúi verknámsnema

 

Nýjum fulltrúum í stjórn nemendafélagsins er óskað innilega til hamingju, sem og velfarnaðar í störfum sínum fyrir nemendur MÍ næsta vetur. 

11 apr 2024

Laus störf

Menntaskólinn á Ísafirði auglýsir tvær lausar stöður. Annars vegar 100% stöðu íslenskukennara frá 1. ágúst 2024 og hins vegar afleysingastöðu umsjónarmanns fasteigna.

Nánari upplýsingar um störfin og umsóknaeyðublöð má finna á starfatorgi:

Íslenskukennari

Umsjónarmaður fasteigna

Umsóknarfrestur er til 24. apríl 2024,  nánari upplýsingar veita Heiðrún skólameistari á heidrun@misa.is og Dóróthea aðstoðarskólameistari á dorothea@misa.is

 

10 apr 2024

Starfsáætlun 2024-2025

Starfsáætlun (skóladagatal) skólaársins 2024-2025 hefur verið tekin til afgreiðslu og samþykkt á skólaráðsfundi. Áður höfðu drög að áætluninni verið kynnt starfsfólki og því gefinn kostur á að koma með athugasemdir. 

Skóladagatal 2024-2025

8 apr 2024

Franskir gestir í heimsókn

Í þessari viku erum við með góða gesti frá Frakklandi í skólanum. Þetta eru 24 nemendur og þrír kennarar frá vinaskóla okkar Lycée Sainte Marie du Port í strandbænum Les Sables d´Olonne á vesturströnd Frakklands. Samstarfið við þennan skóla hefur nú staðið í bráðum 20 ár en fyrsti hópurinn frá þeim kom í heimsókn til okkar haustið 2004. Frönsku nemendurnir dvelja á heimilum nemenda úr MÍ og í haust er ætlunin að íslensku nemendurnir endurgjaldi heimsóknina. Það er Nadja frönskukennari sem hefur veg og vanda af móttöku frönsku gestanna og er dagskráin að venju fjölbreytt þessa daga sem þau dvelja á svæðinu. 

4 apr 2024

Samningur um byggingu nýs verknámshúss við MÍ undirritaður

Í dag var undirritaður samningur um byggingu nýs verknámshús við Menntaskólann á Ísafirði. Ásmundur Einar Daðason barna- og menntamálaráðherra, Arna Lára Jónsdóttir bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, Jón Páll Hreinsson bæjarstjóri Bolungarvíkurkaupstaðar og Bragi Þór Thoroddsen sveitastjóri Súðavíkurhrepps undirrituðu samninginn ásamt Heiðrúnu Tryggvadóttur skólameistara Menntaskólans á Ísafirði. Reykhólahreppur og Árneshreppur eru einnig aðilar að samningnum en fulltrúar þeirra gátu ekki verið viðstödd undirritunina í dag. Undirritunin fór fram á bókasafni MÍ að viðstöddum nemendum, starfsfólki, skólanefnd, sveitastjórnarfólki og ýmsum aðilum úr atvinnulífinu.

Samningurinn kveður á um skiptingu byggingarkostnaðar milli sveitarfélaganna og ríkisins. Sveitarfélögin munu lögum samkvæmt greiða samtals 40% af byggingarkostnaði en ríkið 60%.  Vinna við frummatsskýrslu fyrir bygginguna er langt komin og að henni lokinni mun framkvæmdasýsla ríkisins undirbúa hönnunarvinnu og tilheyrandi útboð. 

Með nýju verknámshúsi verður loks komin viðunandi aðstaða fyrir nám í trésmíði, háriðngreinum og rafiðngreinum sem hingað til hafa verið í kjallara heimavistar og á efri hæð núverandi verknámshúss. Nýja byggingin bætir við allt að 1000 fermetrum í aðstöðu til náms í verkgreinum og mun gera skólanum kleift að taka á móti fleiri nemendum í starfs- og verknám. Nú stundar rúmlega helmingur nemenda í dagskóla nám í verkgreinum við MÍ og hefur hlutfall þeirra farið vaxandi.

Við undirritunina í dag nýtti Ásmundur Einar tækifærið til að þakka sveitarstjórnarfólki fyrir þeirra framlag sem og Sigríði Kristjánsdóttur formanni skólanefndar.

,,Menntaskólann á Ísafirði er ekki bara mikilvægur fyrir Ísafjörð sem kaupstað heldur fyrir Vestfirði alla. Það verður spennandi að fylgjast með uppbyggingunni á komandi árum og ég óska Vestfirðingum öllum til hamingju með þennan nýja áfanga.“  Segir Ásmundur Einar Daðason.

Heiðrún Tryggvadóttir skólameistari sagði það mikið fagnaðarefni fyrir skólann að þessi áfangi væri í höfn og gæfi skólanum aukinn byr í seglin fyrir komandi framþróun í skólastarfinu.

22 mar 2024

Páskafrí

Nú erum við komin í páskafrí og hlökkum til að sjá ykkur endurnærð þriðjudaginn 2. apríl.

 

22 mar 2024

Rafrænt skólahald í dag

Vegna ófærðar og snjóflóðahættu á vegum færum við skólahald alfarið yfir á rafrænt form í dag. Kennarar munu setja inn tilkynningar á Moodle og/eða senda í tölvupósti til nemenda. Nemendur skulu fylgja þeim fyrirmælum sem þar koma fram. Húsnæði skólans verður lokað og engin staðbundin kennsla í dag.

21 mar 2024

Gul veðurviðvörun á morgun

Á morgun, föstudaginn 22. mars er gul veðurviðvörun og spáð norðaustan 15-23 m/s og snjókomu. Við munum taka stöðuna í fyrramálið með tilliti til veðurs, færðar og snjóflóðahættu og gefa frekari upplýsingar kl. 07:00. Ef röskun verður á skólahaldi mun starfsfólk, nemendur og forsjáraðilar fá sendan tölvupóst og sms.