Í dag er forvarnardagurinn haldinn í 19. skipti í grunn- og framhaldsskólum landsins. Af þessu tilefni var dagskrá í gryfjunni í gær þar sem forvarnir voru í fyrirrúmi. Erna Sigrún forvarnarfulltrúi og Helena skólahjúkrunarfræðingur voru með erindi og fjölluðu meðal annars um skaðsemi áfengis, tóbaks og orkudrykkja. Dregið var úr hinum svokallaða fyrirmyndarpotti en allir nemendur sem blása í áfengismæli á böllum fara í pottinn og að þessu sinni voru verðlaunin 20.000kr gjafabréf í versluninni Djúpinu. Sú heppna var að þessu sinni Martyna Maria Wielgosz nemi á fyrsta ári. Jón Gunnar gjaldkeri nemendafélagsins kom einnig upp og kynnti klúbbastarf nemenda sem verið er að hleypa af stokkunum. Hugmyndafræði klúbbastarfsins er að gefa sem flestum rými og tíma til þess að eiga í félagslegum samskiptum í skólanum tengt áhugamálum. Þátttaka í tómstundastarfi er einn af þeim þáttum rannsóknir hafa sýnt að sé verndandi í lífi ungmenna og líkleg til að koma í veg fyrir frávikshegðun. Í lok dagskrár var boðið upp á ávexti og sódavatn í boði ölgerðarinnar Egils.
Klúbbarnir byrja á að hittast í dag, miðvikudag kl. 16 í skólanum. Byrjað verður með listaklúbb, borðtennisklúbb, spilaklúbb og skákklúbb og allir nemendur hvattir til að skrá sig. Nemendum er frjálst að koma með hugmyndir að nýjum klúbbum. Starfsmenn verða nemendum innan handar til að byrja með en síðan er markmiðið að klúbbarnir verði að mestu sjálfbærir.