31 mar 2025

Vörumessa MÍ 2025

Vörumessa MÍ verður haldin fimmmtudaginn 3. apríl kl. 13:30 - 17:00 í húsnæði Vestfjarðastofu við Suðurgötu 12 Ísafirði.

Vörumessan er kynning á verkefnum nemenda sem þau hafa unnið í áfanganum Hugmyndir og nýsköpun og er hún vettvangur fyrir unga frumkvöðla, fyrirtæki og samfélagið að þróa nýjar hugmyndir og lausnir á Vestfjörðum. Áhersla er á samstarfi við fyrirtæki/ráðgjafa á svæðinu og að nemendur vinni sjálfstætt að því að þróa nýsköpunarlausn. Verkefnið eykur færni þeirra til nýsköpunar, atvinnuþátttöku og atvinnusköpunar og undirbýr nemendur þannig fyrir framtíðina. Nemendur kynna frumgerðir og verða þau með vörur til sölu.

Veittar verða viðurkenningar á vörumessunni í eftirfarandi flokkum:

  • Áhugaverðasti básinn - hönnun/útlit, uppstilling afurðar, framkoma nemenda
  • Bjartasta vonin - hvaða hugmynd er líklegust til að geta haldið áfram og þróast á svæðinu, hvatning til að halda áfram með verkefnið.
  • Grænasta hugmyndin - umhverfisáhrif, endurvinnsla og hagsýni í nýtingu efna.

Öll eru velkomin og verður boðið upp á léttar veitingar.

Vörumessan er styrkt af Uppbyggingarsjóði Vestfjarða.

31 mar 2025

Fokk ME-Fokk You- fræðsla í MÍ

Í dag fengum við góða gesti þau Kára Sigurðsson og Andreu Marel Þorsteinsdóttur sem voru með fræðslu Fokk ME-Fokk You. Þessi fræðsla er ætluð unglingum og ungmennum, foreldrum þeirra og aðstandendum, auk þeirra sem starfa með unglingum.

Í erindinu fjölluðu Kári og Andrea um sjálfsmyndina með það að markmiði að vekja nemendur til umhugsunar um hvað það er sem hefur áhrif á okkur frá degi til dags, um mikilvægi þess að sýna hvert öðru virðingu og að virða mörk annarra. Einnig ræddu þau um áhrif fjölmiðla og samskiptamiðla og um kynferðislega áreitni og stafrænt kynferðisofbeldi, m.a. með því að sýna raunveruleg dæmi úr veruleika unglinga.

Kári Sigurðsson hefur starfað sem verkefnastjóri forvarna hjá skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar og fór fyrir Flotanum – flakkandi félagsmiðstöð í Reykjavík og nágrannasveitarfélögum. Andrea Marel Þorsteinsdóttir er deildarstjóri unglingastarfs í frístundamiðstöðvum hjá Reykjavíkurborg og hefur víðtæka reynslu af því að vinna með ungmennum. Hafa þau farið um landið með þessa fræðslu inn í fjölmargar félagsmiðstöðvar, grunnskóla, framhaldsskóla o.fl.

Fokk ME-Fokk You fræðslan verður einnig í boði í dag 31. mars kl. 17:30 í MÍ fyrir foreldra/forsjáraðila nemenda MÍ, Grunnskólans á Ísafirði og Grunnskóla Bolungarvíkur og fer hún fram í fyrirlestrarsalnum. Stóðu skólarnir sameiginlega að því að bjóða upp á þessa fræðslu og hvetjum við foreldra/forsjáraðila til að mæta.

Facebook-síða Fokk ME-Fokk You

Viljum benda á Sjúkt spjall, sem er nafnlaust netspjall fyrir ungmenni yngri en 25 ára til að ræða áhyggjur af samböndum, samskiptum eða ofbeldi.

28 mar 2025

Vel heppnað opið hús í MÍ

Óhætt er að fullyrða að dagurinn í dag hafi einkennst af fjöri og forvitni. Í morgun mættu yfir 70 10.bekkingar úr skólunum hér á Vestfjörðum á opið hús, sem hefð er fyrir í MÍ á hverju vori. Í heimsókninni er nemendum ásamt kennurum sínum boðið að skoða skólann, kynnast félagslífinu og námsframboðnu. Dagskráin hófst á því að Heiðrún skólameistari og Dóróthea aðstoðarskólameistari buðu nemendur velkomna og héldu stuttar kynningar. Nýnemarnir Jensína og Tristan Ernir sögðu frá því hvernig er að byrja í MÍ og stjórn nemendafélagsins kynnti sig og sitt starf og sagði frá viðburðum o.fl. á vegum „nemó“.  Leikfélag MÍ bauð síðan upp á söng- og dansatriði úr Grease í Gryfjunni, en sýningar standa nú yfir á söngleiknum. Næsti liður á dagskrá var skoðunarferð leidd af nemendum MÍ og fengu gestir að skoða kennslustofur í bók- og verknámi og hitta kennara og nemendur. Komið var við í bókasafni skólans og litið var inn í herbergi á heimavist. Um leið tóku gestirnir þátt í ratleik þar sem svara þurfti nokkrum laufléttum spurningum og veglegt páskaegg var í verðlaun. Að lokum borðuðu allir saman í mötuneytinu.

Eftir hádegi mættu fulltrúar frá HÍ, Háskólanum á Hólum, Landbúnaðarháskólanum, Háskólasetri Vestfjarða og Lýðskólanum á Flateyri til að kynna námsframboð sitt ásamt MÍ. AFS var einnig með kynningu sem skiptinemar sáu um.  MÍ var einnig með bás þar sem snúa mátti lukkuhjóli með skemmtilegum vinningum auk þess sem gestum var boðið upp á candyfloss eða ullarbrjótsykur.

Vel heppnaður dagur er að baki og vonandi sjáum við sem flesta nýnema í MÍ í ágúst.

26 mar 2025

Skóladagatal 2025-2026

Starfsáætlun (skóladagatal) skólaársins 2025-2026 hefur verið tekin til afgreiðslu og samþykkt á skólaráðsfundi. Áður höfðu drög að áætluninni verið kynnt starfsfólki og því gefinn kostur á að koma með athugasemdir. 

Skóladagatal 2025-2026

25 mar 2025

Nemendur heimsækja Kertahúsið

Nýlega fóru nemendur á starfsbraut í heimsókn í Kertahúsið á Ísafirði. Þar tók Sædís Ólöf Þórsdóttir sem ásamt manni sínum er eigandi þessa litla fyrirtækis. Sagði Sædís nemendum söguna af því hvernig fyrirtækið varð til og bauð hún þeim að skoða vinnuaðstöðuna. Komust nemendur að því að ansi mörg handtök geta verið bak við gerð hvers kertis. Að lokum fékk hver nemandi að búa til ilmkerti til að taka með heim og var það toppurinn á þessari heimsókn að mati hópsins.

24 mar 2025

Frumsýning Sólrisuleikrits 2025

Leikfélag Menntaskólans á Ísafirði frumsýndi Sólrisuleikrit ársins 2025 síðastliðið föstudagskvöld fyrir fullu húsi í sal Edinborgarhússins. Að þessu sinni varð fyrir valinu rokksöngleikurinn sívinsæli Grease og er leikstjórn í höndum Birgittu Birgisdóttur. Mikil vinna liggur að baki uppsetningunni sem er hin glæsilegasta og hafa um 60 nemendur lagt hönd á plóg við hin ýmsu verkefni tengt sýningunni. Þar á meðal eru leikarar, hljómsveit, sviðsmenn, búningadeild, markaðsnefnd og tæknifólk svo eitthvað sé nefnt. Það er óhætt að mæla með að fólk skelli sér í leikhús og njóti afrakstursins hjá okkar hæfileikaríku nemendum. Alls verða sýndar 10 sýningar og miðasala fer fram á tix.is.  

21 mar 2025

Utanríkisráðherra í heimsókn

Í gær fengu nemendur sem í áfanga í stjórnmálafræði Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur utanríkisráðherra í heimsókn ásamt Maríu Rut Kristinsdóttur alþingismanni sem er fyrrverandi nemandi MÍ. Svöruðu þær spurningum frá nemendum, en öðrum áhugasömum nemendum var einnig boðið að sækja tímann. Í lok heimsóknarinnar ræddu þær Þorgerður Katrín og María Rut við stjórnendur skólans um stöðuna á byggingu nýss verknámshúss.

18 mar 2025

Háskólakynning í MÍ

Föstudaginn 28. mars verður Háskólakynning í Menntaskólanum á Ísafirði. Þar verða fulltrúar frá Háskóla Íslands, Háskólanum á Hólum, Landbúnaðarháskólanum, Háskólasetri Vestfjarða, Lýðskólanum á Flateyri og AFS að kynna sína starfssemi. Viðburðurinn stendur frá kl. 12:30-14 og er opinn öllum. 

18 mar 2025

MÍ fer í samstarf við Kómedíuleikhúsið

Á dögunum leit Elfar Logi Hannesson leikhússtjóri Kómedíuleikhússins við til að að ræða hugmyndir um samstarf við MÍ. Samstarfið felst í því að nemendur í ákveðnum áföngum sæki reglulega leiksýningar Kómedíuleikhússins í Haukadal og verði einnig leitast við að bjóða öllum nemendum skólans upp á leikhúsupplifun í húsnæði skólans a.m.k. einu sinni á ári.

Kómedíuleikhúsið er eina atvinnuleikhúsið á Vestfjörðum. Frá stofnun leikhússins árið 1997 hefur verður settur á svið fjöldi leikverka sem eiga það flest sameiginlegt að tengjast með einum eða öðrum hætti sögu Vestfjarða. Nokkur dæmi eru Gísli Súrsson, Jón Sigurðsson strákur að vestan og Ariasman sem er nýjasta leikverk Kómedíuleikhúss.

17 mar 2025

MÍ á Mín framtíð

MÍ tók ásamt flestum öðrum framhaldsskólum landsins þátt í Mín framtíð sem fram fór í Laugardalshöllinni í Reykjavík 13. – 15.mars. s.l. Verkiðn á veg og vanda af þessari árlegu framhaldsskólakynningu þar sem tilvonandi nemendur og aðrir gestir hafa tækifæri til að kynna sér námsframboð skólanna og hitta nemendur og starfsfólk.

Óhætt er að segja að bás MÍ hafi vakið mikla athygli en níu starfsmenn og 16 nemendur tóku þátt og skiptu með sér vöktum. Námsframboð, félagslíf, heimavist og margt fleira var kynnt með fjölbreyttum hætti. Boðið var upp á MÍ-smákökur og MÍ-drykki, lukkuhjól, gestabók og fleira skemmtilegt. Forseti Íslands, frú Halla Tómasdóttir var meðal gesta og átti hún gott spjall við starfsfólk og nemendur MÍ.

Þá fór einnig fram Íslandsmót iðn- og verkgreina þar sem nemendur keppa í samtals 19 iðngreinum. Þeir fá þannig tækifæri til að takast á við krefjandi og raunveruleg verkefni sem reyna á hæfni, skipulagshæfileika og fagmennsku. Benedikt Þórhallsson húsasmíðanemi keppti fyrir hönd MÍ og var hægt að fylgjast með honum að smíða tröppu. Samnemendur Benedikts tóku þátt í undirbúningi fyrir keppnina og veittu einnig mikilvægan stuðning á meðan keppnin stóð yfir.

Nemendur og starfsfólk eru í stuttu máli mjög ánægð með framlag skólans á Mín framtíð og er stefnt að því að taka aftur þátt að ári.