10 jún 2024

Skráning í fjarnám til 16. ágúst

Nú stendur yfir skráning í fjarnám á haustönn. Skráningunni lýkur þann 16. ágúst n.k. HÉR má sjá hvaða áfangar eru í boði og HÉR má finna allar helstu upplýsingar um fjarnámið.

Frekari upplýsingar um fjarnámið gefur Martha Kristín Pálmadóttir áfangastjóri, martha@misa.is 

3 jún 2024

Laus pláss í húsasmíði

Menntaskólinn á Ísafirði auglýsir laus pláss í húsasmíðanám í dagskóla haustið 2024. Upplýsingar um námsbrautina má finna á heimasíðu skólans, https://misa.is/namid/husasmidi/

Nýnemar sækja um nám rafrænt hér til 7. júní: https://innritun.is/

Eldri nemendur sækja um með því að senda tölvupóst á Mörthu Kristínu Pálmadóttur áfanga- og fjarnámsstjóra á netfangið martha@misa.is

 

31 maí 2024

Heimsókn frá Húsavík

Starfsfólk framhaldskólans á Húsavík heimsótti MÍ á starfsdögum í vikunni. Áttum við góðan dag saman með faglegri dagskrá fyrir hádegi þar sem til umfjöllunar voru ýmsar sameiginlegar áskoranir í skólastarfinu s.s. gervigreind, fjarnám og námsmenning. Eftir hádegi var svo haldið í sögugöngu um Ísafjörð undir leiðsögn Andreu Harðardóttur og að henni lokinni tók við skemmtidagskrá með hattaþema eins sjá má á meðfylgjandi myndum. Dagurinn endaði svo á sameiginlegum kvöldverð í Arnardal. Við þökkum Húsvíkingum kærlega fyrir samveruna og hlökkum til að heimsækja þau við tækifæri. 

25 maí 2024

Brautskráning á vorönn 2024

Laugardaginn 25. maí var 61 nemandi brautskráður frá skólanum við hátíðlega athöfn í Ísafjarðarkirkju. Útskriftarnemar, starfsfólk skólans, afmælisárgangar og aðrir gestir voru viðstödd athöfnina og sá Viðburðarstofa Vestfjarða um að streyma henni beint. Í tilefni þess að 50 ár eru liðin frá fyrstu útskrift skólans var fyrrum starfsfólki og nemendum skólans einnig boðið að fagna tímamótunum í dag og var því óvenjulega fjölmennt við athöfnina. Hefð er fyrir útskriftarfagnaði að kvöldi brautskráningardags með útskriftarnemum, fjölskyldum þeirra og afmælisárgöngum. 

Af útskriftarnemum voru 38 dagskólanemendur, 15 dreifnámsnemendur og 8 nemendur í fjarnámi sem með Menntaskólann á Ísafirði sem heimaskóla.

Sjö nemendur útskrifuðust af matartæknibraut, þrír nemendur útskrifuðust af sjúkraliðabraut og tveir nemendur af lista- og nýsköpunarbraut. Níu nemendur útskrifuðust af vélstjórnarbraut A, þrír nemendur útskrifuðust  úr stálsmíði, einn nemandi af skipsstjórnarbraut A og tveir nemendur af skipsstjórnarbraut B. Einn nemandi útskrifaðist af húsasmíðabraut og einn nemandi úr iðnmeistaranámi.

36 nemendur útskrifuðust með stúdentspróf. Þrír af félagsvísindabraut, 11 af náttúruvísindabraut og þar af fjórir með íþróttasvið. 17 nemendur útskrifuðust af opinni stúdentsbraut, þar af einn með íþróttasvið. Tveir nemendur luku námi af starfsbraut og þrír nemendur luku stúdentsprófi af fagbraut. Auk þess útskrifuðust 16 nemendur úr grunnnámi málm- og véltæknigreina.

Dux scholae 2024 er Guðrún Dagbjört Sigurðardóttir stúdent af opinni stúdentsbraut með meðaleinkunnina 9,44. Semidux er Katrín Bára Albertsdóttir stúdent af náttúruvísindabraut með meðaleinkunnina 9,41. 

Fjölmörg verðlaun voru afhent fyrir góðan námsárangur og að vanda setti tónlistarflutningur hátíðlegan svip á athöfnina. Í tilefni 50 ára útskriftarafmælis var lagið Gott að sjá þig eftir Halldór Smárason flutt af sönghóp fyrrum nemenda, starfsfólks og fulltrúum útskriftarnema ásamt Halldóri sjálfum sem lék undir. Lagið var gefið skólanum við útskrift árið 2019 af þáverandi 10 ár afmælisárgangi og á einkar vel við á tímamótum sem þessum.

Við óskum öllum útskriftarnemum innilega til hamingju með áfangann og óskum þeim gæfu og gengis í framtíðinni.

24 maí 2024

Opnun EMMÍ ,,Sprett-upp" afmælissýningar

Í tilefni þess að 50 ár eru liðin frá fyrstu útskrift úr MÍ var opnuð svokölluð ,,sprett-upp" afmælissýning í Gryfjunni í dag, föstudaginn 24. maí. Á sýningunni er lögð áhersla á dulda námskrá skólans og nemendamenningin er höfð í fyrirrúmi. Það voru þær Björg Sveinbjörnsdóttir, Finney Rakel Árnadóttir og Arnheiður Steinþórsdóttir sem sáu um að setja sýninguna upp. Fengu þær m.a. til liðs við sig fulltrúa nokkurra afmælisárganga sem lögðu til sögur og gripi á sýninguna. Meðfylgjandi myndir voru teknar við opnunina í dag sem var afar vel sótt.

Sýningin verður einnig opin á morgun, laugardaginn 25. maí, frá kl. 15-17.

24 maí 2024

50 ár frá fyrstu útskrift - upprifjun á sögunni

Menntaskólinn á Ísafirði var stofnaður árið 1970 eftir langa baráttu heimamanna fyrir menntaskóla, baráttu sem má rekja a.m.k. aftur til ársins 1944. Helstu rök heimamanna fyrir stofnun menntaskóla á Ísafirði voru að jafna aðstöðu nemenda til skólagöngu. Ákveðinn áfangasigur náðist þegar leyfi fékkst til að reka framhaldsdeild á Ísafirði sem svaraði til 1. bekkjar í menntaskóla. Vestfirðingar héldu þó áfram að berjast fyrir fullgildum menntaskóla og í þeirri baráttu lögðu margir hönd á plóg og ljóst að samtakamáttur Vestfirðinga,  þrautseigja og þor skipti þar miklu máli. Barátta heimamanna bar loks árangur þegar tilkynnt var á haustdögum 1969 að menntaskóli yrði stofnaður á Ísafirði árið 1970. 35 nemendur innrituðust þá um haustið og vorið 1974 útskrifuðust 30 stúdentar við fyrstu brautskráningu skólans.

Í tilefni þess að nú eru 50 ár frá fyrstu útskrift skólans fannst okkur við hæfi að rifja upp þá miklu baráttu sem fjölmargir Vestfirðingar tóku þátt í til þess að af stofnun hans mætti verða. Af þeim sem hvað mest lögðu á sig eru nú tveir á lífi, þeir Gunnlaugur Jónasson og Jón Páll Halldórsson. Stjórnendur MÍ heimsóttu þá í tilefni tímamótanna og færðu þeim þakklætisvott fyrir þeirra framlag. Það var afskaplega gaman og áhugavert að rifja upp þennan tíma með þeim Gunnlaugi og Jóni Páli. M.a. rifjuðum við upp blaðagrein sem þeir félagar skrifuðu þann  22. júní 1969 og birtist í Morgunblaðinu  sem bar heitið ,,Ný menntunarhöfuðból verða að rísa – Jafna verður aðstöðuna til skólagöngu“ og má lesa HÉR.

23 maí 2024

Brautskráning og skólaslit

Laugardaginn 25. maí 2023 verður brautskráning frá Menntaskólanum á Ísafirði. Athöfnin fer fram í Ísafjarðarkirkju og hefst kl. 13:00.

Að þessu sinni munum við brautskrá 61 nemanda af 14 námsbrautum. Af útskriftarnemum eru 38 dagskólanemendur, 15 dreifnámsnemendur og 8 nemendur í fjarnámi sem eru með Menntaskólann á Ísafirði sem heimaskóla.

Sjö nemendur útskrifast af matartæknibraut, þrír nemendur útskrifast af sjúkraliðabraut og tveir nemendur af lista- og nýsköpunarbraut. Níu nemendur útskrifast af vélstjórnarbraut A, þrír nemendur útskrifast úr stálsmíði, einn nemandi af skipsstjórnarbraut A og tveir nemendur af skipsstjórnarbraut B. Einn nemandi útskrifast af húsasmíðabraut og einn nemandi úr iðnmeistaranámi.

36 nemendur útskrifast með stúdentspróf. Þrír af félagsvísindabraut, 11 af náttúruvísindabraut og þar af fjórir með íþróttasvið. 17 nemendur útskrifast af opinni stúdentsbraut, þar af einn með íþróttasvið. Tveir nemendur ljúka námi af starfsbraut og þrír nemendur ljúka stúdentsprófi af fagbraut.

Auk þess munu 16 nemendur útskrifast úr grunnnámi málm- og véltæknigreina.

Allir eru velkomnir í athöfnina en hún verður einnig í beinu streymi frá Viðburðastofu Vestfjarða. Hér er tengill á beint streymi

23 maí 2024

Uppskeruhátíð Evrópuverkefna

Í tilefni þess að 30 ár eru frá undirritun samnings um evrópska efnahagssvæðisins var þann 8. maí sl. blásið til uppskeruhátíðar Evrópuverkefna. Menntaskólanum á Ísafirði var boðið að taka þátt og kynna Evrópuverkefni sem skólinn hefur tekið þátt í og fengið hafa styrk úr samstarfsáætlunum ESB. Það voru Rannís, utanríkisráðuneytið, háskóla-, iðnaðar-, og nýsköpunarráðuneytið og sendinefnd ESB á Íslandi sem stóðu að hátíðinni og áætlað er að rúmlega 600 manns hafi sótt viðburðinn sem fram fór í Kolaportinu.

Verkefnin sem kynnt voru á hátíðinni komu alls staðar að úr samfélaginu, enda hafa áætlanir ESB styrkt íslenska aðila á sviði menntamála, kvikmyndagerðar, æskulýðsmála, rannsókna, nýsköpunar og fleiri sviðum. 

Fyrir hönd MÍ tóku þátt þær Hildur Halldórsdóttir alþjóðafulltrúi og Friðgerður Ómarsdóttir fjármálastjóri. Þær tóku við viðurkenningu frá Landsskrifstofu Erasmus+ fyrir árangursríkt verkefni og kynntu m.a. ferð nemenda á starfsbraut til Amsterdam í fyrra ásamt fleiri verkefnum sem nemendur og starfsfólk skólans hafa tekið þátt í. 

Sigurjón Ragnar ljósmyndari tók meðfylgjandi myndir við þetta tilefni.

21 maí 2024

Styrktarsjóður Gyðu Maríasdóttur - auglýst eftir umsóknum

Auglýst er eftir umsóknum um styrk úr Styrktarsjóði Gyðu Maríasdóttur. Styrktarsjóðurinn var stofnaður árið 1962 af nemendum Húsmæðraskólans Óskar.


Styrkurinn er ætlaður til stuðnings vestfirskum konum sem stunda sérhæft framhaldsnám á sviði lista eða menningar. Umsækjandi þarf að hafa náð átján ára aldri og hafa átt lögheimili á Vestfjörðum í a.m.k. tvö ár.


Umsóknir skulu berast til Heiðrúnar Tryggvadóttur skólameistara Menntaskólans á Ísafirði, heidrun@misa.is

Umsóknarfrestur er til 5. júní n.k.

 

14 maí 2024

EMMÍ Sprett-upp afmælissýning

Í tilefni þess að 50 ár eru liðin frá fyrstu útskrift úr MÍ verður opnuð svokölluð ,,sprett-upp" afmælissýning í Gryfjunni föstudaginn 24. maí. Á sýningunni verður lögð áhersla á dulda námskrá skólans og því verður nemendamenningin í fyrirrúmi. Til að undirbúa sýninguna hefur verið haft samráð við fimm fyrrverandi útskriftarárganga ásamt stjörnum núverandi útskriftar og mun því sýningin spanna nemendasögu MÍ allt frá fyrsta útskriftarárgangi til útskriftarárgangs dagsins í dag. Sýningin verður opin frá kl. 17 til 20 föstudaginn 24. maí og frá kl. 15-17 laugardaginn 25. maí. Verið öll velkomin!