13 maí 2024

Að búa til eitthvað sem býr til (næstum) hvað sem er

Svavar Konráðsson, kennari í nýsköpunargreinum og verkefnastjóri í Fab Lab situr ekki auðum höndum þessa önnina. Ásamt því að kenna nemendum MÍ nýsköpun og Fab Lab tækni stundar hann sjálfur nám við MIT háskólann í Boston. Þar situr hann námskeið um hvernig má búa til tæki sem býr til (næstum) hvað sem er.

Síðastliði vor lauk Svavar 6 mánaða alþjóðlegu Fab Academy  námi  í stafrænni framleiðslutækni þar sem lögð er áhersla á virka þátttöku í fjórðu iðnbyltingunni. Námið er kennt af Neil Gershenfeld prófessor hjá MIT háskólanum í Boston en er opið hverjum sem er. Áhugasamir nemendur geta tekið Fab Academy í Fab Lab smiðjunni á Ísafirði. Lokaverkefni Svavars í Fab Academy vakti mikla athygli og í kjölfarið var honum boðið að taka þátt í öðru námskeiði hjá Neil sem alla jafna stendur aðeins fullgildum MIT nemendum til boða.

Þátttaka í slíku námskeiði er frábært tækifæri til að læra af þeim fremstu í heimi þegar kemur að tækni og vísindum og hyggst Svavar nýta sína reynslu beint inn í kennslu nemenda í Fab Lab smiðjunni. Nánar má fræðast um verkefni Svavars í námskeiðinu hér:

Svavar Konradsson - How to Make Something that Makes (almost) Anything (mit.edu)

6 maí 2024

Stækkaðu framtíðina

Menntaskólinn á Ísafirði tekur þátt í spennandi verkefni sem kallast Stækkaðu framtíðina. Verkefnið felst í að varpa ljósi á tækifæri framtíðarinnar og veita börnum og ungmennum innblástur til að verða það sem þau langar til, í samræmi við áhuga þeirra og styrkleika. Verkefnið tengir fjölbreytta sjálfboðaliða af vinnumarkaði við skólastofuna. Þar segja þau nemendum frá starfi sínu og hvernig nám þeirra hefur nýst þeim.


Vilmundur Torfi Kristinsson húsasmiður, vélaverkfræðingur og starfsmaður Kerecis reið á vaðið og heimsótti skólann í dag. Kynnti hann nám sitt og störf fyrir nemendum í verknámi. 

 

Stækkaðu framtíðina er verkefni fyrir alla grunn- og framhaldsskóla landsins. Sjálfboðaliðar af vinnumarkaði heimsækja kennslustundir til að lýsa starfi sínu, segja nemendum frá því hvernig nám þeirra hefur nýst og hver bakgrunnur þeirra er. Markmiðið er að öll börn og ungmenni: 

- Hafi jöfn tækifæri og aðgang að fjölbreyttu námi og störfum sem er í samræmi við áhuga þeirra og hæfileika. 

- Sjái þá möguleika sem standa þeim til boða, óháð bakgrunni og staðsetningu.   

- Fái tækifæri til að kynnast ólíkum störfum og heyra sögur frá fólki af vinnumarkaðinum.

- Upplifi aukinn áhuga og sjái tilgang með námi sínu

 

Nánar má fræðast um verkefnið á heimasíðu þess www.staekkaduframtidina.is. Þar er einnig hægt að skrá sig sem sjálfboðaliða.

 

2 maí 2024

Lið MÍ í úrslit ungra frumkvöðla

Við í MÍ erum ótrúlega stolt af öllum nemendum okkar sem tóku þátt í Fyrirtækjasmiðju ungra frumkvöðla í ár. Stór hluti þeirra tók þátt í vörumessu í Smáralind í byrjun apríl og í síðustu viku kom í ljós að eitt fyrirtæki úr MÍ er komið áfram í úrslit keppninnar. Fyrirtækið heitir Áróra og það eru þau Agnes Eva Hjartardóttir, Abdulrahman Al Bdiwi og Rögnvaldur Már Magnússon sem standa á bak við það. Verkefnið þeirra snýr að því að selja armbönd og lyklakippur til styrktar heimilislausu fólki á Íslandi og fer allur ágóði af sölunni í að betrumbæta aðstæður þeirra. Nemendurnir hafa nú þegar mætt í viðtöl til dómara keppninnar og munu svo halda suður til Reykjavíkur í dag til að kynna fyrirtækið sitt í Arion banka og taka þátt í uppskeruhátíð.

 Við óskum þeim til hamingju með árangurinn og góðs gengis á lokaspretti keppninnar.

30 apr 2024

Vel heppnuð ferð til Kaupmannahafnar

Nemendur á starfsbraut fóru í skemmtilega ferð til Kaupmannahafnar í síðustu viku. Í ferðinni heimsóttu þau tvo danska skóla og kynntu þar m.a. starfsbraut MÍ. Þau fengu að kynnast dönskum nemendum og unnu verkefni með þeim. Einnig gafst góður tími fyrir nemendur til að skoða sig um í borginni, fara í siglingu, tívolí, á strikið og margt fleira. Sjö nemendur fóru í ferðina á samt fjórum starfsmönnum og höfðu öll gagn og gaman af eins og meðfylgjandi myndir sýna.

24 apr 2024

Gleðilegt sumar

Framundan er löng helgi með sumardeginum fyrsta á morgun og námsmatsdegi án nemenda á föstudaginn. Við í Menntaskólanum á Ísafirði þökkum nemendum og forráðamönnum fyrir gott samstarf í vetur og óskum öllum gleðilegs sumars.

Nú er stutt eftir af önninni. Nemendur eru beðnir um að huga vel að náminu þessar síðustu vikur annarinnar. Mikilvægt er að mæta vel, skila verkefnum og undirbúa próf eins vel og mögulegt er. Við minnum á þjónustu Ernu Sigrúnar námsráðgjafa ef þið þurfið aðstoð við námið eða skipulagningu þess. Hægt er að panta tíma hjá námsráðgjafa hér.

Næstu tvær vikur eru í styttri kantinum. Á þriðjudaginn, 30. apríl, er dimmision en þá fagna útskriftarefni ársins fyrirhuguðum námslokum. Búast má við einhverri truflun á kennslu milli kl. 9-11. Um kvöldið er lokaball NMÍ í Edinborgarhúsinu. Miðvikudaginn 1. maí er baráttudagur verkalýðsins og enginn skóli. Í þarnæstu viku er uppstigningardagur fimmtudaginn 9. maí og enginn skóli. Námsmatsdagar hefjast síðan 10. maí.

22 apr 2024

50 ár frá fyrstu útskrift úr MÍ

Í vor höfum við útskrifað nemendur í 50 ár!
Við bjóðum fyrrum nemendum og starfsfólki að fagna þeim merku tímamótum með okkur.

Föstudaginn 24. maí verður boðið upp á innlit í nemendasögu skólans frá kl. 17:00-20:00. Laugardaginn 25. maí verður brautskráning í Ísafjarðarkirkju kl. 13:00 og útskriftarfögnuður um kvöldið í íþróttahúsinu á Torfnesi. Nauðsynlegt er að skrá sig til þátttöku í útskriftarfögnuðinum fyrir 15. maí og er það gert hér.

Fögnum saman merkum tímamótum!

16 apr 2024

Innritun í nám á haustönn

Innritun nýnema stendur nú yfir og lýkur 7. júní 2024. Innritun eldri nema í dagskóla lýkur 31. maí 2024.

Innritunin fer fram rafrænt gegnum www.innritun.is

Innritun í fjarnám stendur yfir til 16. ágúst, sjá nánar hér.

 

Öllum nemendum, í námi eða á leið í nám, stendur til boða að panta viðtal hjá áfanga- og fjarnámsstjóra eða námsráðgjafa og fá aðstoð við áfanga- og námsval.

Hægt er að panta tíma í viðtal rafrænt:

Bóka tíma 

 

12 apr 2024

Kosið í nýja stjórn Nemendafélags MÍ

Í gær, fimmtudaginn 11. apríl, var haldinn aðalfundur Nemendafélags MÍ. Að loknum aðalfundi fluttu frambjóðendur til nýrrar stjórnar framboðsræður og í kjölfarið hófust kosningar í embætti. Kosningunum lauk kl. 11 í dag og í hádeginu voru niðurstöður þeirra kynntar með viðhöfn í gryfjunni. Nýja stjórn NMÍ skipa:

Unnur Guðfinna Daníelsdóttir - Formaður
Jón Gunnar Shiransson - Gjaldkeri 
Laufey Dís Þórarinsdóttir - Ritari
Sæunn Lív Christophsdóttir - Menningarviti
Guðríður Vala Atladóttir - Málfinnur
Agnes Eva Hjartardóttir - Formaður leikfélags
Frosti Gunnarsson - Formaður vídeóráðs
Sverri Bjarki Svavarsson - Fulltrúi verknámsnema

 

Nýjum fulltrúum í stjórn nemendafélagsins er óskað innilega til hamingju, sem og velfarnaðar í störfum sínum fyrir nemendur MÍ næsta vetur. 

11 apr 2024

Laus störf

Menntaskólinn á Ísafirði auglýsir tvær lausar stöður. Annars vegar 100% stöðu íslenskukennara frá 1. ágúst 2024 og hins vegar afleysingastöðu umsjónarmanns fasteigna.

Nánari upplýsingar um störfin og umsóknaeyðublöð má finna á starfatorgi:

Íslenskukennari

Umsjónarmaður fasteigna

Umsóknarfrestur er til 24. apríl 2024,  nánari upplýsingar veita Heiðrún skólameistari á heidrun@misa.is og Dóróthea aðstoðarskólameistari á dorothea@misa.is

 

10 apr 2024

Starfsáætlun 2024-2025

Starfsáætlun (skóladagatal) skólaársins 2024-2025 hefur verið tekin til afgreiðslu og samþykkt á skólaráðsfundi. Áður höfðu drög að áætluninni verið kynnt starfsfólki og því gefinn kostur á að koma með athugasemdir. 

Skóladagatal 2024-2025