8 nóv 2024

Nemendaþing

Fimmtudaginn 7. nóvember var haldið nemendaþing með svokölluðu þjóðfundasniði. Nemendum var skipt í hópa og tekin voru til umfjöllunar spurnigar um metnað, nám og félagslíf við skólann. Eftir umræður í hópum kynntu borðstjórar niðurstöður síns hóps. Boðið var upp á snúða og safa í hléi en fundurinn stóð frá kl. 9:45 til kl. 11: 45

Skólafundir skulu haldnir a.m.k. einu sinni á ári skv. lögum um framhaldsskóla og í MÍ hafa slíkir fundir verið haldnir á hverri önn um nokkurt skeið. Góð þátttaka var meðal nemenda og kennara á fundinum í ár og verða niðurstöður hans teknar saman og kynntar áður en önninni lýkur. 

4 nóv 2024

Dreifnám á vorönn 2025

Á vorönn 2025 er stefnt að því að bjóða upp á tvær nýjar námsgreinar í lotubundnu dreifnámi. Um er að ræða húsasmíði annars vegar og múraraiðn hins vegar, hvoru tveggja með fyrirvara um næga þátttöku. Námið verður kennt í staðbundnum helgarlotum og fjarnámi þess á milli. Nemendur sem náð hafa 23 ára aldri og eru með 3 ára starfsreynslu í viðkomandi grein geta farið í raunfærnimat. Fyrir frekari upplýsingar má senda póst á fjarnam@misa.is eða hringja í síma 4504400. 

31 okt 2024

Nám á vorönn

Skráning í nám á vorönn 2025 hefst  föstudaginn 1. nóvember.

  

Innritun í fjarnám fer fram á umsóknarvef skólans og stendur yfir til 3. janúar 2025.

Innritun í dagskóla fer fram á menntagátt og stendur yfir til 30. nóvember.

Innritun í dreifnám fer fram á fjarnam@misa.is  

Nánari upplýsingar veitir Martha Kristín áfanga- og fjarnámsstjóri, martha@misa.is

16 okt 2024

Löng helgi

Nú er hin kærkomna langa helgi framundan hjá nemendum og starfsfólki MÍ. Engin kennsla verður dagana 17. - 22. okt. Skrifstofa skólans verður einnig lokuð þessa daga. Við vonum að nemendur og starfsfólk njóti frísins og komi endurnærð til starfa miðvikudaginn 23. október. 

14 okt 2024

Reisugildi í dag

Í dag samfögnuðum við húsasmíðanemendum á 4. önn og kennurum þeirra að síðasta sperran í húsi sem Skíðafélag Ísfirðinga (SFÍ) mun eignast er risin. Reisugildið var fjölmennt þar sem saman komu nemendur, starfsfólk og fulltrúar SFÍ. Eins og hefð er fyrir í reisugildum var íslenska fánanum flaggað í tilefni áfangans og boðið upp á veitingar.

Nú stunda 10 nemendur nám á 4. önn í húsasmíði og eru kennarar í verklegum húsasmíðagreinum þeir Hermann Björn Þorsteinsson og Þórhallur Snædal. Nemendurnir taka nú tvo stóra áfanga þar sem kennd er smíði staðbyggðra timburhúsa með áherslu á undirstöður, burðar- og milliveggi. Sömuleiðis er farið í klæðningu, einangrun, uppsetningu glugga, hurða, stiga og innréttinga auk almenns frágangs. Sömuleiðis læra nemendur um útfærslu einstakra byggingarhluta, efnisval, staðsetning á stoðum, bitum og sperrum auk umfjöllunar um þakkvisti og frágang í kringum þakop.

Til hamingju húsasmíðanemendur og kennarar með áfangann. Við hlökkum til að fylgjast áfram með byggingaframkvæmdum.

 

 

12 okt 2024

Fjarnám á vorönn 2025

Opnað hefur verið fyrir umsóknir um fjarnám á vorönn 2025.
Allar upplýsingar um fjarnámið í MÍ má finna hér

7 okt 2024

Auglýst eftir módeli

Menntaskólinn á Ísafirði leitar að módeli í tímabundið verkefni sem felur í sér að sitja fyrir í myndlistartíma. Um er að ræða eftirfarandi tímasetningar:

28. október kl. 9-11:45
11. nóvember kl. 9-11:45
18. nóvember kl. 9-11:45

Viðkomandi þarf að sitja fyrir í 15-20 mínútur í senn án fata eða í sundfötum og vera fær um að sitja kyrr og starfa í skapandi umhverfi listkennslu. Greitt er samkvæmt taxta Myndlistarskóla Reykjavíkur. Áhugasamir geta haft samband við skólann á netfangið misa@misa.is.


5 okt 2024

Þröstur tilnefndur til Íslensku menntaverðlaunanna

Í dag, á alþjóðadegi kennara, voru kynntar tilnefningar til Íslensku menntaverðlaunanna en verðlaunin verða veitt á Bessastöðum 5 nóvember n.k. Við í MÍ erum ákaflega stolt af því að eiga í hópnum einn kennara, Þröst Jóhannesson húsasmíðakennara, sem tilnefndur er í flokki iðn- og verkemenntunar en flokkurinn tekur til kennara, námsefnishöfunda, skóla- eða menntastofnunar fyrir framúrskarandi starf, verk eða annað framlag til iðn- eða verkmenntunar. Við óskum Þresti innilega til hamingju með tilnefninguna og öllum kennurum til hamingju með alþjóðadag kennara.

Þröstur lauk námi til kennsluréttinda frá Háskóla Íslands 2008 en áður hafði hann lokið meistaranámi í húsasmíði. Þröstur hefur kennt við Menntaskólann á Ísafirði frá 1987 og lengst af verið kennari  í húsasmiðagreinum. Undanfarin ár hefur hann verið sviðsstjóri starfs- og verknáms auk þess að sitja í verkefnastjórn vegna byggingar nýs verknámshúss. 

Í húsasmíðakennslunni hefur Þröstur verið óhræddur við að leita nýrra leiða. Hann hefur til dæmis nýtt sér samlegðaráhrif við Fab lab-smiðjuna í skólanum í kennslu og náð góðum árangri í að tengja húsasmíði við tæknina sem þar er til staðar. Hann hefur komið á breytingum í teikniáföngum svo þeir séu betur tengdir nútímatækni og þeim veruleika sem bíður nemenda eftir útskrift. Hann hefur lagt mikla áherslu á umhverfismál í störfum sínum, t.d. þegar hugað er að nýtingu á efni í húsasmíðakennslunni.  

Þröstur hefur lagt mikla áherslu á öryggismál og er umhugað um að nemendur tileinki sér góð vinnubrögð, meðal annars með tilliti til öryggisatriða. Þresti hefur lagt áherslu á að haga kennslunni þannig að hún búi nemendur sem best undir húsasmíðastörf í framtíðinni. Allan sinn kennsluferil hefur hann verið í mjög góðum samskiptum við atvinnulífið sem hefur skilað sér vel inn í kennsluna.  

Þröstur hefur fengist við félagsstörf tengt íþróttum og kennt skíðagöngu. Hann keppti fyrir Íslands hönd í skíðagöngu á vetrarólympíuleikunum 1980. 

Úr umsögn sem fylgdi tillögu að tilnefningu: Þröstur er mjög lausnamiðaður, bæði í kennslu sinni og störfum. Hann hefur t.d. búið við frekar slaka kennsluaðstöðu í húsasmíðagreinum við skólann en hann hefur aldrei látið það hafa áhrif á kennsluna heldur unnið með aðstöðuna og verið mjög lausnamiðaður í að nýta rýmið sem best til kennslu. 

Þröstur er þekktur fyrir einstaka prúðmennsku  bæði meðal nemenda og starfsmanna og það er óhætt að segja að Þröstur búi yfir stóískri ró sem hefur mjög góð áhrif á þau sem eru í kringum hann.  

Nemendur Þrastar hafa í gegnum tíðina bundist honum tryggðarböndum og vil ég vitna beint í einn nemanda hans sem sagði mér á dögunum að Þröstur væri svo mikil GOAT eða Greatest Of All Times. Það er líklega ekki hægt að fá betri meðmæli sem kennari.  

Þröstur hefur allan sinn tíma sýnt mikla hollustu við húsasmíðakennsluna og skólann. Hann er einstök fyrirmynd, bæði fyrir nemendur og starfsfólk og framúrskarandi kennari. 

 

 

4 okt 2024

Gefum íslensku séns í MÍ

Á haustdögum fengum við Eirík Rögnvaldsson fyrrverandi prófessor í íslenskri málfræði til að halda erindi fyrir alla nemendur um allskonar íslensku. Í kjölfar erindisins ræddi Ólafur Guðsteinn Kristjánsson um verkefnið Gefum íslensku séns – íslenskuvænt samfélag  sem miðar að því að auka möguleika fólks í notkun íslensku á sem víðtækastan og fjölbreyttastan hátt. Markmiðið er að fólk sem lærir málið fái stuðning og skilning þeirra sem hafa vald á íslensku auk þess sem því er ætlað að vekja samfélagið til vitundar um það hvernig við getum öll stuðlað að framförum fólks í íslensku og að fólk hafi tækifæri til að nota málið við sem flest tækifæri.

Kennarar og nemendur í MÍ hafa strax tekið við sér og nú hafa verið skipulagðir vikulegir tímar þar sem þau sem hafa íslensku að móðurmáli og þau sem hafa annað móðurmál en íslensku spjalla saman á íslensku. Verkefnið höfum við kosið að kalla Gefum íslensku séns í MÍ og er það innblásið af verkefni Ólafs Guðsteins og félaga hjá Háskólasetri Vestfjarða. Verkefnið fer virkilega vel af stað, mikill áhugi og frábær þátttaka hjá nemendum. Um fjórðungur nemenda Menntaskólans á Ísafirði hefur annað móðurmál en íslensku og alls eru töluð hátt í tuttugu tungumál í skólanum. Við fögnum fjölbreytileikanum og viðurkennum að við erum allskonar og það er hægt að tala allskonar íslensku.

3 okt 2024

Finnlandsferð

Tíu nemendur á Lista- og nýsköpunarbraut Menntaskólans á Ísafirði héldu til Finnlands í byrjun vikunnar ásamt kennurunum sínum þeim Ólöfu Dómhildi og Andreu. Ferðin er hluti af Erasmus plús verkefnum skólans og stendur yfir í 5 daga. Í ferðinni hafa þau m.a. heimsótt Herttoniemen Yhteiskoulu framhaldsskólann í Helsinki, Haltia náttúrusafnið og Noux þjóðgarðinn. EInnig stendur til að fara að sjá íslensk leikverk á finnsku, baka, fara í saunu og margt fleira. Yfirskrift ferðarinnar er List og náttúra og endurspeglast það í dagskrá ferðarinnar og þeim verkefnum sem nemendur taka sér fyrir hendur á meðan þau eru í Finnlandi.