5 sep 2024

Samstaða gegn ofbeldi

Nemendur og starfsfólk MÍ klæddust bleiku í dag til að sýna samstöðu og heiðra minningu Bryndísar Klöru. Það var falleg samverustund í gryfjunni þar sem Unnur Guðfinna Daníelsdóttir formaður nemendafélags MÍ og Heiðrún Tryggvadóttir skólameistari ávörpuðu hópinn. Vakin var athygli á mikilvægi þess að við sýnum öll sem eitt samstöðu í að stöðva ofbeldi. Fjölskyldu og vinum Bryndísar Klöru og skólasamfélaginu í Verslunarskóla Íslands eru færðar samúðarkveðjur frá okkur öllum í MÍ.

3 sep 2024

Bréf til nemenda og foreldra/forsjáraðila vegna vitunarvakningar gegn ofbeldi

Kæru nemendur og foreldrar/forsjáraðilar

Þessi póstur er sendur á alla dagskólanemendur og foreldra/forsjáraðila þeirra í Menntaskólanum á Ísafirði. Samskonar póstur er sendur á foreldra/forsjáraðila allra framhaldsskólanemenda á Íslandi.

Áhyggjur af auknum vopnaburði og ofbeldi meðal barna og unglinga hafa farið vaxandi og hafa alvarleg atvik undanfarið ýtt undir þann ótta. Við þessu er mikilvægt að bregðast. Menntaskólinn á Ísafirði áréttar að vopnaburður á almannafæri er lögum samkvæmt bannaður. Ef nemandi verður uppvís að því að bera vopn verður málið undantekningalaust tilkynnt til lögreglu, og eftir atvikum til barnaverndar ef um nemanda undir 18 ára aldri er að ræða, auk þess sem haft verður samband við foreldra/forsjáraðila. Ofbeldismál sem upp koma innan skólans eða viðburðum í hans nafni verða sett í viðeigandi ferli og unnin eftir viðbragðsáætlun skólans sem finna má hér ásamt skólareglum sem finna má hér. Við hvetjum nemendur og foreldra/forsjáraðila til að kynna sér bæði viðbragðsáætlunina og skólareglurnar en tekið skal fram að endurskoðun á viðbragðsáætlun skólans stendur yfir.

Mikilvægt er að nemendur og foreldrar/forsjáraðilar taki þátt í að bregðast við þessari þróun og geri allt sem í sínu valdi stendur til að koma í veg fyrir ofbeldi og vopnaburð. Við í MÍ hvetjum nemendur og foreldra/forsjáraðila til að ræða saman um hvernig við sköpum í sameiningu öruggara samfélag, þ á.m. um að það sé ólöglegt að ganga um með vopn, hverjar afleiðingar ofbeldis geta verið og hvert hægt er að leita að stuðningi.

Ákveðnir þættir eru verndandi gegn áhættuhegðun unglinga s.s. samvera foreldra og unglinga, að fylgst sé með netnotkun þeirra, að unglingum sé sýnd umhyggja og þeim séu sett skýr mörk sem og að foreldrar/forsjáraðilar þekki vini unglinga sinna og foreldra /forsjáraðila þeirra. Jafnframt felst  mikið forvarnargildi í þátttöku unglinga í skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi og mikilvægt er að foreldrar/forsjáraðilar séu virkir þátttakendur í foreldrastarfi. Við bendum í því samhengi á Facebook-hóp foreldraráðs MÍ.

Vakin er athygli á að nemendur og foreldrar/forsjáraðilar geta leitað stuðnings og ráðgjafar innan skólans svo sem hjá námsráðgjafa, skólahjúkrunarfræðingi, umsjónarkennurum eða stjórnendum. Þá bendum við á Hjálparsíma Rauða Krossins 1717 og netspjall á www.1717.is og á  www.112.is.

Við bendum á að á okkur öllum  hvílir tilkynningarskylda til barnaverndar ef ástæða er til að ætla að barn eða unglingur verði fyrir ofbeldi eða annarri vanvirðandi háttsemi eða stofni heilsu sinni og þroska í alvarlega hættu. Það sama á við ef barn eða unglingur beitir ofbeldi eða annarri vanvirðandi háttsemi.

Í sameiningu getum við stuðlað að öruggara samfélagi og aukinni farsæld. Við hvetjum ykkur til að hafa samband við skólann ef einhverjar spurningar vakna.

Virðingarfyllst, Heiðrún Tryggvadóttir skólameistari Menntaskólans á Ísafirði

30 ágú 2024

Viltu læra skyndihjálp?

Við eigum nokkur laus pláss í skyndihjálp á haustönn 2024.
Nánari upplýsingar og skráning er hjá Mörthu áfangastjóra, martha@misa.is

29 ágú 2024

Útikennsla í berjamó

Nemendur í náttúruvísindum á starfsbraut nýttu blíðviðrið á dögunum og fóru í berjamó upp í Stórurð. Að sögn Sigríðar Gísladóttur náttúrufræðikennara var markmið tímans var að njóta útiveru, kynnast náttúrunni í nærumhverfinu og að læra að þekkja í sundur villt ber. Er ekki annað að sjá á meðfylgjandi myndum en að þetta hafi tekist prýðilega, nemendur að vanda áhugasamir og berin ljúffeng. 

 

28 ágú 2024

Stúdent úr MÍ hlýtur styrk til háskólanáms

Lilja Jóna Júlíusdóttir hlaut á dögunum styrk úr afreks- og hvatningarsjóði stúdenta Háskóla Íslands. Lilja Jóna lauk námi af náttúruvísindabraut Menntaskólans á Ísafirði í vor og hlaut þá verðlaun Kerecis fyrir góðan námsárangur í líffræðigreinum. Samhliða námi lagði hún stund á píanónám og vann með skóla. Hún lagði mikla áherslu á náttúru- og raunvísindi í sínu námi við MÍ og hefur nú innritast í lífeindafræði í HÍ.

Lilja Jóna veitti styrknum viðtöku við hátíðlega athöfn í aðalbyggingu HÍ ásamt 30 öðrum nýnemum sem hlutu styrk að þessu sinni. Alls bárust 76 umsóknir en við úthlutun styrkja úr sjóðnum er auk námsárangurs á stúdentsprófi litið á frammistöðu á öðrum sviðum, svo sem í félagsstörfum í framhaldsskóla eða listum og íþróttum. Sjóðurinn styrkir einnig nemendur sem hafa sýnt fádæma seiglu og þrautseigju og hafa, þrátt fyrir afar erfiðar aðstæður, staðið sig afar vel í námi. 

Við óskum Lilju Jónu innilega til hamingju með styrkinn og óskum henni góðs gengis á nýjum slóðum. 

20 ágú 2024

Skólasetning

Menntaskólinn á Ísafirði var settur í dag í 55. sinn. Alls munu 215 nemendur stunda nám í dagskóla á haustönn og er það töluverð fjölgun frá síðasta skólaári eða um 20%. Leita þarf aftur til ársins 2014 til að finna sambærilegan nemendafjölda en þá var kennt eftir fjögurra ára kerfi til stúdentsprófs og því fleiri árgangar í skólanum en nú. Nemendur í fjarnámi og lotubundnu dreifnámi verða samtals 317 og heildarfjöldi nemenda við skólann 532. Aðsókn á heimavist hefur einnig aukist og verða öll herbergi hennar nýtt af nemendum MÍ í vetur. Við hlökkum til að starfa með þessum fjölmenna hópi nemenda í vetur.

19 ágú 2024

Nýnemadagur

Í dag er nýnemadagur í MÍ og 71 nýnemi að hefja nám við skólann. Á nýnemadeginum eru allir nýjir nemendur boðnir velkomnir í MÍ en auk nýnema eru 15 nýjir eldri nemendur og 3 skiptinemar. Á nýnemadeginum er f arið yfir það helsta sem varðar skólastarfið, stjórn nemendafélagsins sér um hópefli og boðið er upp á hádegismat í mötuneytinu.

Við í MÍ tökum fagnandi á móti þessum stóra hóp og hlökkum til að kynnast þeim.

9 ágú 2024

Upphaf haustannar

Nú styttist í upphaf haustannar. Skrifstofa skólans opnaði eftir sumarfrí 6. ágúst sl. og starfsdagar verða 15. og 16. ágúst. Nýnemar mæta í skólann 19. ágúst en kennsla hefst svo þriðjudaginn 20. ágúst að lokinni skólasetningu. Helstu upplýsingar varðandi skólabyrjun fylgja hér: 

 

16. ágúst kl. 08:00: Opnað fyrir stundatöflu og bókalista í INNU

Stundatöflur verða aðgengilegar í INNU föstudaginn 16. ágúst og þá verður einnig hægt að óska eftir töflubreytingum. Töflubreytingum lýkur 23. ágúst. Töflubreytingar eru rafrænar og fara fram í INNU. Hægt er að óska eftir aðstoð við töflubreytingar hjá aðstoðarskólameistara, áfangastjóra og námsráðgjafa og er hægt að panta tíma hjá þeim hér.

 

18. ágúst: Heimavist opnar

Heimavistin opnar fyrir íbúa heimavistar. Vistarstjórar taka á móti íbúum, sími vistarstjóra er 842 2440.

 

19. ágúst kl. 10:00: Nýnemadagur

Mánudaginn 19. ágúst frá kl. 10:00-14:00 er nýnemadagurinn sem er skóladagur eingöngu fyrir nýnema. Mæting í fyrirlestrasal, stofu 14. Gengið er inn um anddyri skólans á neðri hæð bóknámshússins og þar mun starfsfólk skólans taka á móti þér. Þau sem eiga tölvu eru beðin um að taka hana með sér. Öllum nýnemum verður boðið í mat í mötuneytinu í hádeginu.

 

19. ágúst kl. 15:00: Kynning fyrir nýja nemendur (nemendur fæddir 2007 og fyrr)

Kynningarfundur fyrir nýja nemendur.  Mæting í fyrirlestrasal, stofu 14. Gengið er inn um anddyri skólans á neðri hæð bóknámshússins og þar mun starfsfólk skólans taka á móti þér. Þau sem eiga tölvu eru beðin um að taka hana með sér.

 

20. ágúst kl. 09:00: Skólasetning

Skólasetning verður í Gryfjunni (gengið inn um anddyri skólans á neðri hæð bóknámshússins). Kennsla hefst skv. stundaskrá að skólasetningu lokinni.

 

26. ágúst kl. 17:30: Fundur með forsjáraðilum

Fundur um námsskipulag og starfshætti MÍ fyrir forsjáraðila. Fundurinn verður í fyrirlestrasal skólans, stofu 14. Gengið er inn um anddyri skólans á neðri hæð bóknámshússins og þar mun starfsfólk skólans taka á móti forsjáraðilum. Fundurinn verður líka á Teams fyrir þá sem búa ekki nálægt skólanum. Eftir fundinn verður forsjáraðilum boðið upp á súpu í mötuneyti skólans.

 

 

24 jún 2024

Lokun skrifstofu vegna sumarleyfa

Skrifstofa skólans verður lokuð vegna sumarleyfa frá 24. júní og opnar aftur þriðjudaginn 6. ágúst. Erindum sem þola ekki bið má vísa til skólameistara, Heiðrúnar Tryggvadóttur, í síma 8498815 eða heidrun@misa.is

24 jún 2024

Innritun nýnema lokið

Í dag lauk Menntamálastofnun við að innrita nýnema í framhaldsskóla. Alls voru 69 nýnemar innritaðir í MÍ og hafa nýnemar ekki verið svo margir síðan haustið 2014. Dagskólanemendum í heild mun fjölga um 17% og fara úr 180 í 216. Nýnemar skiptast eftir brautum þannig:

Félagsvísindabraut 4
Húsasmíði 4
Grunnnám málm- og véltæknigreina 19
Starfsbraut 4
Lista- og nýsköpunarbraut  4
Náttúruvísindabraut 10
Opin stúdentsbraut 24

 

Innritaðir nemendur eiga von á innritunarbréfi frá skólanum í pósti. Við bjóðum nýnema haustsins 2024 velkomna í MÍ og hlökkum til samstarfsins með þeim.

Innritun í fjarnám stendur enn yfir og sömuleiðis eru laus pláss á nokkrum brautum í dagskóla s.s. í húsasmíði og vélstjórn A. Hægt er að hafa samband í gegnum netfangið fjarnam@misa.is þegar skrifstofa skólans opnar að nýju eftir verslunarmannahelgi til að innrita sig í skólann.