Í dag 5.febrúar er veðurviðvörun og útlit fyrir versnandi veðri. Skólahald er með eðlilegum hætti núna um morguninn, en við munum taka stöðuna kl.12 og birta tilkynningu sé ástæða til að loka skólahúsnæðinu.
Fréttir
Í dag 5.febrúar er veðurviðvörun og útlit fyrir versnandi veðri. Skólahald er með eðlilegum hætti núna um morguninn, en við munum taka stöðuna kl.12 og birta tilkynningu sé ástæða til að loka skólahúsnæðinu.
Auknar vísbendingar eru í samfélaginu um áhættuhegðun meðal unglinga. Var af því tilefni ákveðið að boða til fundar í MÍ 30. janúar s.l. til að bjóða upp á fræðslu en ekki síst til taka samtalið við foreldra/forsjáraðila. Mæting var mjög góð en um 60 forsjáraðilar mættu á staðinn eða fylgdust með í streymi.
Erna Sigrún Jónsdóttir námsráðgjafi og forvarnarfulltrúi skólans og Þórir Guðmundsson frá Lögreglunni á Vestfjörðum fluttu erindi.
Erna Sigrún tók fyrir þróun mála hvað varðar áhættuhegðun og heilsu íslenskra unglinga í dag og sagði hún frá niðurstöðum nýjustu rannsókna á sviðinu. Einnig fjallaði Erna Sigrún um verndandi þætti í lífi barna s.s. uppeldishætti, svefn, skaðsemi ávanabindandi efna og sagði hún einnig frá starfsemi forvarnarhópsins Vá Vest.
Þórir lagði í sínu erindi áherslu á neyslu fíkniefna, m.a. hversu útbreidd neysla er, en í dag er til að mynda tiltölulega auðvelt að nálgast fíkniefni á netinu. Einnig ræddi hann um náið samstarf lögreglu og barnaverndar á svæðinu. Þórir benti á upplýsinga-/fíkniefnasíma lögreglunnar, sem má nota til að gefa lögreglunni upplýsingar varðandi fíkniefni. Númerið er 800-5005 og er fullri nafnleynd heitið, en einnig má ef vill gefa upplýsingar nafnlaust.
Góðar umræður sköpuðust og var m.a. rætt um breytta samfélagsmynd ungmenna í dag með tilkomu snjallsímans, áskoranir hvað varðar aðgengi ungmenni undir 20 ára að áfengi og öðrum skaðlegum efnum, ofsaakstur, eftirlitslaus partý og fleira. Fundargestir og starfsmenn skólans voru sammála um að á svæðið vanti ungmennahús þar sem einstaklingar á menntaskólaaldri gætu komið saman, eflt félagstengslin og skemmt sér á heilbrigðan hátt, án ávana- eða fíkniefna. Slíkt hús þyrfti að vera mannað og faglega að því staðið. Einn af verndandi þáttum gegn áhættuhegðun er einmitt skipulögð þátttaka í íþrótta- og/eða tómstundastarfi undir handleiðslu fullorðins aðila. Vonandi á þessi hugmynd vonandi eftir að vaxa og dafna og verða að veruleika með samhentu átaki samfélagsins alls.
Að lokum vill MÍ benda á að koma megi ábendingum á framfæri við skólann varðandi áhættuhegðun með því að senda póst á erna@misa.is, hringja í síma skólans, 450-4400 eða nota ábendingakerfið. Hægt er að senda inn nafnlausa ábendingu, en gott er að hafa í huga að greiðara er að vinna úr ábendingum undir nafni.
Ábending um einelti, kynbundna áreitni, kynferðislega áreitni eða ofbeldi
Í dag, fimmtudaginn 23. janúar, var hið árlega sólarkaffi í Menntaskólanum á Ísafirði. Löng hefð er fyrir sólarkaffi innan skólans, þar sem nemendur og starfsfólk fagna komu sólar eftir langa vetursetu handan fjalla.
Það voru að vanda þeir nemendur sem stefna á útskriftarferð í vor sem sáu um að bjóða upp á pönnukökur og fleira góðgæti í Gryfjunni. Á Ísafirði hverfur sólin á bak við fjöll seint í nóvember og birtist aftur í lok janúar. Hinn eiginlegi sólardagur Ísfirðinga er 25. janúar en þann dag sleikja sólargeislarnir húsþökin í Sólgötu, ef veður leyfir. Ísfirðingar hafa ávallt fagnað komu sólarinnar með því að drekka sólarkaffi og gæða sér á pönnukökum og er þessi siður fyrir löngu orðinn fastur liður í skólastarfi MÍ.
Við bjóðum sólina velkomna aftur í bæinn og hlökkum til fleiri sólardaga framundan.
Vekjum athygli á að stöðupróf í pólsku verður haldið á vegum Kvennó þann 4. mars n.k.
Nánari upplýsingar varðandi prófið og aðstoð við skráningu er hægt að fá hjá Mörthu Kristínu áfangastjóra.
Hægt er að panta tíma hér
Í dag kom æskulýðsfulltrúi Ísafjarðarbæjar, Dagný Finnbjörnsdóttir, í heimsókn og ræddi við hóp nemenda úr Ísafjarðarbæ um félagslíf og tómstundaiðkun. Ýmsar hugmyndir um hvernig væri hægt að efla félagslíf ungs fólks á svæðinu komu fram og fór Dagný vel nestuð af fundinum. Nemendahópurinn var nokkurs konar þverskurður af nemendum MÍ hvað varðar aldur, kyn, búsetu, námsbrautir og bakgrunn. Á skólafundi 9. nóvember sl. var ályktað um að skora á Ísafjarðarbæ og önnur sveitarfélögum við Djúp að koma á fót ungmennahúsi eða félagsmiðstöð fyrir fólk á framhaldsskólaaldri og var þessi fundur viðbragð Ísafjarðarbæjar við þeirri áskorun. Við þökkum Dagnýju kærlega fyrir komuna og vonumst til að skilaboð og hugmyndir nemenda komist alla leið í framkvæmd.
Innritun á vorönn er nú lokið í Menntaskólanum á Ísafirði og hafa nemendur aldrei verið fleiri við skólann en þeir eru nú 606 talsins. Næstfjölmennasta önnin til þessa er haustönnin árið 2021 þegar 544 nemendur voru innritaðir.
Af 606 nemendum skólans eru 204 í dagskóla og er heimavistin þétt setin eins og á haustönn. Nemendur frá suðurfjörðum eru þar fjölmennasti hópurinn eða 11 talsins.
Nú á vorönn fer af stað nám í múraraiðn í dreifnámi en það er í fyrsta sinn síðan Menntaskólinn á Ísafirði og Iðnskólinn á Ísafirði voru sameinaðir sem það nám er í boði. Dreifnám er vinsælt námsform innan skólans en það er nám fyrir fólk í vinnu sem kennt er í fjarkennslu og í lotum á kvöldin og um helgar. Húsasmíði, iðnmeistaranám, sjúkraliðanám og vélstjórnarnám A er sömuleiðis kennt í dreifnámi.
Fjarnemendur við skólann eru samtals 335 en fjarnámsnemendum hefur farið fjölgandi síðustu ár. Af þeim eru 116 nemendur í iðnmeistara- og sjúkraliðanámi. Iðnmeistaranámið er samstarfsverkefni MÍ og Verkmenntaskóla Austurlands í Neskaupstað en sjúkraliðanámið er samstarfsverkefni sömu skóla og Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra á Sauðárkróki. Af öðrum fjarnemendum, sem eru samtals 202, eru 81 síðan að fylgja námsbrautum innan MÍ og stefna á útskrift frá skólanum að námi loknu.
Hér má sjá hvernig nemendur skólans skiptast eftir ólíkum námsformum:
Dagskóli | 204 |
Dreifnám (húsasmíði, iðnmeistaranám, múraraiðn, sjúkraliðanám og vélstjórn A) | 67 |
Fjarnám í gegnum samstarfsskóla (m.a. iðnmeistaranám og sjúkraliðanám) | 133 |
Fjarnemendur með MÍ sem heimaskóla | 81 |
Fjarnámsnemendur | 121 |
SAMTALS | 606 |
Í kvöld keppir lið Menntaskólans á Ísafirði í fyrstu viðureign sinni í Gettu betur 2205. Mótherji MÍ að þessu sinni er lið Menntaskólans að Laugarvatni. Í ár eru alls 25 skólar skráðir til leiks og fara fyrstu undanúrslitaumferðirnar fram í beinni útsendingu á rúv.is.
Lið MÍ í árið 2025 er skipað þeim Guðbjörgu Ósk Halldórsdóttur, Grétari Loga Sigurðssyni og Soffíu Rún Pálsdóttur. Aðalþjálfari liðsins er Signý Stefánsdóttir og umsjónamaður og aðstoðarþjálfari er Guðríður Vala Atladóttir. Upphaflega sóttu 14 nemendur um þátttöku í liðinu en eftir fyrstu æfingar var fækkað niður í 6. Að sögn Guðríðar Völu sem skipar embætti Málfinns MÍ í vetur hafa æfingar gengið vel en krefjandi reyndist að velja aðeins þrjá keppendur þar sem margir efnilegir nemendur komu til greina. Við hvetjum áhugasama til að leggja við hlustir á vef ríkisútvarpsins ruv.is í kvöld kl. 19:10.
Hér má finna helstu upplýsingar um upphaf skólastarfs á vorönn 2025:
3. janúar
- Skrifstofa skólans opnar eftir jólafrí
- Stundatafla og námsgagnalisti opna í INNU
- Rafrænar töflubreytingar hefjast
- Skráningu í fjarnám lýkur
5. janúar
- Heimavist opnar eftir jólafrí
6. janúar
- Starfsmannafundur kl. 9:00 í stofu 14.
- Skólastarf hefst kl. 11:30 í Gryfjunni. Kennt skv. stundatöflu frá kl. 11:50.
10. janúar:
- Töflubreytingum lýkur
17. janúar:
- Skráningu í útskrift lýkur
Í dag brautskráðust 20 nemendur af 8 námsbrautum frá skólanum. Af útskriftarnemum eru 9 dagskólanemendur, 6 dreifnámsnemendur og 5 nemendur í fjarnámi sem eru með Menntaskólann á Ísafirði sem heimaskóla. Auk þess brautskráðist einn nemandi frá Menntaskólanum í Kópavogi.
Af braustkráðum nemendum útskrifaðist einn nemandi af lista- og nýsköpunarbraut, 4 af sjúkraliðabraut, 2 af sjúkraliðabrú, 1 nemandi úr vélstjórnarnámi A og 14 nemendur með stúdentspróf. Af stúdentum útskrifuðust 3 af félagsvísindabraut,
7 nemendur af opinni stúdentsbraut, 3 nemendur af opinni stúdentsbraut – íþróttasviði og 1 með stúdentspróf af fagbraut.
Við óskum öllum útskriftarnemendum og fjölskyldum þeirra til hamingju og þökkum ánægjulega samfylgd í MÍ.