Nemendafélag MÍ stóð fyrir íþrótta- og leikjadegi í dag þar sem ýmislegt skemmtilegt var brallað í stað þess að mæta í hefðbundnar kennslustundir. Dagurinn byrjaði á furðufataskemmtiskokki í blíðuveðri þar sem meðal hlaupara voru ýmsar undarlega klæddar verur eins og meðfylgjandi myndir sýna. Fleira skemmtilegt var boðið upp á eins og bandí, boccia, skák, snúsnú, spil, karíókí og borðtennis. Var ekki annað að sjá en að nemendur og starfsfólk skemmtu sér vel.
Fréttir
Fimmtudaginn 12. september frá kl. 9-15 stendur Menntaskólinn á Ísafirði fyrir málþingi og vinnustofum í Edinborgarhúsinu á Ísafirði undir yfirskriftinni Við öll í MÍ. Þar munu Jovana Pavlovic og Sema Erla Serdaroglu stýra fræðslu og vinnustofum um fordóma, ólíka menningu, steríótýpur og fjölmenningarsamfélag.
Jovana Pavlovic er mannfræðingur, og markaðs- og verkefnastjóri og fjölmenningafulltrúi hjá Símenntun Vesturlands og Sema Erla Serdaroglu er aðjúnkt við HÍ í tómstunda- og félagsmálafræði. Í rannsóknum sínum hefur Sema Erla einblínt á kynþátta- og menningarfordóma, einelti og ungt fólk og ofbeldisfulla öfgahyggju.
Málþingið og vinnustofurnar eru fyrir alla dagskólanemendur í MÍ og starfsfólk, hátt í 250 manns. 25% dagskólanemenda í skólanum hafa annað móðurmál en íslensku og alls eru töluð hátt í 20 ólík tungumál í skólanum. Inngilding er áhersluatriði í skólastarfinu alla daga og mikill vilji til þess að gera henni enn hærra undir höfði. Hugmyndin á bak við þennan dag kviknaði síðasta vetur og fékkst styrkur frá Þróunarsjóði innflytjendamála fyrir verkefninu.
Í tengslum við málþingið verður fræðslufundur fyrir foreldra/forsjáraðila og starfsfólk MÍ miðvikudaginn 11. september kl. 20 í fyrirlestrarsal skólans og verður sá fundur einnig í boði í beinu streymi.
Stöðupróf í albönsku, arabísku og víetnömsku verða haldin í Kvennaskólanum í Reykjavík föstudaginn 8. nóvember kl. 14:30.
Prófin verða í húsnæði Kvennaskólans að Fríkirkjuvegi 1.
Mest geta nemendur fengið 20 einingar metnar, 15 einingar á 1. þrepi og 5 einingar á 2. þrepi.
Skráning fer fram á heimasíðu skólans og þarf að skráningu að vera lokið í síðasta lagi mánudaginn 4. nóvember. Prófgjald er kr. 20.000 sem greiðist með því að leggja það inn á reikning: 0513-26-14040, kt. 650276-0359. Nauðsynlegt er að nafn og kennitala próftaka komi fram á innlegginu. Vinsamlegast sendið afrit af kvittuninni á gudnyrun@kvenno.is.
Réttur til próftöku byggist á að prófgjald hafi verið greitt og auk þess verða próftakar að framvísa persónuskilríkjum með mynd þegar komið er í prófið. Athugið að í stöðuprófi er gert ráð fyrir sérstakri færni í tungumálinu t.d. ef um er að ræða annað móðurmál viðkomandi eða búsetu erlendis.
Skráningarhlekkur: https://forms.office.com/e/etF6gyyiar
Nánari upplýsingar veitir Björk áfangastjóri (bjorkth@kvenno.is)
Stöðupróf í albönsku, arabísku og víetnömsku | Kvennaskólinn í Reykjavík (kvenno.is)
Gulur september er samvinnuverkefni stofnana og félagasamtaka sem vinna saman að geðheilbrigði og sjálfsvígsforvörnum. Markmið verkefnisins er að auka meðvitund fólks um mikilvægi geðræktar og sjálfsvígsforvarna. Á morgun, 10. september, er svo Guli dagurinn og þá klæðumst við gulu til merkis um kærleika, aðgát og umhyggju en 10. september er alþjóðlegur forvarnardagur sjálfsvíga.
Að gulum september standa fulltrúar frá: Embætti landlæknis, Geðhjálp, Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, Landspítala, Minningarsjóði Orra Ómarssonar, Píeta samtökunum, Rauða krossinum, SÁÁ, Sorgarmiðstöð, Þjóðkirkjunni og Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu. Nánari upplýsingar um gulan september má finna á heimasíðu geðhjálpar: https://gedhjalp.is/gulur-september/
Nemendur og starfsfólk MÍ klæddust bleiku í dag til að sýna samstöðu og heiðra minningu Bryndísar Klöru. Það var falleg samverustund í gryfjunni þar sem Unnur Guðfinna Daníelsdóttir formaður nemendafélags MÍ og Heiðrún Tryggvadóttir skólameistari ávörpuðu hópinn. Vakin var athygli á mikilvægi þess að við sýnum öll sem eitt samstöðu í að stöðva ofbeldi. Fjölskyldu og vinum Bryndísar Klöru og skólasamfélaginu í Verslunarskóla Íslands eru færðar samúðarkveðjur frá okkur öllum í MÍ.
Kæru nemendur og foreldrar/forsjáraðilar
Þessi póstur er sendur á alla dagskólanemendur og foreldra/forsjáraðila þeirra í Menntaskólanum á Ísafirði. Samskonar póstur er sendur á foreldra/forsjáraðila allra framhaldsskólanemenda á Íslandi.
Áhyggjur af auknum vopnaburði og ofbeldi meðal barna og unglinga hafa farið vaxandi og hafa alvarleg atvik undanfarið ýtt undir þann ótta. Við þessu er mikilvægt að bregðast. Menntaskólinn á Ísafirði áréttar að vopnaburður á almannafæri er lögum samkvæmt bannaður. Ef nemandi verður uppvís að því að bera vopn verður málið undantekningalaust tilkynnt til lögreglu, og eftir atvikum til barnaverndar ef um nemanda undir 18 ára aldri er að ræða, auk þess sem haft verður samband við foreldra/forsjáraðila. Ofbeldismál sem upp koma innan skólans eða viðburðum í hans nafni verða sett í viðeigandi ferli og unnin eftir viðbragðsáætlun skólans sem finna má hér ásamt skólareglum sem finna má hér. Við hvetjum nemendur og foreldra/forsjáraðila til að kynna sér bæði viðbragðsáætlunina og skólareglurnar en tekið skal fram að endurskoðun á viðbragðsáætlun skólans stendur yfir.
Mikilvægt er að nemendur og foreldrar/forsjáraðilar taki þátt í að bregðast við þessari þróun og geri allt sem í sínu valdi stendur til að koma í veg fyrir ofbeldi og vopnaburð. Við í MÍ hvetjum nemendur og foreldra/forsjáraðila til að ræða saman um hvernig við sköpum í sameiningu öruggara samfélag, þ á.m. um að það sé ólöglegt að ganga um með vopn, hverjar afleiðingar ofbeldis geta verið og hvert hægt er að leita að stuðningi.
Ákveðnir þættir eru verndandi gegn áhættuhegðun unglinga s.s. samvera foreldra og unglinga, að fylgst sé með netnotkun þeirra, að unglingum sé sýnd umhyggja og þeim séu sett skýr mörk sem og að foreldrar/forsjáraðilar þekki vini unglinga sinna og foreldra /forsjáraðila þeirra. Jafnframt felst mikið forvarnargildi í þátttöku unglinga í skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi og mikilvægt er að foreldrar/forsjáraðilar séu virkir þátttakendur í foreldrastarfi. Við bendum í því samhengi á Facebook-hóp foreldraráðs MÍ.
Vakin er athygli á að nemendur og foreldrar/forsjáraðilar geta leitað stuðnings og ráðgjafar innan skólans svo sem hjá námsráðgjafa, skólahjúkrunarfræðingi, umsjónarkennurum eða stjórnendum. Þá bendum við á Hjálparsíma Rauða Krossins 1717 og netspjall á www.1717.is og á www.112.is.
Við bendum á að á okkur öllum hvílir tilkynningarskylda til barnaverndar ef ástæða er til að ætla að barn eða unglingur verði fyrir ofbeldi eða annarri vanvirðandi háttsemi eða stofni heilsu sinni og þroska í alvarlega hættu. Það sama á við ef barn eða unglingur beitir ofbeldi eða annarri vanvirðandi háttsemi.
Í sameiningu getum við stuðlað að öruggara samfélagi og aukinni farsæld. Við hvetjum ykkur til að hafa samband við skólann ef einhverjar spurningar vakna.
Virðingarfyllst, Heiðrún Tryggvadóttir skólameistari Menntaskólans á Ísafirði
Við eigum nokkur laus pláss í skyndihjálp á haustönn 2024.
Nánari upplýsingar og skráning er hjá Mörthu áfangastjóra, martha@misa.is
Nemendur í náttúruvísindum á starfsbraut nýttu blíðviðrið á dögunum og fóru í berjamó upp í Stórurð. Að sögn Sigríðar Gísladóttur náttúrufræðikennara var markmið tímans var að njóta útiveru, kynnast náttúrunni í nærumhverfinu og að læra að þekkja í sundur villt ber. Er ekki annað að sjá á meðfylgjandi myndum en að þetta hafi tekist prýðilega, nemendur að vanda áhugasamir og berin ljúffeng.
Lilja Jóna Júlíusdóttir hlaut á dögunum styrk úr afreks- og hvatningarsjóði stúdenta Háskóla Íslands. Lilja Jóna lauk námi af náttúruvísindabraut Menntaskólans á Ísafirði í vor og hlaut þá verðlaun Kerecis fyrir góðan námsárangur í líffræðigreinum. Samhliða námi lagði hún stund á píanónám og vann með skóla. Hún lagði mikla áherslu á náttúru- og raunvísindi í sínu námi við MÍ og hefur nú innritast í lífeindafræði í HÍ.
Lilja Jóna veitti styrknum viðtöku við hátíðlega athöfn í aðalbyggingu HÍ ásamt 30 öðrum nýnemum sem hlutu styrk að þessu sinni. Alls bárust 76 umsóknir en við úthlutun styrkja úr sjóðnum er auk námsárangurs á stúdentsprófi litið á frammistöðu á öðrum sviðum, svo sem í félagsstörfum í framhaldsskóla eða listum og íþróttum. Sjóðurinn styrkir einnig nemendur sem hafa sýnt fádæma seiglu og þrautseigju og hafa, þrátt fyrir afar erfiðar aðstæður, staðið sig afar vel í námi.
Við óskum Lilju Jónu innilega til hamingju með styrkinn og óskum henni góðs gengis á nýjum slóðum.
Menntaskólinn á Ísafirði var settur í dag í 55. sinn. Alls munu 215 nemendur stunda nám í dagskóla á haustönn og er það töluverð fjölgun frá síðasta skólaári eða um 20%. Leita þarf aftur til ársins 2014 til að finna sambærilegan nemendafjölda en þá var kennt eftir fjögurra ára kerfi til stúdentsprófs og því fleiri árgangar í skólanum en nú. Nemendur í fjarnámi og lotubundnu dreifnámi verða samtals 317 og heildarfjöldi nemenda við skólann 532. Aðsókn á heimavist hefur einnig aukist og verða öll herbergi hennar nýtt af nemendum MÍ í vetur. Við hlökkum til að starfa með þessum fjölmenna hópi nemenda í vetur.