Góð mæting á forvarnarfund um áhættuhegðun meðal unglinga

3 feb 2025

Góð mæting á forvarnarfund um áhættuhegðun meðal unglinga

Auknar vísbendingar eru í samfélaginu um áhættuhegðun meðal unglinga. Var af því tilefni ákveðið að boða til fundar í MÍ 30. janúar s.l. til að bjóða upp á fræðslu en ekki síst til taka samtalið við foreldra/forsjáraðila. Mæting var mjög góð en um 60 forsjáraðilar mættu á staðinn eða fylgdust með í streymi.

Erna Sigrún Jónsdóttir námsráðgjafi og forvarnarfulltrúi skólans og Þórir Guðmundsson frá Lögreglunni á Vestfjörðum fluttu erindi.

Erna Sigrún tók fyrir þróun mála hvað varðar áhættuhegðun og heilsu íslenskra unglinga í dag og sagði hún frá niðurstöðum nýjustu rannsókna á sviðinu. Einnig fjallaði Erna Sigrún um verndandi þætti í lífi barna s.s. uppeldishætti, svefn, skaðsemi ávanabindandi efna og sagði hún einnig frá starfsemi forvarnarhópsins Vá Vest.

Þórir lagði í sínu erindi áherslu á neyslu fíkniefna, m.a. hversu útbreidd neysla er, en í dag er til að mynda tiltölulega auðvelt að nálgast fíkniefni á netinu. Einnig ræddi hann um náið samstarf lögreglu og barnaverndar á svæðinu. Þórir benti á upplýsinga-/fíkniefnasíma lögreglunnar, sem má nota til að gefa lögreglunni upplýsingar varðandi fíkniefni. Númerið er 800-5005 og er fullri nafnleynd heitið, en einnig má ef vill gefa upplýsingar nafnlaust.

Góðar umræður sköpuðust og var m.a. rætt um breytta samfélagsmynd ungmenna í dag með tilkomu snjallsímans, áskoranir hvað varðar aðgengi ungmenni undir 20 ára að áfengi og öðrum skaðlegum efnum, ofsaakstur, eftirlitslaus partý og fleira. Fundargestir og starfsmenn skólans voru sammála um að á svæðið vanti ungmennahús þar sem einstaklingar á menntaskólaaldri gætu komið saman, eflt félagstengslin og skemmt sér á heilbrigðan hátt, án ávana- eða fíkniefna. Slíkt hús þyrfti að vera mannað og faglega að því staðið. Einn af verndandi þáttum gegn áhættuhegðun er einmitt skipulögð þátttaka í íþrótta- og/eða tómstundastarfi undir handleiðslu fullorðins aðila. Vonandi á þessi hugmynd vonandi eftir að vaxa og dafna og verða að veruleika með samhentu átaki samfélagsins alls.

Að lokum vill MÍ benda á að koma megi ábendingum á framfæri við skólann varðandi áhættuhegðun með því að senda póst á erna@misa.is, hringja í síma skólans, 450-4400 eða nota ábendingakerfið. Hægt er að senda inn nafnlausa ábendingu, en gott er að hafa í huga að greiðara er að vinna úr ábendingum undir nafni.

Almenn ábending                   

Ábending um einelti, kynbundna áreitni, kynferðislega áreitni eða ofbeldi

Til baka