Í dag, fimmtudaginn 23. janúar, var hið árlega sólarkaffi í Menntaskólanum á Ísafirði. Löng hefð er fyrir sólarkaffi innan skólans, þar sem nemendur og starfsfólk fagna komu sólar eftir langa vetursetu handan fjalla.
Það voru að vanda þeir nemendur sem stefna á útskriftarferð í vor sem sáu um að bjóða upp á pönnukökur og fleira góðgæti í Gryfjunni. Á Ísafirði hverfur sólin á bak við fjöll seint í nóvember og birtist aftur í lok janúar. Hinn eiginlegi sólardagur Ísfirðinga er 25. janúar en þann dag sleikja sólargeislarnir húsþökin í Sólgötu, ef veður leyfir. Ísfirðingar hafa ávallt fagnað komu sólarinnar með því að drekka sólarkaffi og gæða sér á pönnukökum og er þessi siður fyrir löngu orðinn fastur liður í skólastarfi MÍ.
Við bjóðum sólina velkomna aftur í bæinn og hlökkum til fleiri sólardaga framundan.