3 okt 2024

Finnlandsferð

Tíu nemendur á Lista- og nýsköpunarbraut Menntaskólans á Ísafirði héldu til Finnlands í byrjun vikunnar ásamt kennurunum sínum þeim Ólöfu Dómhildi og Andreu. Ferðin er hluti af Erasmus plús verkefnum skólans og stendur yfir í 5 daga. Í ferðinni hafa þau m.a. heimsótt Herttoniemen Yhteiskoulu framhaldsskólann í Helsinki, Haltia náttúrusafnið og Noux þjóðgarðinn. EInnig stendur til að fara að sjá íslensk leikverk á finnsku, baka, fara í saunu og margt fleira. Yfirskrift ferðarinnar er List og náttúra og endurspeglast það í dagskrá ferðarinnar og þeim verkefnum sem nemendur taka sér fyrir hendur á meðan þau eru í Finnlandi.  

2 okt 2024

Forvarnardagurinn og klúbbastarfssemi

Í dag er forvarnardagurinn haldinn í 19. skipti í grunn- og framhaldsskólum landsins. Af þessu tilefni var dagskrá í gryfjunni í gær þar sem forvarnir voru í fyrirrúmi. Erna Sigrún forvarnarfulltrúi og Helena skólahjúkrunarfræðingur voru með erindi og fjölluðu meðal annars um skaðsemi áfengis, tóbaks og orkudrykkja. Dregið var úr hinum svokallaða fyrirmyndarpotti en allir nemendur sem blása í áfengismæli á böllum fara í pottinn og að þessu sinni voru verðlaunin 20.000kr gjafabréf í versluninni Djúpinu. Sú heppna var að þessu sinni Martyna Maria Wielgosz nemi á fyrsta ári. Jón Gunnar gjaldkeri nemendafélagsins kom einnig upp og kynnti klúbbastarf nemenda sem verið er að hleypa af stokkunum. Hugmyndafræði klúbbastarfsins er að gefa sem flestum rými og tíma til þess að eiga í félagslegum samskiptum í skólanum tengt áhugamálum. Þátttaka í tómstundastarfi er einn af þeim þáttum rannsóknir hafa sýnt að sé verndandi í lífi ungmenna og líkleg til að koma í veg fyrir frávikshegðun. Í lok dagskrár var boðið upp á ávexti og sódavatn í boði ölgerðarinnar Egils. 

Klúbbarnir byrja á að hittast í dag, miðvikudag kl. 16 í skólanum. Byrjað verður með listaklúbb, borðtennisklúbb, spilaklúbb og skákklúbb og allir nemendur hvattir til að skrá sig.  Nemendum er frjálst að koma með hugmyndir að nýjum klúbbum. Starfsmenn verða nemendum innan handar til að byrja með en síðan er markmiðið að klúbbarnir verði að mestu sjálfbærir.

25 sep 2024

Fréttir af Frakklandsförum

Mikið hefur drifið á daga nemenda okkar í Sables í Frakklandi undanfarna viku. Þau dvelja á heimilum franskra nemenda, verja bæði tíma með fjölskyldum þeirra og mæta í skólann með þeim. Ýmislegt fleira hefur verið skipulagt fyrir utan skóla. Á föstudag var farið í gönguferð þar sem nemendur í ferðamáladeild skólans leiðsögðu um gamla bæinn í Sables. Eftir hádegi var farið á ströndina og á brimbrettanámskeið þar sem allir þátttakendur náðu að standa á brimbretti í frábæru veðri, sól og hita. Á mánudag var farið í rútuferð til borgarinnar La Rochelle sem er í um tveggja tíma akstur sunnan við Sables. Borgin er gömul og saga hennar er mjög áhugaverð. Meðal annars í tengslum við seinni heimstyrjöldina. Þennan dag var grenjandi rigning en nemendur létu það ekki á sig fá. Við gengum stuttan hring um miðbæinn í fylgd franska kennarans og síðan fóru nemendur í ljósmyndamaraþon sem stóð til hádegis. Eftir hádegið var farið í heimsókn í sædýrasafn. Á þriðjudag voru nemendurnir í tímum með sínum tengiliðum og um kvöldið var kveðjuveisla í skólanum þar sem allir komu með mat að heiman, frábær stemming og mikið sungið og dansað. Á morgun taka þau lestina til Parísar þar sem þau hitta Svavar Þór kennara og verður hann með þeim ásamt Nadju frönskukennara í fjóra daga að skoða borgina.

23 sep 2024

Beactive - Evrópska íþróttavikan

Í dag hófst evrópska íþrótta- og hreyfivikan sem merkt er myllumerkinu #BeActive. Markmið vikunnar er að kynna íþróttir og almenna hreyfingu um alla Evrópu. Íþrótta- og hreyfivikan er ætluð öllum óháð aldri, bakgrunni eða líkamlegu ástandi. Nemendur og starfsfólk MÍ fá m.a. frítt í Stöðina - heilsurækt og næstu daga verður bryddað upp á ýmsum viðburðum hér í skólanum sem hvetja okkur til meiri hreyfingar í daglegu lífi. Kolbrún Fjóla íþróttakennari hefur haldið utan um dagskrána og nánari upplýsingar má finna hér: Beactive 2024

20 sep 2024

Frakklandsferð

Í gær héldu 12 nemendur úr MÍ út til Frakklands að heimsækja franskan vinaskóla MÍ sem heitir Lycée Sainte Marie du Port og er í strandbænum Les Sables d´Olonne á vesturströnd Frakklands. Með í för eru þær Nadja Widell frönskukennari og Hildur Halldórsdóttir alþjóðafulltrúi sem skiptir svo við Svavar Þór Guðmundsson í næstu viku.
Nemendur franska skólans komu til Ísafjarðar í apríl sl. og nú er verið að endurgjalda þá heimsókn. Nemendaskipti sem þessi hafa verið fastur liður í skólastarfi MÍ síðan 2004 og ávallt mikið tilhlökkunarefni enda bæði þroskandi og lærdómsríkt að taka þátt í verkefni af þessu tagi. Ferðin er hluti af Erasmus+ verkefnum skólans og er styrkt af Evrópusambandinu. Nemendur MÍ munu dvelja alls 10 daga í Frakklandi, um viku í Sables þar sem þau gista á frönskum heimilum og svo nokkra daga í París í lok ferðar. Á meðfylgjandi mynd má sjá hópinn ásamt frönsku nemendunum og kennurum þeirra. 

12 sep 2024

Áhugavert málþing

Í dag tóku dagskólanemendur og starfsfólk MÍ þátt í málþingi í Edinborgarhúsinu sem bar yfirskriftina Við öll í MÍ.

Málþingið hófst kl. 9 með stuttu innslagi frá Villa Neto um mikilvægi þess að það þurfi ekki að tala fullkomlega til að skiljast eða eins og hann sagði beint – þeir skilja sem vilja! Síðan stýrðu þær Jovana Pavlovic og Sema Erla Serdaroglu fræðslu og vinnustofum um fordóma, ólíka menningu, steríótýpur og fjölmenningarsamfélag.  Áhugaverðar umræður sköpuðust í vinnustofunum um fordóma, inngildingu og fjölmenningu svo fátt eitt sé nefnt.

Alls voru þátttakendur á námskeiðinu hátt í 250. Vel fór um þennan stóra hóp í Edinborgarhúsinu og í hádeginu var öllum hópnum síðan boðið í hamborgaraveislu á Edinborg Bistro.

Það er von okkar í MÍ að málþingið hafi verið öllum þátttakendum til gagns. Málefnin sem til umfjöllunar voru eru flókin en mikilvæg og nauðsynlegt fyrir okkur öll að halda umræðunni áfram. Munum að við í MÍ erum allskonar og við fögnum fjölbreytileikanum!

Málþingið hlaut styrk frá Þróunarsjóði innflytjendamála.

 

11 sep 2024

Íþrótta- og leikjadagur

Nemendafélag MÍ stóð fyrir íþrótta- og leikjadegi í dag þar sem ýmislegt skemmtilegt var brallað í stað þess að mæta í hefðbundnar kennslustundir. Dagurinn byrjaði á furðufataskemmtiskokki í blíðuveðri þar sem meðal hlaupara voru ýmsar undarlega klæddar verur eins og meðfylgjandi myndir sýna. Fleira skemmtilegt var boðið upp á eins og bandí, boccia, skák, snúsnú, spil, karíókí og borðtennis. Var ekki annað að sjá en að nemendur og starfsfólk skemmtu sér vel. 

10 sep 2024

Við öll í MÍ - Málþing í Edinborgarhúsinu

Fimmtudaginn 12. september frá kl. 9-15 stendur Menntaskólinn á Ísafirði fyrir málþingi og vinnustofum í Edinborgarhúsinu á Ísafirði undir yfirskriftinni Við öll í MÍ. Þar munu Jovana Pavlovic og Sema Erla Serdaroglu stýra fræðslu og vinnustofum um fordóma, ólíka menningu, steríótýpur og fjölmenningarsamfélag. 

Jovana Pavlovic er mannfræðingur, og markaðs- og verkefnastjóri og fjölmenningafulltrúi hjá Símenntun Vesturlands og Sema Erla Serdaroglu er aðjúnkt við HÍ í tómstunda- og félagsmálafræði. Í rannsóknum sínum hefur Sema Erla einblínt á kynþátta- og menningarfordóma, einelti og ungt fólk og ofbeldisfulla öfgahyggju. 

Málþingið og vinnustofurnar eru fyrir alla dagskólanemendur í MÍ og starfsfólk, hátt í 250 manns. 25% dagskólanemenda í skólanum hafa annað móðurmál en íslensku og alls eru töluð hátt í 20 ólík tungumál í skólanum. Inngilding er áhersluatriði  í skólastarfinu alla daga og mikill vilji til þess að gera henni enn hærra undir höfði. Hugmyndin á bak við þennan dag kviknaði síðasta vetur og fékkst styrkur frá Þróunarsjóði innflytjendamála fyrir verkefninu. 

Í tengslum við málþingið verður fræðslufundur fyrir foreldra/forsjáraðila og starfsfólk MÍ miðvikudaginn 11. september kl. 20 í fyrirlestrarsal skólans og verður sá fundur einnig í boði í beinu streymi.

 

 

 

 

10 sep 2024

Stöðupróf í albönsku, arabísku og víetnömsku

Stöðupróf í albönsku, arabísku og víetnömsku verða haldin í Kvennaskólanum í Reykjavík föstudaginn 8. nóvember kl. 14:30.

Prófin verða í húsnæði Kvennaskólans að Fríkirkjuvegi 1. 

Mest geta nemendur fengið 20 einingar metnar, 15 einingar á 1. þrepi og 5 einingar á 2. þrepi.

Skráning fer fram á heimasíðu skólans og þarf að skráningu að vera lokið í síðasta lagi mánudaginn 4. nóvember. Prófgjald er kr. 20.000 sem greiðist með því að leggja það inn á reikning: 0513-26-14040, kt. 650276-0359. Nauðsynlegt er að nafn og kennitala próftaka komi fram á innlegginu. Vinsamlegast sendið afrit af kvittuninni á gudnyrun@kvenno.is.

Réttur til próftöku byggist á að prófgjald hafi verið greitt og auk þess verða próftakar að framvísa persónuskilríkjum með mynd þegar komið er í prófið. Athugið að í stöðuprófi er gert ráð fyrir sérstakri færni í tungumálinu t.d. ef um er að ræða annað móðurmál viðkomandi eða búsetu erlendis.

Skráningarhlekkur: https://forms.office.com/e/etF6gyyiar

Nánari upplýsingar veitir Björk áfangastjóri (bjorkth@kvenno.is)

 

Stöðupróf í albönsku, arabísku og víetnömsku | Kvennaskólinn í Reykjavík (kvenno.is)

9 sep 2024

Guli dagurinn

Gulur september er samvinnuverkefni stofnana og félagasamtaka sem vinna saman að geðheilbrigði og sjálfsvígsforvörnum. Markmið verkefnisins er að auka meðvitund fólks um mikilvægi geðræktar og sjálfsvígsforvarna. Á morgun, 10. september, er svo Guli dagurinn og þá klæðumst við gulu til merkis um kærleika, aðgát og umhyggju en 10. september er alþjóðlegur forvarnardagur sjálfsvíga. 

Að gulum september standa fulltrúar frá: Embætti landlæknis, Geðhjálp, Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, Landspítala, Minningarsjóði Orra Ómarssonar, Píeta samtökunum, Rauða krossinum, SÁÁ, Sorgarmiðstöð, Þjóðkirkjunni og Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu. Nánari upplýsingar um gulan september má finna á heimasíðu geðhjálpar: https://gedhjalp.is/gulur-september/