7 mar 2025

Gleði á gróskudögum 2025

Gróskudagar eru alltaf kærkomnir og nemendur ánægðir að fá þetta uppbrot á hefðbundnu skólastarfi sem stendyr yfir í tvö daga. Um 30 fjölbreyttar smiðjur voru á dagskrá og voru þær staðsettar bæði í skólanum og víðar í bænum, innanhúss sem utan. Í boði var útvist og útíþróttir, borðspil og púsl, matreiðsla og bakstur, ýmsar inniíþróttir og hreyfing auk föndurs og hannyrða svo nokkur dæmi séu nefnd. Einnig voru saumaðir búningunar og búin til leikmynd fyrir Grease, leiksýningu NMÍ, sem verður frumsýnd 22 mars. Nemendur máttu velja sér samtals sex smiðjur, þrjár hvorn dag. Eins og meðfylgjandi myndir sýna var mikil gleði og gaman, bæði hjá nemendum og starfsfólki.

Viljum þakka nemendum okkar fyrir mjög góða og skemmtilega gróskudaga.

3 mar 2025

Sólrisuvika og gróskudagar

Sólrisuvikan var sett með skrúðgöngu síðastliðinn föstudag 28. febrúar. Að fagna komu sólarinnar með þessum hætti hefur verið fastur liður í skólahaldi MÍ síðan árið 1974.

Þessa viku verður boðið upp á fjölbreytta viðburði í frímínútum, hádegi og á kvöldin og hefur sólrisunefnd nemendafélagsins veg og vanda af dagskránni. Gróskudagar eru einnig órjúfanlegur hluti af sólrisuvikunni en þá er kennsla með óhefðbundni sniði í tvo daga. Nemendur velja sér smiðjur í stað hefðbundinna kennslustunda og eru smiðjurnar alls um 30 talsins. Úrvalið er fjölbreytt og má nefna borðspil, pitsugerð, jóga, brandarahorn, kleinubakstur, bogfimi, klifurvegg, sjósund og útihlaup.

Við vonum að sem flest geti notið þess sem Sólrisuvikan hefur upp á bjóða.

28 feb 2025

Ástráður með kynfræðslu í MÍ

Í gær var haldinn fræðslufyrirlestur fyrir alla nýnema MÍ. Karólína Mist Stefánsdóttir, fyrrverandi nemandi MÍ og Sara Antonía Magneudóttir Wittebrood sem eru báðar nemar á 2. ári í læknisfræði við Háskóla Íslands sinntu fræðslunni fyrir hönd Ástráðs, kynfræðslufélags læknanema. 

Undanfarin ár hefur félagið heimsótt framhaldsskóla landsins og haldið fræðslu fyrir nemendur á 1. ári. Markmið félagsins er að fræða ungmenni landsins um kynlíf, kynheilbrigði og samskipti. Um er að ræða heildstæðan fyrirlestur ásamt hópefli og almennri fræðslu. Helstu atriði sem farið var yfir í fræðslunni voru m.a. gagnsemi góðra og opinna samskipta í kynlífi, getnaðarvarnir og gagnsemi þeirra og kynsjúkdómar, einkenni og viðbrögð.

Í gegnum tíðina hafa ungmenni óskað eftir meiri kynfræðslu og fræðslu um samskipti kynjanna, hvað er við hæfi og hvað ekki og allt þar á milli. Er þetta liður í því að bregðast við því ákalli.

Heimasíða Ástráðs

27 feb 2025

Þingmenn Samfylkingar heimsækja MÍ

Í dag komu þrír þingmenn Samfylkingar í heimsókn í skólann, þau Arna Lára Jónsdóttir, þingmaður Norðvesturkjördæmis, sem er „gamall“ MÍ-ingur, Dagur B. Eggertsson og Ragna Sigurðardóttir. Gengið var um skólann þar sem þau fengu m.a. að kynna sér aðstöðu lista- og nýsköpunargreina og verknáms auk þess að eiga stutt spjall við nemendur. Heimsóknin endaði með fundi með fulltrúum úr atvinnuífinu á svæðinu sem skipa samstarfsráð MÍ og atvinnulífsins á norðanverðum Vestfjörðum. Rædd var staðan í ýmsum iðngreinum, en vöntun er á faglærðum iðnaðarmönnum. Var það sett í samhengi við stöðu verknáms í MÍ, ekki síst með tilliti til nauðsynjar á bættri aðstöðu til verknáms. Fyrir tæpu ári undirrituðu mennta- og barnamálaráðuneyti og sveitarfélög á Vestfjörðum viljayfirlýsingu um byggingu nýss verknámshúss.

19 feb 2025

Vetrarfrí

Vetrarfrí er í skólanum 20. - 24. febrúar og því engin kennsla.
Hlökkum til að fá ykkur öll endurnærð í skólann þriðjudaginn 25. febrúar.

19 feb 2025

Rafall, örtölva og heimavirkjun

Kennsla hefur verið fjölbreytt og ýmislegt um að vera hjá rafmagns- og vélstjórnarnemendum undanfarna daga. Sigurður Óskarsson sem kennir rafiðngreinar við skólann hefur m.a. leyft þeim að spreyta sér á að vinna með tölvu- og nettækni með því að leggja lítið netkerfi sem tengist örtölvu í kennslustofunni þeirra. Þeir hafa einnig lært á rafal (alternator) til að fræðast um það hvernig rafmagn er framleitt með hjálp rafsegulsviðs og segulmögnunar. Þá var farið í vettvangsferð að Kirkjubóli í Korpudal í Önundarfirði þar sem nemendur fengu innsyní það hvernig lítil heimavirkjun er tengd við heimahúsið á bænum og sér heimilinu fyrir rafmagni. 

18 feb 2025

MÍ með kynningar í grunnskólum

Erna Sigrún námsráðgjafi MÍ hefur undanfarna daga verið á ferðinni í grunnskólunum á norðanverðum Vestfjörðum að kynna MÍ fyrir nemendum í 10.bekk. Tveir nemendur MÍ, þau Sæunn Liv og Sverrir Bjarki hafa verið með í för og aðstoðað Ernu. 10.bekkingar fengu að fræðast um þær námsbrautir sem eru í boði hjá okkur, hvað felst í leiðsagnarnámi, hvernig áfangakerfið virkar, hvaða þjónusta er i boði hjá námsráðsráðgjafa og ýmislegt fleira. Að sjálfsögðu var einnig sagt frá félagsstarfi nemenda og aðstöðunni í skólanum, s.s. mötuneyti og heimavist.

Þann 28.mars n.k. verður opið hús í MÍ og við hlökkum til að fá 10.bekkinga í heimsókn til okkar og sýna þeim skólann.

13 feb 2025

MÍ í 2. sæti meðalstórra stofnana í Stofnun ársins 2024

Menntaskólinn á Ísafirði hlaut í dag viðurkenningu í þriðja sinn í könnun Sameykis um Stofnun ársins. Skólinn varð þá annað árið í röð í öðru sæti í flokki meðalstórra stofnana (40-89 starfsmenn) árið 2024. Skólinn hlýtur þar með sæmdarheitið fyrirmyndarstofnun. Skólinn hefur nú hlotið viðurkenningu í Stofnun ársins í þrjú ár í röð. Árið 2022 var skólinn hástökkvari ársins og var þá sú ríkisstofnun sem bætti starfskjör starfsmanna best það árið og 2023 var skólinn í öðru sæti í flokki meðalstórra stofnana eins og nú.

Skólinn hækkaði í heildareinkunn frá því í fyrra og fékk hæstu einkunn allra meðal- og stórra ríkisstofnana hvað varðar stjórnun. „Við í MÍ erum stolt af viðurkenningunni og árangrinum. Við erum í sama sæti og í fyrra en bætum árangurinn því við hækkum í heildareinkunn milli ára. Við erum þakklát fyrir okkar frábæra starfsfólk og það góða starf sem það leggur af mörkum.  Nú er bara að halda áfram að byggja upp gott vinnuumhverfi innan skólans með fagmennsku og samvinnu að leiðarljósi. Efst í mínum huga er þakklæti til starfsfólks skólans fyrir þeirra góða framlag. Saman gerum við góðan skóla enn betri“ segir Heiðrún Tryggvadóttir skólameistari.

Stofnun ársins er samstarfsverkefni Sameykis, fjármála- og efnahagsráðuneytisins og Reykjavíkurborgar. Á hverju ári tekur allt starfsfólk skólans, óháð félagsaðild, þátt í könnuninni. Mælingin nær yfir níu ólíka þætti og þannig fæst heilsteypt mynd af innra starfsumhverfi stofnana. Tilgangur með vali á stofnun ársins er að taka eftir og verðlauna vinnustaði sem ná framúrskarandi árangri í mannauðsstjórnun. Þá nýtist könnunin stjórnendum til að vinna að umbótum í stjórnun og starfsumhverfi og á að efla starfsumhverfi félagsfólks og starfsfólks í almannaþjónustu. Niðurstöður könnunarinnar veita afar mikilvægar upplýsingar um starfsumhverfi vinnustaða og samanburð við aðrar stofnanir.

Hér má sjá niðurstöður allra stofnana sem tóku þátt í könnuninni.

7 feb 2025

Jöfnunarstyrkur - umsóknarfrestur til 15. febrúar

Viljum vekja athygli á að umsóknarfrestur um jöfnunarstyrk vegna vorannar 2025 er til 15.febrúar næstkomandi. Jöfnunarstyrkur er námsstyrkur fyrir nemendur sem búa og stunda nám fjarri lögheimili og fjölskyldu sinni. Jöfnunarstyrkur skiptist í dvalarstyrk og akstursstyrk:

  • Akstursstyrkur er ætlaður þeim nemendum sem keyra daglega í skólann frá lögheimili sínu. Lögheimili má þó ekki vera í nágrenni skóla, sjá töflu um skilgreiningar á nágrenni skóla hér fyrir ofan. Akstursstyrkur er einnig fyrir þá nemendur sem búa ekki í foreldrahúsum en geta ekki sýnt fram á leigugreiðslur.
  • Dvalarstyrkur er fyrir þá nemendur sem flytja a.m.k. 30km frá lögheimili sínu og fjölskyldu til þess að geta stundað nám sitt, það er, þeir nemendur sem eru á heimavist og/eða greiða leigu.

Fyrir frekari upplýsingar og rafrænt umsóknareyðublað sjá www.menntasjodur.is Einungis er hægt að sækja um jöfnunarstyrkinn með rafrænum skilríkjum. Fyrir frekari upplýsingum er hægt að senda fyrirspurn á menntasjodur@menntasjodur.is.

5 feb 2025

Skólahald samkvæmt stundaskrá eftir hádegi 5.febrúar

Samkvæmt nýjustu veðurspá mun veðrið versna um kl.15 ídag 5. febrúar og verður skólahald því samkvæmt stundatöflu eftir hádegi. Bendum n​​​emendum sem eiga heima í bæjarkjörnum utan Ísafjarðar og geta þurft að fara fyrr heim á að tilkynna forföll til skólafulltrúa.