28 ágú 2024

Stúdent úr MÍ hlýtur styrk til háskólanáms

Lilja Jóna Júlíusdóttir hlaut á dögunum styrk úr afreks- og hvatningarsjóði stúdenta Háskóla Íslands. Lilja Jóna lauk námi af náttúruvísindabraut Menntaskólans á Ísafirði í vor og hlaut þá verðlaun Kerecis fyrir góðan námsárangur í líffræðigreinum. Samhliða námi lagði hún stund á píanónám og vann með skóla. Hún lagði mikla áherslu á náttúru- og raunvísindi í sínu námi við MÍ og hefur nú innritast í lífeindafræði í HÍ.

Lilja Jóna veitti styrknum viðtöku við hátíðlega athöfn í aðalbyggingu HÍ ásamt 30 öðrum nýnemum sem hlutu styrk að þessu sinni. Alls bárust 76 umsóknir en við úthlutun styrkja úr sjóðnum er auk námsárangurs á stúdentsprófi litið á frammistöðu á öðrum sviðum, svo sem í félagsstörfum í framhaldsskóla eða listum og íþróttum. Sjóðurinn styrkir einnig nemendur sem hafa sýnt fádæma seiglu og þrautseigju og hafa, þrátt fyrir afar erfiðar aðstæður, staðið sig afar vel í námi. 

Við óskum Lilju Jónu innilega til hamingju með styrkinn og óskum henni góðs gengis á nýjum slóðum. 

20 ágú 2024

Skólasetning

Menntaskólinn á Ísafirði var settur í dag í 55. sinn. Alls munu 215 nemendur stunda nám í dagskóla á haustönn og er það töluverð fjölgun frá síðasta skólaári eða um 20%. Leita þarf aftur til ársins 2014 til að finna sambærilegan nemendafjölda en þá var kennt eftir fjögurra ára kerfi til stúdentsprófs og því fleiri árgangar í skólanum en nú. Nemendur í fjarnámi og lotubundnu dreifnámi verða samtals 317 og heildarfjöldi nemenda við skólann 532. Aðsókn á heimavist hefur einnig aukist og verða öll herbergi hennar nýtt af nemendum MÍ í vetur. Við hlökkum til að starfa með þessum fjölmenna hópi nemenda í vetur.

19 ágú 2024

Nýnemadagur

Í dag er nýnemadagur í MÍ og 71 nýnemi að hefja nám við skólann. Á nýnemadeginum eru allir nýjir nemendur boðnir velkomnir í MÍ en auk nýnema eru 15 nýjir eldri nemendur og 3 skiptinemar. Á nýnemadeginum er f arið yfir það helsta sem varðar skólastarfið, stjórn nemendafélagsins sér um hópefli og boðið er upp á hádegismat í mötuneytinu.

Við í MÍ tökum fagnandi á móti þessum stóra hóp og hlökkum til að kynnast þeim.

9 ágú 2024

Upphaf haustannar

Nú styttist í upphaf haustannar. Skrifstofa skólans opnaði eftir sumarfrí 6. ágúst sl. og starfsdagar verða 15. og 16. ágúst. Nýnemar mæta í skólann 19. ágúst en kennsla hefst svo þriðjudaginn 20. ágúst að lokinni skólasetningu. Helstu upplýsingar varðandi skólabyrjun fylgja hér: 

 

16. ágúst kl. 08:00: Opnað fyrir stundatöflu og bókalista í INNU

Stundatöflur verða aðgengilegar í INNU föstudaginn 16. ágúst og þá verður einnig hægt að óska eftir töflubreytingum. Töflubreytingum lýkur 23. ágúst. Töflubreytingar eru rafrænar og fara fram í INNU. Hægt er að óska eftir aðstoð við töflubreytingar hjá aðstoðarskólameistara, áfangastjóra og námsráðgjafa og er hægt að panta tíma hjá þeim hér.

 

18. ágúst: Heimavist opnar

Heimavistin opnar fyrir íbúa heimavistar. Vistarstjórar taka á móti íbúum, sími vistarstjóra er 842 2440.

 

19. ágúst kl. 10:00: Nýnemadagur

Mánudaginn 19. ágúst frá kl. 10:00-14:00 er nýnemadagurinn sem er skóladagur eingöngu fyrir nýnema. Mæting í fyrirlestrasal, stofu 14. Gengið er inn um anddyri skólans á neðri hæð bóknámshússins og þar mun starfsfólk skólans taka á móti þér. Þau sem eiga tölvu eru beðin um að taka hana með sér. Öllum nýnemum verður boðið í mat í mötuneytinu í hádeginu.

 

19. ágúst kl. 15:00: Kynning fyrir nýja nemendur (nemendur fæddir 2007 og fyrr)

Kynningarfundur fyrir nýja nemendur.  Mæting í fyrirlestrasal, stofu 14. Gengið er inn um anddyri skólans á neðri hæð bóknámshússins og þar mun starfsfólk skólans taka á móti þér. Þau sem eiga tölvu eru beðin um að taka hana með sér.

 

20. ágúst kl. 09:00: Skólasetning

Skólasetning verður í Gryfjunni (gengið inn um anddyri skólans á neðri hæð bóknámshússins). Kennsla hefst skv. stundaskrá að skólasetningu lokinni.

 

26. ágúst kl. 17:30: Fundur með forsjáraðilum

Fundur um námsskipulag og starfshætti MÍ fyrir forsjáraðila. Fundurinn verður í fyrirlestrasal skólans, stofu 14. Gengið er inn um anddyri skólans á neðri hæð bóknámshússins og þar mun starfsfólk skólans taka á móti forsjáraðilum. Fundurinn verður líka á Teams fyrir þá sem búa ekki nálægt skólanum. Eftir fundinn verður forsjáraðilum boðið upp á súpu í mötuneyti skólans.

 

 

24 jún 2024

Lokun skrifstofu vegna sumarleyfa

Skrifstofa skólans verður lokuð vegna sumarleyfa frá 24. júní og opnar aftur þriðjudaginn 6. ágúst. Erindum sem þola ekki bið má vísa til skólameistara, Heiðrúnar Tryggvadóttur, í síma 8498815 eða heidrun@misa.is

24 jún 2024

Innritun nýnema lokið

Í dag lauk Menntamálastofnun við að innrita nýnema í framhaldsskóla. Alls voru 69 nýnemar innritaðir í MÍ og hafa nýnemar ekki verið svo margir síðan haustið 2014. Dagskólanemendum í heild mun fjölga um 17% og fara úr 180 í 216. Nýnemar skiptast eftir brautum þannig:

Félagsvísindabraut 4
Húsasmíði 4
Grunnnám málm- og véltæknigreina 19
Starfsbraut 4
Lista- og nýsköpunarbraut  4
Náttúruvísindabraut 10
Opin stúdentsbraut 24

 

Innritaðir nemendur eiga von á innritunarbréfi frá skólanum í pósti. Við bjóðum nýnema haustsins 2024 velkomna í MÍ og hlökkum til samstarfsins með þeim.

Innritun í fjarnám stendur enn yfir og sömuleiðis eru laus pláss á nokkrum brautum í dagskóla s.s. í húsasmíði og vélstjórn A. Hægt er að hafa samband í gegnum netfangið fjarnam@misa.is þegar skrifstofa skólans opnar að nýju eftir verslunarmannahelgi til að innrita sig í skólann.

10 jún 2024

Skráning í fjarnám til 16. ágúst

Nú stendur yfir skráning í fjarnám á haustönn. Skráningunni lýkur þann 16. ágúst n.k. HÉR má sjá hvaða áfangar eru í boði og HÉR má finna allar helstu upplýsingar um fjarnámið.

Frekari upplýsingar um fjarnámið gefur Martha Kristín Pálmadóttir áfangastjóri, martha@misa.is 

3 jún 2024

Laus pláss í húsasmíði

Menntaskólinn á Ísafirði auglýsir laus pláss í húsasmíðanám í dagskóla haustið 2024. Upplýsingar um námsbrautina má finna á heimasíðu skólans, https://misa.is/namid/husasmidi/

Nýnemar sækja um nám rafrænt hér til 7. júní: https://innritun.is/

Eldri nemendur sækja um með því að senda tölvupóst á Mörthu Kristínu Pálmadóttur áfanga- og fjarnámsstjóra á netfangið martha@misa.is

 

31 maí 2024

Heimsókn frá Húsavík

Starfsfólk framhaldskólans á Húsavík heimsótti MÍ á starfsdögum í vikunni. Áttum við góðan dag saman með faglegri dagskrá fyrir hádegi þar sem til umfjöllunar voru ýmsar sameiginlegar áskoranir í skólastarfinu s.s. gervigreind, fjarnám og námsmenning. Eftir hádegi var svo haldið í sögugöngu um Ísafjörð undir leiðsögn Andreu Harðardóttur og að henni lokinni tók við skemmtidagskrá með hattaþema eins sjá má á meðfylgjandi myndum. Dagurinn endaði svo á sameiginlegum kvöldverð í Arnardal. Við þökkum Húsvíkingum kærlega fyrir samveruna og hlökkum til að heimsækja þau við tækifæri. 

25 maí 2024

Brautskráning á vorönn 2024

Laugardaginn 25. maí var 61 nemandi brautskráður frá skólanum við hátíðlega athöfn í Ísafjarðarkirkju. Útskriftarnemar, starfsfólk skólans, afmælisárgangar og aðrir gestir voru viðstödd athöfnina og sá Viðburðarstofa Vestfjarða um að streyma henni beint. Í tilefni þess að 50 ár eru liðin frá fyrstu útskrift skólans var fyrrum starfsfólki og nemendum skólans einnig boðið að fagna tímamótunum í dag og var því óvenjulega fjölmennt við athöfnina. Hefð er fyrir útskriftarfagnaði að kvöldi brautskráningardags með útskriftarnemum, fjölskyldum þeirra og afmælisárgöngum. 

Af útskriftarnemum voru 38 dagskólanemendur, 15 dreifnámsnemendur og 8 nemendur í fjarnámi sem með Menntaskólann á Ísafirði sem heimaskóla.

Sjö nemendur útskrifuðust af matartæknibraut, þrír nemendur útskrifuðust af sjúkraliðabraut og tveir nemendur af lista- og nýsköpunarbraut. Níu nemendur útskrifuðust af vélstjórnarbraut A, þrír nemendur útskrifuðust  úr stálsmíði, einn nemandi af skipsstjórnarbraut A og tveir nemendur af skipsstjórnarbraut B. Einn nemandi útskrifaðist af húsasmíðabraut og einn nemandi úr iðnmeistaranámi.

36 nemendur útskrifuðust með stúdentspróf. Þrír af félagsvísindabraut, 11 af náttúruvísindabraut og þar af fjórir með íþróttasvið. 17 nemendur útskrifuðust af opinni stúdentsbraut, þar af einn með íþróttasvið. Tveir nemendur luku námi af starfsbraut og þrír nemendur luku stúdentsprófi af fagbraut. Auk þess útskrifuðust 16 nemendur úr grunnnámi málm- og véltæknigreina.

Dux scholae 2024 er Guðrún Dagbjört Sigurðardóttir stúdent af opinni stúdentsbraut með meðaleinkunnina 9,44. Semidux er Katrín Bára Albertsdóttir stúdent af náttúruvísindabraut með meðaleinkunnina 9,41. 

Fjölmörg verðlaun voru afhent fyrir góðan námsárangur og að vanda setti tónlistarflutningur hátíðlegan svip á athöfnina. Í tilefni 50 ára útskriftarafmælis var lagið Gott að sjá þig eftir Halldór Smárason flutt af sönghóp fyrrum nemenda, starfsfólks og fulltrúum útskriftarnema ásamt Halldóri sjálfum sem lék undir. Lagið var gefið skólanum við útskrift árið 2019 af þáverandi 10 ár afmælisárgangi og á einkar vel við á tímamótum sem þessum.

Við óskum öllum útskriftarnemum innilega til hamingju með áfangann og óskum þeim gæfu og gengis í framtíðinni.