17 mar 2025

Val fyrir haustönn

Í dag 17. mars hefst valtímabil fyrir haustönn 2025 og stendur það yfir til 21. mars.

Nemendur sem ætla að vera áfram í námi í MÍ þurfa að velja sér áfanga. Þetta á við um dagskólanemendur og fjarnemendur sem eru með MÍ sem heimaskóla. Opnað verður fyrir umsóknir í almennt fjarnám 22. apríl og verður auglýst nánar síðar.
Hægt er að fá aðstoð hjá aðstoðarskólameistara, áfanga- og fjarnámsstjóra, náms- og starfsráðgjafa og skólameistara við valið. Hægt er að panta tíma hjá þeim á skrifstofu skólans eða með því að bóka tíma hér.

Nemendur sem stefna á útskrift á haustönn þurfa að panta tíma hjá áfanga- og fjarnámsstjóra eða náms- og starfsráðgjafa til að fara yfir valið.

Hér eru allar upplýsingar um hvernig valið fer fram eftir brautum.

Hér er yfirlit yfir alla áfanga sem eru í boði á haustönn 2025.

14 mar 2025

Grease - miðasala opnar í dag kl.12

Sólrisuleikrit Menntaskólans á Ísafirði er ein af þessum gömlu og góðu hefðum skólans. Í ár varð hinn vinsæli söngleikur Grease fyrir valinu hjá leikfélaginu. Öll sem koma að leiksýningunni hafa lagt hart að sér síðustu vikurnar og eru þau mjög spennt að sýna bæjarbúum afraksturinn.

Frumsýning verður 22.mars kl. 20:00 og er sýnt í Edinborgarhúsinu á Ísafirði. Leikstjóri er Birgitta Birgisdóttir. 

Miðasala hefst í dag föstudaginn 14.mars klukkan 12:00 og fer fram á tix.is 

Sjá einnig viðburð á Facebook.

11 mar 2025

Heimsókn í slökkvistöðina

Nemendur á starfsbraut fara reglulega í starfskynningar á svæðinu og var slökkvistöðin á Ísafirði nýlega heimsótt. Þar tóku Sigurður A. Jónsson slökkviliðsstjóri og Sveinn Þorbjörnsson vel á móti og sögðu nemendum frá því hvernig er að starfa sem slökkviliðsmaður. Nemendur fengu einnig kennslu í að slökkva eld.

10 mar 2025

Háskólinn á Bifröst með kynningu 14. mars

Föstudaginn 14.mars verður Háskólinn á Bifröst með kynningu á námsframboði sínu í MÍ. Kynningin verður í gryfjunni kl.12:40 - 13:10. Margrét Jónsdóttir Njarðvík rektor og Guðrún Rannveig Stefánsdóttir umsjónarmaður háskólagáttar háskólans á Bifröst verða á staðnum til að spjalla við nemendur um allt sem viðkemur háskólanum og náminu.

Bifröst er fjarnáms háskóli og er námsferill nemenda að mestu undir þeim kominn. Fjarnám hentar t.d. þeim vel sem eiga ekki kost á að sækja staðarnám eða vilja stunda nám samhliða starfi.

10 mar 2025

Eldað á frönsku

Nemendur í frönsku hafa verið að vinna verkefni La cuisine française en français, eða franska eldhúsið á frönsku, þar sem þau læra um franska matargerð, m.a. með því að elda saman. Á dögunum kom hópurinn saman í heimilisfræðistofu Grunnskólans í Bolungarvík til að elda á franska vísu og að sjálfsögðu var fenginn franskur leiðbeinandi. Soazic Dagal kenndi nemendum að elda mimósuegg, fyllta tómata og franska súkkulaðiköku. Ekki er að sjá annað en að nemendur hafi notið þess að elda og borða saman.

7 mar 2025

Gleði á gróskudögum 2025

Gróskudagar eru alltaf kærkomnir og nemendur ánægðir að fá þetta uppbrot á hefðbundnu skólastarfi sem stendyr yfir í tvö daga. Um 30 fjölbreyttar smiðjur voru á dagskrá og voru þær staðsettar bæði í skólanum og víðar í bænum, innanhúss sem utan. Í boði var útvist og útíþróttir, borðspil og púsl, matreiðsla og bakstur, ýmsar inniíþróttir og hreyfing auk föndurs og hannyrða svo nokkur dæmi séu nefnd. Einnig voru saumaðir búningunar og búin til leikmynd fyrir Grease, leiksýningu NMÍ, sem verður frumsýnd 22 mars. Nemendur máttu velja sér samtals sex smiðjur, þrjár hvorn dag. Eins og meðfylgjandi myndir sýna var mikil gleði og gaman, bæði hjá nemendum og starfsfólki.

Viljum þakka nemendum okkar fyrir mjög góða og skemmtilega gróskudaga.

3 mar 2025

Sólrisuvika og gróskudagar

Sólrisuvikan var sett með skrúðgöngu síðastliðinn föstudag 28. febrúar. Að fagna komu sólarinnar með þessum hætti hefur verið fastur liður í skólahaldi MÍ síðan árið 1974.

Þessa viku verður boðið upp á fjölbreytta viðburði í frímínútum, hádegi og á kvöldin og hefur sólrisunefnd nemendafélagsins veg og vanda af dagskránni. Gróskudagar eru einnig órjúfanlegur hluti af sólrisuvikunni en þá er kennsla með óhefðbundni sniði í tvo daga. Nemendur velja sér smiðjur í stað hefðbundinna kennslustunda og eru smiðjurnar alls um 30 talsins. Úrvalið er fjölbreytt og má nefna borðspil, pitsugerð, jóga, brandarahorn, kleinubakstur, bogfimi, klifurvegg, sjósund og útihlaup.

Við vonum að sem flest geti notið þess sem Sólrisuvikan hefur upp á bjóða.

28 feb 2025

Ástráður með kynfræðslu í MÍ

Í gær var haldinn fræðslufyrirlestur fyrir alla nýnema MÍ. Karólína Mist Stefánsdóttir, fyrrverandi nemandi MÍ og Sara Antonía Magneudóttir Wittebrood sem eru báðar nemar á 2. ári í læknisfræði við Háskóla Íslands sinntu fræðslunni fyrir hönd Ástráðs, kynfræðslufélags læknanema. 

Undanfarin ár hefur félagið heimsótt framhaldsskóla landsins og haldið fræðslu fyrir nemendur á 1. ári. Markmið félagsins er að fræða ungmenni landsins um kynlíf, kynheilbrigði og samskipti. Um er að ræða heildstæðan fyrirlestur ásamt hópefli og almennri fræðslu. Helstu atriði sem farið var yfir í fræðslunni voru m.a. gagnsemi góðra og opinna samskipta í kynlífi, getnaðarvarnir og gagnsemi þeirra og kynsjúkdómar, einkenni og viðbrögð.

Í gegnum tíðina hafa ungmenni óskað eftir meiri kynfræðslu og fræðslu um samskipti kynjanna, hvað er við hæfi og hvað ekki og allt þar á milli. Er þetta liður í því að bregðast við því ákalli.

Heimasíða Ástráðs

27 feb 2025

Þingmenn Samfylkingar heimsækja MÍ

Í dag komu þrír þingmenn Samfylkingar í heimsókn í skólann, þau Arna Lára Jónsdóttir, þingmaður Norðvesturkjördæmis, sem er „gamall“ MÍ-ingur, Dagur B. Eggertsson og Ragna Sigurðardóttir. Gengið var um skólann þar sem þau fengu m.a. að kynna sér aðstöðu lista- og nýsköpunargreina og verknáms auk þess að eiga stutt spjall við nemendur. Heimsóknin endaði með fundi með fulltrúum úr atvinnuífinu á svæðinu sem skipa samstarfsráð MÍ og atvinnulífsins á norðanverðum Vestfjörðum. Rædd var staðan í ýmsum iðngreinum, en vöntun er á faglærðum iðnaðarmönnum. Var það sett í samhengi við stöðu verknáms í MÍ, ekki síst með tilliti til nauðsynjar á bættri aðstöðu til verknáms. Fyrir tæpu ári undirrituðu mennta- og barnamálaráðuneyti og sveitarfélög á Vestfjörðum viljayfirlýsingu um byggingu nýss verknámshúss.

19 feb 2025

Vetrarfrí

Vetrarfrí er í skólanum 20. - 24. febrúar og því engin kennsla.
Hlökkum til að fá ykkur öll endurnærð í skólann þriðjudaginn 25. febrúar.