Í gær var haldinn fræðslufyrirlestur fyrir alla nýnema MÍ. Karólína Mist Stefánsdóttir, fyrrverandi nemandi MÍ og Sara Antonía Magneudóttir Wittebrood sem eru báðar nemar á 2. ári í læknisfræði við Háskóla Íslands sinntu fræðslunni fyrir hönd Ástráðs, kynfræðslufélags læknanema.
Undanfarin ár hefur félagið heimsótt framhaldsskóla landsins og haldið fræðslu fyrir nemendur á 1. ári. Markmið félagsins er að fræða ungmenni landsins um kynlíf, kynheilbrigði og samskipti. Um er að ræða heildstæðan fyrirlestur ásamt hópefli og almennri fræðslu. Helstu atriði sem farið var yfir í fræðslunni voru m.a. gagnsemi góðra og opinna samskipta í kynlífi, getnaðarvarnir og gagnsemi þeirra og kynsjúkdómar, einkenni og viðbrögð.
Í gegnum tíðina hafa ungmenni óskað eftir meiri kynfræðslu og fræðslu um samskipti kynjanna, hvað er við hæfi og hvað ekki og allt þar á milli. Er þetta liður í því að bregðast við því ákalli.