Leikfélag Menntaskólans á Ísafirði frumsýndi Sólrisuleikrit ársins 2025 síðastliðið föstudagskvöld fyrir fullu húsi í sal Edinborgarhússins. Að þessu sinni varð fyrir valinu rokksöngleikurinn sívinsæli Grease og er leikstjórn í höndum Birgittu Birgisdóttur. Mikil vinna liggur að baki uppsetningunni sem er hin glæsilegasta og hafa um 60 nemendur lagt hönd á plóg við hin ýmsu verkefni tengt sýningunni. Þar á meðal eru leikarar, hljómsveit, sviðsmenn, búningadeild, markaðsnefnd og tæknifólk svo eitthvað sé nefnt. Það er óhætt að mæla með að fólk skelli sér í leikhús og njóti afrakstursins hjá okkar hæfileikaríku nemendum. Alls verða sýndar 10 sýningar og miðasala fer fram á tix.is.
Fréttir
Í gær fengu nemendur sem í áfanga í stjórnmálafræði Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur utanríkisráðherra í heimsókn ásamt Maríu Rut Kristinsdóttur alþingismanni sem er fyrrverandi nemandi MÍ. Svöruðu þær spurningum frá nemendum, en öðrum áhugasömum nemendum var einnig boðið að sækja tímann. Í lok heimsóknarinnar ræddu þær Þorgerður Katrín og María Rut við stjórnendur skólans um stöðuna á byggingu nýss verknámshúss.
Föstudaginn 28. mars verður Háskólakynning í Menntaskólanum á Ísafirði. Þar verða fulltrúar frá Háskóla Íslands, Háskólanum á Hólum, Landbúnaðarháskólanum, Háskólasetri Vestfjarða, Lýðskólanum á Flateyri og AFS að kynna sína starfssemi. Viðburðurinn stendur frá kl. 12:30-14 og er opinn öllum.
Á dögunum leit Elfar Logi Hannesson leikhússtjóri Kómedíuleikhússins við til að að ræða hugmyndir um samstarf við MÍ. Samstarfið felst í því að nemendur í ákveðnum áföngum sæki reglulega leiksýningar Kómedíuleikhússins í Haukadal og verði einnig leitast við að bjóða öllum nemendum skólans upp á leikhúsupplifun í húsnæði skólans a.m.k. einu sinni á ári.
Kómedíuleikhúsið er eina atvinnuleikhúsið á Vestfjörðum. Frá stofnun leikhússins árið 1997 hefur verður settur á svið fjöldi leikverka sem eiga það flest sameiginlegt að tengjast með einum eða öðrum hætti sögu Vestfjarða. Nokkur dæmi eru Gísli Súrsson, Jón Sigurðsson strákur að vestan og Ariasman sem er nýjasta leikverk Kómedíuleikhúss.
MÍ tók ásamt flestum öðrum framhaldsskólum landsins þátt í Mín framtíð sem fram fór í Laugardalshöllinni í Reykjavík 13. – 15.mars. s.l. Verkiðn á veg og vanda af þessari árlegu framhaldsskólakynningu þar sem tilvonandi nemendur og aðrir gestir hafa tækifæri til að kynna sér námsframboð skólanna og hitta nemendur og starfsfólk.
Óhætt er að segja að bás MÍ hafi vakið mikla athygli en níu starfsmenn og 16 nemendur tóku þátt og skiptu með sér vöktum. Námsframboð, félagslíf, heimavist og margt fleira var kynnt með fjölbreyttum hætti. Boðið var upp á MÍ-smákökur og MÍ-drykki, lukkuhjól, gestabók og fleira skemmtilegt. Forseti Íslands, frú Halla Tómasdóttir var meðal gesta og átti hún gott spjall við starfsfólk og nemendur MÍ.
Þá fór einnig fram Íslandsmót iðn- og verkgreina þar sem nemendur keppa í samtals 19 iðngreinum. Þeir fá þannig tækifæri til að takast á við krefjandi og raunveruleg verkefni sem reyna á hæfni, skipulagshæfileika og fagmennsku. Benedikt Þórhallsson húsasmíðanemi keppti fyrir hönd MÍ og var hægt að fylgjast með honum að smíða tröppu. Samnemendur Benedikts tóku þátt í undirbúningi fyrir keppnina og veittu einnig mikilvægan stuðning á meðan keppnin stóð yfir.
Nemendur og starfsfólk eru í stuttu máli mjög ánægð með framlag skólans á Mín framtíð og er stefnt að því að taka aftur þátt að ári.
Í dag 17. mars hefst valtímabil fyrir haustönn 2025 og stendur það yfir til 21. mars.
Nemendur sem ætla að vera áfram í námi í MÍ þurfa að velja sér áfanga. Þetta á við um dagskólanemendur og fjarnemendur sem eru með MÍ sem heimaskóla. Opnað verður fyrir umsóknir í almennt fjarnám 22. apríl og verður auglýst nánar síðar.
Hægt er að fá aðstoð hjá aðstoðarskólameistara, áfanga- og fjarnámsstjóra, náms- og starfsráðgjafa og skólameistara við valið. Hægt er að panta tíma hjá þeim á skrifstofu skólans eða með því að bóka tíma hér.
Nemendur sem stefna á útskrift á haustönn þurfa að panta tíma hjá áfanga- og fjarnámsstjóra eða náms- og starfsráðgjafa til að fara yfir valið.
Hér eru allar upplýsingar um hvernig valið fer fram eftir brautum.
Hér er yfirlit yfir alla áfanga sem eru í boði á haustönn 2025.
Sólrisuleikrit Menntaskólans á Ísafirði er ein af þessum gömlu og góðu hefðum skólans. Í ár varð hinn vinsæli söngleikur Grease fyrir valinu hjá leikfélaginu. Öll sem koma að leiksýningunni hafa lagt hart að sér síðustu vikurnar og eru þau mjög spennt að sýna bæjarbúum afraksturinn.
Frumsýning verður 22.mars kl. 20:00 og er sýnt í Edinborgarhúsinu á Ísafirði. Leikstjóri er Birgitta Birgisdóttir.
Miðasala hefst í dag föstudaginn 14.mars klukkan 12:00 og fer fram á tix.is
Sjá einnig viðburð á Facebook.
Nemendur á starfsbraut fara reglulega í starfskynningar á svæðinu og var slökkvistöðin á Ísafirði nýlega heimsótt. Þar tóku Sigurður A. Jónsson slökkviliðsstjóri og Sveinn Þorbjörnsson vel á móti og sögðu nemendum frá því hvernig er að starfa sem slökkviliðsmaður. Nemendur fengu einnig kennslu í að slökkva eld.
Föstudaginn 14.mars verður Háskólinn á Bifröst með kynningu á námsframboði sínu í MÍ. Kynningin verður í gryfjunni kl.12:40 - 13:10. Margrét Jónsdóttir Njarðvík rektor og Guðrún Rannveig Stefánsdóttir umsjónarmaður háskólagáttar háskólans á Bifröst verða á staðnum til að spjalla við nemendur um allt sem viðkemur háskólanum og náminu.
Bifröst er fjarnáms háskóli og er námsferill nemenda að mestu undir þeim kominn. Fjarnám hentar t.d. þeim vel sem eiga ekki kost á að sækja staðarnám eða vilja stunda nám samhliða starfi.
Nemendur í frönsku hafa verið að vinna verkefni La cuisine française en français, eða franska eldhúsið á frönsku, þar sem þau læra um franska matargerð, m.a. með því að elda saman. Á dögunum kom hópurinn saman í heimilisfræðistofu Grunnskólans í Bolungarvík til að elda á franska vísu og að sjálfsögðu var fenginn franskur leiðbeinandi. Soazic Dagal kenndi nemendum að elda mimósuegg, fyllta tómata og franska súkkulaðiköku. Ekki er að sjá annað en að nemendur hafi notið þess að elda og borða saman.