MÍ í 2. sæti meðalstórra stofnana í Stofnun ársins 2024

13 feb 2025

MÍ í 2. sæti meðalstórra stofnana í Stofnun ársins 2024

Menntaskólinn á Ísafirði hlaut í dag viðurkenningu í þriðja sinn í könnun Sameykis um Stofnun ársins. Skólinn varð þá annað árið í röð í öðru sæti í flokki meðalstórra stofnana (40-89 starfsmenn) árið 2024. Skólinn hlýtur þar með sæmdarheitið fyrirmyndarstofnun. Skólinn hefur nú hlotið viðurkenningu í Stofnun ársins í þrjú ár í röð. Árið 2022 var skólinn hástökkvari ársins og var þá sú ríkisstofnun sem bætti starfskjör starfsmanna best það árið og 2023 var skólinn í öðru sæti í flokki meðalstórra stofnana eins og nú.

Skólinn hækkaði í heildareinkunn frá því í fyrra og fékk hæstu einkunn allra meðal- og stórra ríkisstofnana hvað varðar stjórnun. „Við í MÍ erum stolt af viðurkenningunni og árangrinum. Við erum í sama sæti og í fyrra en bætum árangurinn því við hækkum í heildareinkunn milli ára. Við erum þakklát fyrir okkar frábæra starfsfólk og það góða starf sem það leggur af mörkum.  Nú er bara að halda áfram að byggja upp gott vinnuumhverfi innan skólans með fagmennsku og samvinnu að leiðarljósi. Efst í mínum huga er þakklæti til starfsfólks skólans fyrir þeirra góða framlag. Saman gerum við góðan skóla enn betri“ segir Heiðrún Tryggvadóttir skólameistari.

Stofnun ársins er samstarfsverkefni Sameykis, fjármála- og efnahagsráðuneytisins og Reykjavíkurborgar. Á hverju ári tekur allt starfsfólk skólans, óháð félagsaðild, þátt í könnuninni. Mælingin nær yfir níu ólíka þætti og þannig fæst heilsteypt mynd af innra starfsumhverfi stofnana. Tilgangur með vali á stofnun ársins er að taka eftir og verðlauna vinnustaði sem ná framúrskarandi árangri í mannauðsstjórnun. Þá nýtist könnunin stjórnendum til að vinna að umbótum í stjórnun og starfsumhverfi og á að efla starfsumhverfi félagsfólks og starfsfólks í almannaþjónustu. Niðurstöður könnunarinnar veita afar mikilvægar upplýsingar um starfsumhverfi vinnustaða og samanburð við aðrar stofnanir.

Hér má sjá niðurstöður allra stofnana sem tóku þátt í könnuninni.

Til baka