9 nóv 2023

Báráttudagur gegn einelti

8. nóvember er baráttudagur gegn einelti. Markmið dagsins er m.a. að hvetja til jákvæðra samskipta og efla vináttu. Af þessu tilefni tókum við okkur til og spiluðum saman, nemendur og starfsfólk, og áttum góða samveru eins og meðfylgjandi myndir sýna. 

7 nóv 2023

Hönnun við strandlengjur Ísafjarðarbæjar

Síðastliðinn föstudag komu Arna Lára bæjarstjóri og Axel Rodriguez Överby sviðsstjóri umhverfis- og eignasviðs Ísafjarðarbæjar í heimsókn í áfangann Hönnun í atvinnulífinu. Nemendur kynntu hugmyndir sínar á skipulagi og hönnun við strandlengjuna í Ísafjarðarbæ og voru hugmyndirnar fjölbreyttar og áhugaverðar að sögn gestanna.

Á meðfylgjandi myndum má sjá þau Örnu og Axel spjalla við nemendur og tvær af hugmyndum þeirra. Annars vegar hugmynd að Kaffihúsi á Norðureyri í Súgandafirði þar sem gestir fá að upplifa bátsferð, göngur á Norðureyri og kaffi. Hins vegar er humgynd að stækkun Fjarðarstrætisfjöru til að auka tækifæri bæjarbúa á útiveru við hafið, bryggju a nýja grjótgarðinn til að auka útsýni og hús í fjörunni með strandleikföngum.  

2 nóv 2023

Nám á vorönn

Skráning í nám á vorönn 2024 er hafin.

  

Innritun í fjarnám fer fram á umsóknarvef skólans og stendur yfir til 3. janúar 2024.

Innritun í dagskóla fer fram á menntagátt og stendur yfir til 30. nóvember.

Innritun í dreifnám fer fram á fjarnam@misa.is  

Nánari upplýsingar veitir Martha Kristín áfanga- og fjarnámsstjóri, martha@misa.is

1 nóv 2023

Iðnmeistaranám á vorönn

Menntaskólinn á Ísafirði býður á vorönn 2024 upp á iðnmeistaranám í samstarfi við Verkmenntaskóla Austurlands. Námið er 38 einingar sem skiptast á þrjár annir og kennt er í dreifnámi. Fyrirkomulag námsins hentar einkar vel nemendum sem vilja stunda nám sitt með vinnu. Skráning fer fram í gegnum vef menntamálastofnunar www.menntagatt.is en nánari upplýsingar um námið má finna hér.

25 okt 2023

Vetrarljós

Nemendur í lista- og nýsköpunargreinum tóku þátt í hönnunarkeppni um vetarljós ásamt Lýðskólanum á Flateyri. Efnt var til keppninnar í tengslum við Veturnætur í Ísafjarðarbæ og á opnun hátíðarinnar fengu þrír nemendur verðlaun fyrir sína hönnun. Fyrstu verðlaun hlaut Úrsúla Örk fyrir lampa sem hún kallar Kuldabola, önnur verðlaun hlaut Anna Brauna fyrir standlampa með greniþema og þriðju verðlaun hlaut Anna María Ragnarsdóttir fyrir verk sitt sem nefnist ljóskrús. Vetrarljósin eru til sýnis í verslunargluggum við Silfurtorg. 

25 okt 2023

5 nemendur á íþróttasviði í U19 landsliði í blaki

Fimm nemendur sem stunda nám á íþróttasviði MÍ hafa verið valdir í U19 landsliðið í blaki. Alls eru 12 leikmenn í hópnum sem sem tekur þátt í Norður-Evrópumóti í Finnlandi 26. - 30. október. Þeir Benedikt Stefánsson, Hákon Ari Heimisson, Pétur Örn Sigurðsson, Stanislaw Anikej og Sverrir Bjarki Svavarsson lögðu af stað frá Ísafirði nú í morgun og óskum við þeim til hamingju með að hafa varið valdir í hópinn og góðs gengis á mótinu. 

23 okt 2023

Verkfall kvenna og kvára á kvennafrídaginn

Kvennafrídagurinn er á morgun þar sem á að mótmæla vanmati á störfum kvenna og kynbundnu og kynferðislegu ofbeldi gagnvart konum og kynsegin fólki. Menntaskólinn á Ísafirði styður þessi málefni og hvetur konur, kvár, stelpur og stálp til að taka þátt. Af þeim sökum má búast við skertri kennslu og annarri þjónustu skólans þennan dag.

18 okt 2023

Kvennafrídagurinn

Kvennafrídagurinn verður haldinn þann 24. október n.k. Í ár á að mótmæla vanmati á störfum kvenna og kynbundnu og kynferðislegu ofbeldi gagnvart konum og kynsegin fólki. Menntaskólinn á Ísafirði styður þessi málefni og hvetur konur, kvár, stelpur og stálp til að taka þátt. Af þeim sökum má búast við skertri kennslu og annarri þjónustu skólans þennan dag.

18 okt 2023

Löng helgi

Nú er hin kærkomna langa helgi framundan hjá okkur og verður engin kennsla dagana 19. - 23. okt. Skrifstofa skólans verður einnig lokuð þessa daga. Við vonum að nemendur og starfsfólk njóti frísins og komi endurnærð til starfa þriðjudaginn 24. október. Þann dag er að vísu fyrirhugað Kvennaverkfall til að mótmæla vanmati á störfum kvenna og kynbundnu og kynferðislegu ofbeldi gagnvart konum og kynsegin fólki. Búast má við að starfssemi skólans raskist af þeim sökum. Konur, kvár, stelpur og stálp hafa fengið hvatningu frá skólanum um að taka þátt í skipulagðri dagskrá. 

10 okt 2023

Orkubúið heimsótt

Nemendur í grunndeild rafiðngreina fóru á dögunum í skemmtilega og áhugaverða vísindaferð. Orkubú Vestfjarða var heimsótt og skoðuðu nemendur m.a. starfstöð Landsnets. Vakti ferðin mikla lukku og þakkir færðar fyrir góðar mótttökur.