Menntaskólinn á Ísafirði var stofnaður árið 1970 eftir langa baráttu heimamanna fyrir menntaskóla, baráttu sem má rekja a.m.k. aftur til ársins 1944. Helstu rök heimamanna fyrir stofnun menntaskóla á Ísafirði voru að jafna aðstöðu nemenda til skólagöngu. Ákveðinn áfangasigur náðist þegar leyfi fékkst til að reka framhaldsdeild á Ísafirði sem svaraði til 1. bekkjar í menntaskóla. Vestfirðingar héldu þó áfram að berjast fyrir fullgildum menntaskóla og í þeirri baráttu lögðu margir hönd á plóg og ljóst að samtakamáttur Vestfirðinga, þrautseigja og þor skipti þar miklu máli. Barátta heimamanna bar loks árangur þegar tilkynnt var á haustdögum 1969 að menntaskóli yrði stofnaður á Ísafirði árið 1970. 35 nemendur innrituðust þá um haustið og vorið 1974 útskrifuðust 30 stúdentar við fyrstu brautskráningu skólans.
Í tilefni þess að nú eru 50 ár frá fyrstu útskrift skólans fannst okkur við hæfi að rifja upp þá miklu baráttu sem fjölmargir Vestfirðingar tóku þátt í til þess að af stofnun hans mætti verða. Af þeim sem hvað mest lögðu á sig eru nú tveir á lífi, þeir Gunnlaugur Jónasson og Jón Páll Halldórsson. Stjórnendur MÍ heimsóttu þá í tilefni tímamótanna og færðu þeim þakklætisvott fyrir þeirra framlag. Það var afskaplega gaman og áhugavert að rifja upp þennan tíma með þeim Gunnlaugi og Jóni Páli. M.a. rifjuðum við upp blaðagrein sem þeir félagar skrifuðu þann 22. júní 1969 og birtist í Morgunblaðinu sem bar heitið ,,Ný menntunarhöfuðból verða að rísa – Jafna verður aðstöðuna til skólagöngu“ og má lesa HÉR.