Reisugildi í dag

14 okt 2024

Reisugildi í dag

Í dag samfögnuðum við húsasmíðanemendum á 4. önn og kennurum þeirra að síðasta sperran í húsi sem Skíðafélag Ísfirðinga (SFÍ) mun eignast er risin. Reisugildið var fjölmennt þar sem saman komu nemendur, starfsfólk og fulltrúar SFÍ. Eins og hefð er fyrir í reisugildum var íslenska fánanum flaggað í tilefni áfangans og boðið upp á veitingar.

Nú stunda 10 nemendur nám á 4. önn í húsasmíði og eru kennarar í verklegum húsasmíðagreinum þeir Hermann Björn Þorsteinsson og Þórhallur Snædal. Nemendurnir taka nú tvo stóra áfanga þar sem kennd er smíði staðbyggðra timburhúsa með áherslu á undirstöður, burðar- og milliveggi. Sömuleiðis er farið í klæðningu, einangrun, uppsetningu glugga, hurða, stiga og innréttinga auk almenns frágangs. Sömuleiðis læra nemendur um útfærslu einstakra byggingarhluta, efnisval, staðsetning á stoðum, bitum og sperrum auk umfjöllunar um þakkvisti og frágang í kringum þakop.

Til hamingju húsasmíðanemendur og kennarar með áfangann. Við hlökkum til að fylgjast áfram með byggingaframkvæmdum.

 

 

Til baka