Sem hluti af námi nemenda á stúdentsprófsbrautum er lokaverkefnisáfangi. Í áfanganum vinna nemendur að verkefnum að eigin vali í samráði við kennara áfangans og oft undir handleiðslu annarra kennara við skólann.
Í lokaverkefnisvinnunni þurfa nemendur að sýna sjálfstæði í vinnubrögðum, virkni, frumkvæði og þjálfa skipulagshæfileika sína, enda skipuleggja þeir vinnu sína sjálfir undir almennri verkstjórn kennara. Lokaverkefnisáfanganum er ætlað að skerpa undirbúning nemenda fyrir háskólanám, sérstaklega hvað varðar leikni og hæfni til að afla áreiðanlegra gagna, vinna úr þeim og koma niðurstöðum sínum á framfæri. Í áfanganum fá nemendur tækifæri til að draga saman reynslu og fyrra nám í verkefnavinnu og að velja sér nýtt svið til þekkingaröflunar.
Hægt er að ljúka verkefnum á ýmsan hátt, s.s. í formi heimildaritgerðar, rannsóknarskýrslu, vefsíðu, heimildamyndar, fullunnar afurðar eða tímaritsgreinar. Afrakstur allra lokaverkefna haustannar var kynntur á opnu málþingi í morgun og þar mátti finna mörg ólík og áhugaverð verkefni:
- Theodore Robert Bundy - raðmorðingi verður til
- Hvati íslenskra kvenna í lyftingum
- Keramikgerð og saga
- Íþróttasálfræði
- Hvað hefur áhrif á upplifun einstaklinga sem fara í skiptinám?
- Sjálfsmynd ungmenna
- Hönnun og uppsetning fataherbergis
Við óskum nemendum í lokaverkefnisáfanganum til hamingju með vel heppnaðar kynningar og áhugaverð verkefni.