Vel heppnuð vörumessa MÍ

7 apr 2025

Vel heppnuð vörumessa MÍ

1 af 2

Vörumessa MÍ sem haldin var 3. apríl s.l. var vel sótt og voru bæði nemendur sem tóku þátt og voru aðstandendur messunnar, kennarar og starfsfólk Vestfjarðastofu sem hýsti viðburðinn, mjög ánægð með útkomuna. Fjölmargir gestir sóttu viðburðinn og voru duglegir að versla af nemendum.

Vörumessan er uppskeruhátið nemenda í áfanganum Hugmyndir og nýsköpun sem fá þannig tækifæri til að kynna verkefni sín og selja vöru sem þau hafa þróað, en einnig er hún æfing í að koma verkefnum í framkvæmd. Nokkur verkefni voru unnin í samstarfi við fyrirtæki á svæðinu.

Viðurkenningar voru veittar í lok vörumessunnar. Dómnefndin skoðaði hvern bás vel og vandlega, spjallaði við nemendur um vörur þeirra, hugmyndirnar og þróunarferlið. Viðurkenningar voru veittar í þremur flokkum.   

  • Grænasta hugmyndin var metin út frá umhverfisáhrifum, endurvinnslu og hagsýni í nýtingu efna og hlaut þessa viðurkenningu verkefnið Blöð framtíðar.  Vasilía Rós Jóhannsdóttir og Kristjana Rögn Andersen þróuðu hugmyndina sem gekk út á að endurvinna pappír til að nota í bæklinga, skissubækur o.fl.

  • Áhugaverðasti básinn tók mið af hönnun og útliti bássins, uppstillingu afurðar auk framkomu nemenda. Varð Gyðja, handlóð sem er líka heimilis-skraut, fyrir valinu. Bríet María Ásgrímsdóttir, Jade Filipa da Silva Rosa, Jóhanna Wiktoria Harðardóttir og Katla Salome Hagbarðsdóttir unnu verkefnið.

  • Bjartasta vonin var sú hugmynd sem álitin var líklegust til að geta haldið áfram og þróast á svæðinu. Verkefnið Gaddur var hlutskarpast og áttu hugmyndina Hákon Ari Heimisson, Pétur Örn Sigurðsson, Sverrir Bjarki Svavarsson og Þorbjörn Jóhann Helgason. Gaddur er „Ís með karakter – skemmtilegir bragðmöguleikar sem gleðja bragðlaukana!“ og var hugmyndin þróuð í samvinnu við mjólkurvinnslu Örnu. Gaddur er með heimasíðu og vefverslun https://gaddur.is/.

 

 

Til baka