Í gær héldu 12 nemendur úr MÍ út til Frakklands að heimsækja franskan vinaskóla MÍ sem heitir Lycée Sainte Marie du Port og er í strandbænum Les Sables d´Olonne á vesturströnd Frakklands. Með í för eru þær Nadja Widell frönskukennari og Hildur Halldórsdóttir alþjóðafulltrúi sem skiptir svo við Svavar Þór Guðmundsson í næstu viku.
Nemendur franska skólans komu til Ísafjarðar í apríl sl. og nú er verið að endurgjalda þá heimsókn. Nemendaskipti sem þessi hafa verið fastur liður í skólastarfi MÍ síðan 2004 og ávallt mikið tilhlökkunarefni enda bæði þroskandi og lærdómsríkt að taka þátt í verkefni af þessu tagi. Ferðin er hluti af Erasmus+ verkefnum skólans og er styrkt af Evrópusambandinu. Nemendur MÍ munu dvelja alls 10 daga í Frakklandi, um viku í Sables þar sem þau gista á frönskum heimilum og svo nokkra daga í París í lok ferðar. Á meðfylgjandi mynd má sjá hópinn ásamt frönsku nemendunum og kennurum þeirra.
20 sep 2024