Mikið hefur drifið á daga nemenda okkar í Sables í Frakklandi undanfarna viku. Þau dvelja á heimilum franskra nemenda, verja bæði tíma með fjölskyldum þeirra og mæta í skólann með þeim. Ýmislegt fleira hefur verið skipulagt fyrir utan skóla. Á föstudag var farið í gönguferð þar sem nemendur í ferðamáladeild skólans leiðsögðu um gamla bæinn í Sables. Eftir hádegi var farið á ströndina og á brimbrettanámskeið þar sem allir þátttakendur náðu að standa á brimbretti í frábæru veðri, sól og hita. Á mánudag var farið í rútuferð til borgarinnar La Rochelle sem er í um tveggja tíma akstur sunnan við Sables. Borgin er gömul og saga hennar er mjög áhugaverð. Meðal annars í tengslum við seinni heimstyrjöldina. Þennan dag var grenjandi rigning en nemendur létu það ekki á sig fá. Við gengum stuttan hring um miðbæinn í fylgd franska kennarans og síðan fóru nemendur í ljósmyndamaraþon sem stóð til hádegis. Eftir hádegið var farið í heimsókn í sædýrasafn. Á þriðjudag voru nemendurnir í tímum með sínum tengiliðum og um kvöldið var kveðjuveisla í skólanum þar sem allir komu með mat að heiman, frábær stemming og mikið sungið og dansað. Á morgun taka þau lestina til Parísar þar sem þau hitta Svavar Þór kennara og verður hann með þeim ásamt Nadju frönskukennara í fjóra daga að skoða borgina.
25 sep 2024