Gefum íslensku séns í MÍ

4 okt 2024

Gefum íslensku séns í MÍ

1 af 3

Á haustdögum fengum við Eirík Rögnvaldsson fyrrverandi prófessor í íslenskri málfræði til að halda erindi fyrir alla nemendur um allskonar íslensku. Í kjölfar erindisins ræddi Ólafur Guðsteinn Kristjánsson um verkefnið Gefum íslensku séns – íslenskuvænt samfélag  sem miðar að því að auka möguleika fólks í notkun íslensku á sem víðtækastan og fjölbreyttastan hátt. Markmiðið er að fólk sem lærir málið fái stuðning og skilning þeirra sem hafa vald á íslensku auk þess sem því er ætlað að vekja samfélagið til vitundar um það hvernig við getum öll stuðlað að framförum fólks í íslensku og að fólk hafi tækifæri til að nota málið við sem flest tækifæri.

Kennarar og nemendur í MÍ hafa strax tekið við sér og nú hafa verið skipulagðir vikulegir tímar þar sem þau sem hafa íslensku að móðurmáli og þau sem hafa annað móðurmál en íslensku spjalla saman á íslensku. Verkefnið höfum við kosið að kalla Gefum íslensku séns í MÍ og er það innblásið af verkefni Ólafs Guðsteins og félaga hjá Háskólasetri Vestfjarða. Verkefnið fer virkilega vel af stað, mikill áhugi og frábær þátttaka hjá nemendum. Um fjórðungur nemenda Menntaskólans á Ísafirði hefur annað móðurmál en íslensku og alls eru töluð hátt í tuttugu tungumál í skólanum. Við fögnum fjölbreytileikanum og viðurkennum að við erum allskonar og það er hægt að tala allskonar íslensku.

Til baka