Uppskeruhátíð Evrópuverkefna

23 maí 2024

Uppskeruhátíð Evrópuverkefna

1 af 4

Í tilefni þess að 30 ár eru frá undirritun samnings um evrópska efnahagssvæðisins var þann 8. maí sl. blásið til uppskeruhátíðar Evrópuverkefna. Menntaskólanum á Ísafirði var boðið að taka þátt og kynna Evrópuverkefni sem skólinn hefur tekið þátt í og fengið hafa styrk úr samstarfsáætlunum ESB. Það voru Rannís, utanríkisráðuneytið, háskóla-, iðnaðar-, og nýsköpunarráðuneytið og sendinefnd ESB á Íslandi sem stóðu að hátíðinni og áætlað er að rúmlega 600 manns hafi sótt viðburðinn sem fram fór í Kolaportinu.

Verkefnin sem kynnt voru á hátíðinni komu alls staðar að úr samfélaginu, enda hafa áætlanir ESB styrkt íslenska aðila á sviði menntamála, kvikmyndagerðar, æskulýðsmála, rannsókna, nýsköpunar og fleiri sviðum. 

Fyrir hönd MÍ tóku þátt þær Hildur Halldórsdóttir alþjóðafulltrúi og Friðgerður Ómarsdóttir fjármálastjóri. Þær tóku við viðurkenningu frá Landsskrifstofu Erasmus+ fyrir árangursríkt verkefni og kynntu m.a. ferð nemenda á starfsbraut til Amsterdam í fyrra ásamt fleiri verkefnum sem nemendur og starfsfólk skólans hafa tekið þátt í. 

Sigurjón Ragnar ljósmyndari tók meðfylgjandi myndir við þetta tilefni.

Til baka