Ný reglugerð um takmörkun á skólastarfi vegna farsóttar

5 okt 2020

Ný reglugerð um takmörkun á skólastarfi vegna farsóttar

Með vísan til 2. mgr. 12. gr. sóttvarnalaga nr. 19/1997 hefur heilbrigðisráðherra ákveðið, að fenginni tillögu sóttvarnalæknis og í samráði við mennta- og menningarmálaráðherra, að takmarka skólastarf tímabundið eftir því sem hér greinir.

Markmið með reglugerð þessari er að tryggja að sem minnst röskun verði á skólastarfi vegna COVID-19 sjúkdómsins með ýtrustu sóttvarnarsjónarmið að leiðarljósi.

Takmörkun á skólastarfi tekur gildi 5. október 2020 og gildir til og með 19. október 2020.

Reglugerðina er að finna hér.

 

5. gr.

Framhaldsskólar.

Í öllum byggingum framhaldsskóla er skólastarf heimilt að því tilskildu að nemendur og starfs­fólk geti haft minnst 1 metra fjarlægð sín á milli og hámarksfjöldi nemenda í hverri kennslustofu fari ekki yfir 30. Í sameiginlegum rýmum skóla, s.s. við innganga, í anddyri, á salerni og á göngum, er heimilt að víkja frá fjöldatakmörkun og reglu um blöndun hópa að því gefnu að notast sé við andlitsgrímu. Við aðstæður þar sem ekki er hægt að framfylgja nándarreglunni, svo sem í verklegri kennslu, listkennslu, klínísku námi og kennslu nemenda á starfsbrautum skulu nemendur og kennarar nota andlitsgrímu sem hylur munn og nef.

Blöndun nemenda milli hópa er ekki heimil í kennslu en starfsfólki er heimilt að fara á milli hópa.

Aðrir viðburðir sem ekki teljast til kennslu eða náms skulu ekki fara fram í skólabyggingum. Takmarka skal gestakomur í skólabyggingar.

Við íþróttakennslu eru snertingar heimilar milli nemenda á æfingum og í keppnum. Aftur á móti skal virða 1 metra nálægðartakmörkun í búningsklefum og á öðrum svæðum utan æfingasvæðis og keppnissvæðis.

Sameiginlegir snertifletir í kennslustofum framhaldsskóla skulu sótthreinsaðir eftir hverja við­veru nemenda­hópa. Jafnframt skal sótthreinsa sameiginlegan búnað og snertifleti a.m.k. einu sinni á dag og leggja áherslu á einstaklingsbundnar sóttvarnir.

Ákvæði þetta skal ekki koma í veg fyrir að nemendur geti áfram dvalið á heimavist.

 

Til baka