Afsökunarbeiðni ræðuliðs MÍ

17 feb 2014

Afsökunarbeiðni ræðuliðs MÍ

Stjórnendur Menntaskólans á Ísafirði harma þau ósæmlegu og niðrandi orð sem liðsmenn ræðuliðs MÍ létu falla í aðraganda og í viðureign sinni við ræðulið MA á Akureyri föstudaginn 7. febrúar síðastliðinn. Á þessu máli hefur verið tekið enda framkoman skýrt brot á skólareglum og þeir sem áttu í hlut hafa þegar þurft að taka afleiðingum gjörða sinna. Hér á eftir fylgir afsökunarbeiðni frá ræðuliði MÍ, þjálfara, aðstoðarþjálfara og Málfinni Nemendafélags MÍ:

Vegna framgöngu okkar í Ræðuliði Menntaskólans á Ísafirði (RLMÍ), viljum við biðja alla hluteigandi, sérstaklega Eyrúnu Björgu Guðmundsdóttur, innilegrar afsökunar opinberlega á ósæmilegum orðum okkar í garð ræðuliðs MA. Ræðulið MÍ harmar þau ósæmilegu orð sem látin voru falla í samskiptum fyrir keppni sem og í sjálfri keppni liðanna. Aldrei var það ætlun liðsmanna að sýna neinum fyrirlitningu, hvað þá tala niður til kvenna.

Þau mistök sem gerð voru, eru á ábyrgð þeirra sem þau framkvæmdu. Viljum við liðsmenn RLMÍ taka það sérstaklega fram að hvergi var hvatt til, né viðurkennd af þjálfara sú ósæmilega hegðun sem átti sér stað bæði fyrir keppni sem og á keppninni sjálfri. Í aðdraganda keppninnar voru ósæmileg orð sögð við liðsmann MA án vitundar þjálfara, Ingvars Arnar Ákasonar, sem baðst afsökunar fyrir hönd liðs um leið og hann frétti af þeim. Í ræðu liðstjóra í keppninni sjálfri var ekkert sem þjálfari skrifaði eða kom nálægt, heldur beindi hann einmitt frekar athygli sinni að því að taka út ósæmilegt orðbragð í garð kvenna þegar hann heyrði ræðuna. Þjálfari telur sig hafa kveðið mjög sterkt á um að ósæmindin kæmu ekki fram í ræðunni og hann biðlaði til liðstjórans að lokum með orðunum: „lestu salinn“.

Liðstjóri RLMÍ vill taka það fram að hann harmar mjög framkomu sína gagnvart konum með orðfæri sínu í ræðu sinni og einnig að orð hans voru að hluta til misskilin og beindust þau ekki að liðsmanni ræðuliðs MA. Ógeðsleg orð sem áttu ekki að heyrast. Einnig vill liðstjórinn taka það fram að hann baðst afsökunar í eigin persónu fyrir sína hönd daginn eftir keppni þegar honum gafst færi til sem var á þeim tíma samþykkt af liðsmanninum sem um ræðir í liði andstæðinganna. Einn annar liðsmanna sem og þjálfari hafa beðist afsökunar eftir keppni fyrir hönd liðs í heild og allir aðilar hafa nú viðurkennt mistök sín. Liðstjórinn mun svo sjálfur senda út yfirlýsingu um sín mál.

Að því sögðu viljum við óska ræðuliði MA til hamingju með sanngjarnan sigur og velfarnaðar í komandi keppnum. Við munum læra af gjörðum okkar og stefnum framvegis á að keppa af vinsemd og með virðingu gagnvart keppendum eins og við höfum gert áður og leggjast ekki á það plan að tala illa um andstæðinga okkar né aðra. Við viljum að keppnin snúist um málefni en ekki manneskjur og vonum við að áherslur í framtíðinni munu færast aftur í þá átt, við munum í það minnsta taka þá stefnu í framtíðinni og snúa málafærslu okkar til betri vegar. Við viljum vera skólanum okkar og samfélagi til sóma og því verður þessi hegðun ekki liðin hér eftir. Afsakið öll!

 

Með vinsemd og virðingu við alla aðila,
Ræðulið Menntaskólans á Ísafirði

Björgúlfur Egill Pálsson
Davíð Sighvatsson
Ragnar Óli Sigurðsson
Ísak Emanúel Róbertsson

Ingvar Örn Ákason þjálfari
Þórir Karlsson aðstoðarmaður
Halldór Páll Hermannsson málfinnur NMÍ

Til baka