Hluti nemenda í áfanganum Umhverfis- og átthagafræði, sem kenndur er í Menntaskólanum á Ísafirði, gróðursetti tvö birkitré á lóð menntaskólans í tilefni af degi íslenskrar náttúru þann 16. september síðastliðinn.
Í vikunni á undan heimsótti nemendahópurinn sýninguna Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur í Edinborgarhúsinu. Hópurinn fékk leiðsögn um sýninguna frá Auði Önnu Magnúsdóttur framkvæmdastjóra Landverndar og Tryggva Felixsyni formanni Landverndar. Sýningin var samsýning Landverndar og Ólafs Sveinssonar og var sett upp á Ísafirði í samstarfi við Náttúruverndarsamtök Vestfjarða. Í lok leiðsagnar fékk hópurinn þessar tvær birkiplöntur að gjöf.
Á degi íslenskrar náttúru hófst landsátak í endurheimt birkiskóga og var því viðeigandi og skemmtilegt að nemendur í áfanganum fengju tækifæri til að taka þátt í átakinu með þessum hætti.