27 maí 2013
Laugardaginn 25. maí voru 67 nemendur brautskráðir frá Menntaskólanum á Ísafirði. Að vanda var útskriftarathöfnin haldin í Ísafjarðarkirkju að viðstöddu fjölmenni. Að þessu sinni voru átta nemendur útskrifaðir með diplóma í förðunarfræðum. Þeir nemendur hafa auk þess lokið þeim greinum í hársnyrtiiðn sem kenndar eru á tveggja ára grunnnámsbraut við skólann. Þá voru 12 nemendur útskrifaðir með A réttindi vélstjórnar. Einnig luku fjórir sjúkraliðar námi og fimm stálsmiðir. Af félagsfræða- og náttúrufræðibraut voru brautskráðir 36 nemendur og tveir luku viðbótarnámi til stúdentsprófs. Að vanda sáu útskriftarnemar um tónlistarflutning í athöfninni en einnig kom Sönghópur MÍ fram undir stjórn Bjarneyjar Ingibjargar Gunnlaugsdóttur og við undirleik Kristínar Hörpu Jónsdóttur nema á fyrsta ári. Þá fluttu fulltrúar 10, 20 og 25 ára stúdenta ávörp og einnig formaður skólanefndar, Jóna Benediktsdóttir. Við athöfnina voru fjölmargar viðurkenningar veittar fyrir góðan námsárangur. Hæstu meðaleinkunn á stúdentsprófi hlaut Sigmundur Ragnar Helgason en hann lauk prófi af náttúrufræðibraut með einkunnina 9,67. Er það hæsta einkunn sem gefin hefur verið við skólann. Næst hæstu einkunn hlaut Marelle Maekalle en hún lauk prófi af náttúrufræðibraut á þremur árum, með einkunnina 9,37.