Dagur Sigurðsson landsliðsþjálfari Japans í handbolta hélt í dag fyrirlestur fyrir nemendur á afreksíþróttasviði Menntaskólans á Ísafirði.
Fyrirlesturinn fjallaði um hvað það er sem skiptir máli til að ná árangri í íþróttum. Dagur tók dæmi frá sínum ferli sem leikmaður í handbolta og sem þjálfari Bregenz, Füchse Berlin og austuríska, þýska og japanska landsliðsins í handbolta, en Dagur á að baki farsælan feril bæði sem leikmaður og þjálfari. Skemmst er að minnast Evrópumeistaratitils þýska landsliðsins árið 2016, og fyrir tíu dögum náðu Japanir bronsi á Asíuleikunum undir stjórn Dags.
Fyrirlesturinn vakti mikla athygli nemenda og verður þeim án efa góð hvatning í sínu námi. 44 nemendur Menntaskólans á Ísafirði stunda nám á afreksíþróttasviði.
Menntaskólinn á Ísafirði þakkar Degi Sigurðssyni fyrir heimsóknina og óskar honum og japanska landsliðinu góðs gengis á Ólympíuleikunum í Tokyo í sumar.