Menntaskólinn á Ísafirði er kominn með 5 græn skref! Vegferð skólans í þessu verkefni hófst fyrir alvöru í byrjun árs 2022 og náðust fyrstu tvö skrefin á vorönn. Um haustið bættist við þriðja skrefið, það fjórða rétt fyrir páskafrí og undir lok vorannar 2023 var svo fimmta og síðasta skrefið í höfn. Það má segja að vinnan við að uppfylla aðgerðir grænu skrefanna hafi oft verið krefjandi en um leið bæði skemmtileg og fróðleg auk þess að bæta umhverfisvitund starfsfólks og nemenda.
Margt hefur áunnist hvað varðar vinnu við að draga markvisst úr losun gróðurhúsalofttegunda í starfsemi skólans. Sem dæmi hefur blandaður (óflokkaður) úrgangur minnkað mikið, enda hefur markvisst verið unnið að því að bæta aðstöðu til flokkunar og að fræða starfsfólk og nemendur. Notkun á skrifstofupappír hefur dregist verulega saman og ávallt eru valdar vistvænar rekstrarvörur séu þær í boði. Matseðillinn í mötuneytis skólans er orðinn “grænni“ en áður, ávallt er grænkeraréttur í boði, en einnig er reynt að sporna við matarsóun eins og kostur er. Þá hefur ferðavenjukönnun verið framkvæmd haust og vor til að gera bæði starfsfólk og nemendur meðvitaðri um ferðamáta til og frá skóla og hvort hægt væri að draga úr umhverfisáhrifum vegna samgangna.
Þessari vinnu er þó ekki nærri lokið heldur verður áfram unnið í ýmsum aðgerðum á þessu sviði. Til að tryggja betur að svo verði hefur teymið sem sett var á laggirnar til að hafa yfirumsjón með innleiðingu grænu skrefanna fengið framhaldslíf og mun framvegis starfa sem umhverfisnefnd MÍ.