17 nóv 2008
Þessa dagana er menntamálaráðherra á ferð um landið að kynna nýja menntastefnu og ný lög um þrjú skólastig og menntun kennara. Næsti fundur verður haldinn í Menntaskólanum á Ísafirði miðvikudaginn 19. nóvember kl. 20. Á fundinum mun Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra, kynna nýja menntastefnu og Arnór Guðmundsson, skrifstofustjóri í menntamálaráðuneyti, kynnir nýja menntalöggjöf nánar. Að erindum loknum verða pallborðsumræður með málshefjendum ásamt Guðna Olgeirssyni og Sölva Sveinssyni, sérfræðingum í menntamálaráðuneyti. Fundarstjóri verður Halldór Halldórsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar og formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga.
Fundurinn er öllum opinn og vill menntamálaráðuneytið hvetja skólafólk, foreldra, nemendur og annað áhugafólk um skólamál til að mæta og ræða nýja menntalöggjöf sem býður upp á mörg og spennandi tækifæri fyrir íslenskt skólakerfi.