Menntaskólinn á Ísafirði í samstarfi við Þjóðbúningafélag Vestfjarða mun bjóða nemendum skólans að sauma sér þjóðbúning í vali næsta vetur. Um er að ræða kvenbúninga, upphlut eða peysuföt frá 19. eða 20. öld. Kennt verður einu sinni í viku, allan veturinn í tvo til þrjá tíma í senn og ljúka nemendur við að sauma sér heilan búning á þeim tíma. Kennarar verða Anna Jakobína Hinriksdóttir og Soffía Þóra Einarsdóttir, en þær hafa kennt þjóðbúningasaum hjá Þjóðbúningafélagi Vestfjarða undanfarin misseri. ÞBFV hefur fengið styrk frá Menningaráði Vestfjarða, þannig að þátttakendur í þessu námskeiði munu ekki þurfa að greiða námskeiðsgjöld, einungis efniskostnað. Þetta er því einstakt tækifæri og hefur þjóðbúningasaumur aldrei verið kenndur við framhaldsskóla hér á landi fyrr svo vitað sé. Enn eru nokkur pláss laus í þessum áfanga og áhugasamir þurfa að setja sig í samband við Friðgerði Ómarsdóttur fridgerd@misa.is eða Hrafnhildi Hafberg hrafnh@misa.is til að fá nánari upplýsingar.
13 jún 2013