Dagana 23.-24. ágúst fór fjölmennur hópur nýnema í náms- og samskiptaferð að Núpi í Dýrafirði ásamt 6 starfsmönnum skólans. Þegar komið var í Dýrafjörð var byrjað á góðri gönguferð út að eyðibýlinu Arnarnesi og síðan gengið að Núpi þar sem hádegisverður beið göngufólksins. Eftir hádegi var farið í göngu- og skoðunarferð í Skrúð, rúmlega aldargamlan skrúðgarð sem stofnaður var af sr. Sigtryggi Guðmundssyni skólastjóra Núpsskóla. Garðurinn var nýttur til kennslu í garðrækt og plöntufræði en einnig til að kenna nemendum að neyta grænmetis og garðjurta sér til heilsubótar. Síðan tók við frjáls tími fram að kvöldverði en að honum loknum var kvöldvaka í sal Núpsskóla. Nemendaráð skólans mætti á kvöldvökuna, tók þátt í leikjum og kynnti starf vetrarins. Daginn eftir var ratleikur fyrir hádegi, áður en haldið var til baka til Ísafjarðar. Ferðin gekk í alla staði vel og nemendur voru sér og skólanum til sóma.
29 ágú 2018