Afreksíþróttasvið Menntaskólans hefur nú verið endurvakið. Afrekssvið var um tíma starfrækt við skólann undir stjórn Hermanns Níelssonar heitins íþróttakennara en hefur legið niðri í nokkur ár. Fyrst um sinn eru það íþróttafélögin Hörður, Skíðafélaga Ísfirðinga og blak-, knattspyrnu- og körfuboltadeildir Vestra sem eiga aðild að afreksíþróttasviði. Vonast er til að fleiri íþróttafélög bætist í hópinn á næstu misserum.
Afreksíþróttasviðið hentar vel nemendum sem vilja stunda sína íþrótt með álagi afreksmanna samhliða námi. Sviðið er þannig uppbyggt að á hverri önn taka nemendur 5 eininga áfanga sem samanstendur af íþróttaæfingum og bóklegri kennslu þar sem eitt ákveðið viðfangsefni er tekið fyrir. Á þessari önn er áherslan á næringarfræði. Íþróttaþjálfarar á vegum íþróttafélaganna sjá um þjálfun á íþróttaæfingum en Kolbrún Fjóla Arnarsdóttir íþróttakennari sér um kennsluna í næringarfræði.
27 nemendur hafa nú skrifað undir samning um þátttöku á afreksíþróttasviðinu. Skuldbinda nemendur sig til að leggja hart að sér í námi og íþróttum auk þess að neyta ekki tóbaks, áfengis, árangursaukandi efna sem og annarra vímuefna. Mættu allir nemendurnir ásamt forráðamönnum á góðan fund hér í skólanum í gær og er óhætt að segja að mikil eftirvænting hafi verið í loftinu. Það er trú okkar hér í MÍ að afreksíþróttasviðið hafi mikið forvarnargildi og eigi eftir að auka tengingu milli nemenda í ólíkum íþróttagreinum sem og að stuðla að betri árangri nemenda, bæði í skóla og íþróttum.