Lilja Jóna Júlíusdóttir hlaut á dögunum styrk úr afreks- og hvatningarsjóði stúdenta Háskóla Íslands. Lilja Jóna lauk námi af náttúruvísindabraut Menntaskólans á Ísafirði í vor og hlaut þá verðlaun Kerecis fyrir góðan námsárangur í líffræðigreinum. Samhliða námi lagði hún stund á píanónám og vann með skóla. Hún lagði mikla áherslu á náttúru- og raunvísindi í sínu námi við MÍ og hefur nú innritast í lífeindafræði í HÍ.
Lilja Jóna veitti styrknum viðtöku við hátíðlega athöfn í aðalbyggingu HÍ ásamt 30 öðrum nýnemum sem hlutu styrk að þessu sinni. Alls bárust 76 umsóknir en við úthlutun styrkja úr sjóðnum er auk námsárangurs á stúdentsprófi litið á frammistöðu á öðrum sviðum, svo sem í félagsstörfum í framhaldsskóla eða listum og íþróttum. Sjóðurinn styrkir einnig nemendur sem hafa sýnt fádæma seiglu og þrautseigju og hafa, þrátt fyrir afar erfiðar aðstæður, staðið sig afar vel í námi.
Við óskum Lilju Jónu innilega til hamingju með styrkinn og óskum henni góðs gengis á nýjum slóðum.