18 apr 2011
Nemendur á Starfsbraut MÍ urðu í öðru sæti í Stuttmyndakeppni starfsbrauta í framhaldsskólum sem haldin var í Borgarholtsskóla 14. apríl. Þetta var í fyrsta skiptið sem þeir taka þátt í slíkri keppni. Í umsögn dómnefndar, sem skipuð var þremur leikstjórum, segir m.a. að myndin hafi verið frumleg og fyndin og að leikarar hafi sýnt mikil tilþrif. Kristján Viggósson, enskukennari við Menntaskólann, sá um að velja efni myndarinnar í samráði við nemendur og leikstjórn var einnig í höndum hans. Hreinn Þórir Jónsson og Einar Bragi Guðmundsson, sem báðir eru nemendur í skólanum, tóku upp myndina og klipptu hana til sýningar. Það voru alls 16 skólar sem tóku þátt í keppninni. Í fyrsta sæti var framlag Fjölbrautaskólans í Garðabæ og í þriðja sæti varð Verkmenntaskólinn á Akureyri. Nemendum á starfsbraut er óskað innilega til hamingju með þennan frábæra árangur! Myndir úr ferðinni eru komnar inn á heimasíðuna.